Fara í innihald

Jóhann 3. Svíakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jóhann 3. Svíakonungur. Málverk eftir Johan Baptista van Uther frá 1582.

Jóhann 3. (20. desember 153717. nóvember 1592) var konungur Svíþjóðar frá því að Eiríkur 14. bróðir hans var settur af árið 1568 og til dauðadags. Milli 1556 og 1563 var hann einnig hertogi af Finnlandi. Eftir að hann varð konungur tók hann sér titilinn stórfursti af Finnlandi.

Hertogi Finnlands

[breyta | breyta frumkóða]

Jóhann var næstelsti sonur Gústafs Vasa. Móðir hans var miðkona Gústafs, Margrét Eiríksdóttir (Leijonhufvud). Eldri hálfbróðir hans, Eiríkur, erfði krúnuna þegar faðir þeirra dó 1560. Ekki er annað að sjá en vel hafi farið á með bræðrunum framan af en um það leyti sem Eiríkur varð konungur fór hann að sýna ýmis einkenni geðklofa og fékk sænska aðalinn upp á móti sér, þar með talinn Jóhann bróður sinn.

Eiríkur ásakaði bróður sinn um landráð og í júní var dæmdur frá lífi, eignum og erfðarétti. Jóhann, sem ekki var viðbúinn dómnum, var innikróaður í Åbo-kastala og varðist þar í nokkrar vikur en gafst svo upp gegn því að vera settur í fangelsi sem hentaði stétt hans. Hann var svo fluttur til Svíþjóðar og hafður í haldi í Gripsholmshöll ásamt eiginkonu sinni, pólsku konungsdótturinni Katrínu Jagelloniku, sem hann hafði gifst ári áður. Þar voru þau í fjögur ár og fæddust tvö börn þeirra í fangelsinu. Jóhann, sem var bókhneigður, drap tímann með því að lesa og auka menntun sína, sem raunar var ágæt fyrir.

Jóhann var látinn laus í október 1567. Geðsýki Eiríks konungs magnaðist þó stöðugt og Jóhann óttaðist mjög að vera aftur hnepptur í fangelsi. Hann tók því höndum saman við yngsta bróðurinn, Karl hertoga, sem þá var fullvaxinn, og ýmsa aðalsmenn, og eftir að Eiríkur giftist almúgastúlkunni Karinu Monsdóttur í júlí 1568 jókst andstaða gegn honummeð leifturhraða. 29. september um haustið var Eiríkur tekinn til fanga og skömmu síðar var Jóhann hylltur konungur.

Konungur Svíþjóðar

[breyta | breyta frumkóða]

Jóhann var mjög tortrygginn að eðlisfari eins og hann átti kyn til og hann taldi setu sína á konungsstóli ekki trygga meðan Eiríkur bróðir hans lifði og hafði miklar áhyggjur af að einhverjir reyndu að frelsa hann og nota hann sér til framdráttar. Árið 1571 gaf hann vörðunum sem gættu Eiríks fyrirmæli um að ef minnsti grunur léki á að eitthvað slíkt væri í undirbúningi skyldi drepa Eirík með eitri. Ekki er vitað hvort svo fór en þegar Eiríkur dó 1577 fóru strax á kreik sögur um að hann hefði verið drepinn og þegar bein hans voru rannsökuð á 20. öld fundust sterkar vísbendingar um banvæna arsenikeitrun.

Eitt af fyrstu verkefnunum sem Jóhann þurfti að takast á við var að ljúka Sjö ára stríðinu, sem bróðir hans hafði hafið, og tókst honum að ná fram tiltölulega hagstæðum friðarsamningum árið 1570. Hann barðist líka við Rússa í Líflandi. Þar sem kona hans var pólsk mátti sjá greinileg pólsk áhrif í utanríkisstefnu hans, ekki síst eftir að sonur hans, Sigmundur 3. Vasa, varð konungur Póllands 1587. Kaþólsk áhrif drottningar á Jóhann voru líka greinileg og hún ól börn þeirra upp í kaþólskri trú, sem sænsku kirkjunni og aðlinum féll mjög illa. Þó dró úr kaþólsku áhrifunum á konunginn þegar hann giftist seinni konu sinni, sem var eindreginn mótmælandi. Hann átti líka oft í deilum við Karl hertoga bróður sinn.

Þegar Jóhann tók við völdum var hann fremur vinsæll hjá aðlinum og í góðu sambandi við kirkjuna en hann var skapbráður, tortrygginn og ofbeldisfullur eins og faðir hans og bróðir en skorti skarpskyggni þeirra, festu og varfærni og smátt og smátt hurfu allir bandamenn hans frá stuðningi við hann. Sonurinn Sigmundur fór til Póllands og tók þar við konungdómi og dóttirin Anna dvaldist þar einnig meira og minna. Hann reyndi að sættast við bróður sinn en fljótlega urðu þeir ósáttir að nýju og má segja að Jóhann konungur hafi staðið aleinn síðustu mánuði ævinnar. Hann dó í Stokkhólmi 17. nóvember 1592 og lét eftir sig mikinn óleystan vanda, bæði í innan- og utanríkismálum.

Þótt Jóhann þyki ekki hafa verið tilþrifamikill eða góður konungur skildi hann eftir sig mikla arfleifð í þeim húsum og mannvirkjum sem hann lét reisa. Hann var mikill listunnandi og hafði sérstakan áhuga á byggingarlist, fékk fjölda erlendra arkitekta, myndhöggvara og málara til Svíþjóðar og teiknaði jafnvel byggingar sjálfur. Hann hafði sérstakan áhuga á viðhaldi og endurbyggingu á gömlum kirkjum og höllum.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri kona hans var sem áður segir Katrín Jagellonika, yngsta dóttir Sigmundar 1. Póllandskonungs, sem var ellefu árum eldri en hann. Þau áttu tvö börn sem upp komust, Sigmund og Önnu, sem giftist aldrei. Katrín Jagellonika lést í Stokkhólmi 1583. Þann 15. febrúar 1585 giftist Jóhann konungur svo sænsku aðalsmeynni Gunnhildi Jóhannsdóttur, sem þá var sextán ára gömul. Með henni átti hann soninn Jóhann, hertoga af Austur-Gautlandi og Finnlandi.


Fyrirrennari:
Eiríkur 14.
Svíakonungur
(15681592)
Eftirmaður:
Sigmundur 3.