KR-TV er vefsjónvarp körfuknattleiksdeildar KR og eru deildar, bikar og evrópuleikir meistaraflokks karla í körfuknattleik sýndir þar í beinni útsendingu. KR-TV fór í loftið þann 11. október árið 2007 í fyrsta leik KR á tímabilinu 2007-08 en það var leikur gegn Fjölni sem KR vann með 100 stigum gegn 78. Ingi Þór Steinþórsson, einn af þjálfurum yngri flokka KR í körfubolta, lýsti mörgum leikjum auk þess sem Atli Freyr Einarsson og Hjalti Kristinsson lýstu einhverjum leikjum.
KR-TV var með beina útsendingu frá öllum leikjum KR í deild og bikarkeppninni 2007-08 auk heimaleikjarins í evrópukeppninni, alls 29 leikir. KR-TV fékk ekki leyfi frá FIBA til að senda útileikinn í beinni útsendingu, en KR keppti við Banvit frá Tyrklandi. Auk þess að sýna frá leikjum meistaraflokks karla voru líka beinar útsendingar frá stórum heimaleikjum meistaraflokks kvenna ásamt úrslitaleikjum í unglinga- og drengjaflokki.