Fara í innihald

Karl 9. Svíakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Karl hertogi)
Karl hertogi á málverki eftir óþekktan listamann.

Karl hertogi eða Karl 9. (4. október 155030. október 1611) var konungur Svíþjóðar frá 1604 til dauðadags. Hann var yngsti sonur Gústafs Vasa og síðari eiginkonu hans Margareta Leijonhufvud. Hann fékk konungsveitingu fyrir hertogadæmi í Suðurmannalandi sem náði yfir héruðin Närke og Vermaland en fékk ekki yfirráð yfir þeim fyrr en eftir fall eldri hálfbróður síns Eiríks 14. árið 1569.

Hann leiddi uppreisnina gegn Eiríki 1568 en konungdæmið kom síðan í hlut eldri bróður hans Jóhanns 3. Við lát Jóhanns 1592 gekk ríkið til sonar hans Sigmundar Vasa en Karl kom því til leiðar að kirkjuþing í Uppsölum kvæði á um að konungur Svíþjóðar skyldi styðja mótmælendatrú í landinu. Sigmundur lofaði að gera það og var krýndur konungur 1594 en við það gengu Svíþjóð og Pólsk-litháíska samveldið í konungssamband. Í reynd var þó hollusta meirihluta Svía meiri við Karl sem markvisst gróf undan valdi Sigmundar. Þessari togstreitu lyktaði með því að sænska stéttaþingið steypti Sigmundi formlega af stóli 1599. 24. febrúar 1600 var tilkynnt að Sigmundur léti eftir kröfu sína til sænsku krúnunnar og Karl hertogi varð hæstráðandi í Svíþjóð.

Ríkisár Karls einkenndust af styrjöldum við Pólsk-litháíska samveldið út af Líflandi, við Rússland (Ingermanlenska styrjöldin) og um stutt skeið við Danmörku út af Lapplandi. Í þessum styrjöldum vegnaði Svíum almennt illa á valdatíma Karls en engu að síður er talað um ríkisár hans sem upphaf stórveldistíma Svíþjóðar.


Fyrirrennari:
Sigmundur 3.
Konungur Svíþjóðar
(1604 – 1611)
Eftirmaður:
Gústaf Adolf 2.