Fara í innihald

Johnny Cash

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Johnny Cash
Cash árið 1977
Fæddur
J. R. Cash

26. febrúar 1932(1932-02-26)
Dáinn12. september 2003 (71 árs)
Önnur nöfn
  • „Man in Black“
  • John R. Cash
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • tónlistarmaður
  • leikari
Ár virkur1954–2003
Maki
  • Vivian Liberto (g. 1954; sk. 1966)
  • June Carter (g. 1968; d. 2003)
Börn5
Tónlistarferill
Stefnur
Hljóðfæri
  • Rödd
  • gítar
Útgefandi
Áður meðlimur íThe Highwaymen
Vefsíðajohnnycash.com
Johnny Cash árið 1969.

Johnny Cash (f. J. R. Cash; 26. febrúar 1932 – 12. september 2003) var áhrifamikill bandarískur tónlistarmaður og lagahöfundur sem ólst upp í Arkansas á tímum kreppunnar miklu. Hann kunni illa við að flokka tónlistina sína með einhverri ákveðinni tónlistarstefnu heldur vildi hann meina að hann spilaði einfaldlega Johnny Cash-tónlist. Hann var þekktur fyrir sína ákaflega djúpu og voldugu rödd, dökkt yfirlit, dökkan klæðnað sem ávann honum gælunafnið „svartklæddi maðurinn“ ásamt ákaflega einkennandi takti í lögum sínum, takti sem minnir helst á lest á lítilli ferð (boom chicka boom). Hann byrjaði iðulega tónleika sína á að kynna sig með orðunum: „Halló, ég er Johnny Cash“. Á sjöunda áratugnum hélt hann tvo óvenjulega tónleika í fangelsunum Folsom og San Quentin sem vöktu mikla athygli. Hann er í hávegum hafður hjá mjög fjölbreyttum hópi fólks á öllum aldri og margir vilja meina að hann hafi verið táknmynd karlmennskunnar.

Tónlist Cash var innblásin af viðburðaríku einkalífi og erfiðleikum. Á meðal vinsælustu laga í hans flutningi eru „I Walk The Line“, „Folsom Prison Blues“, „Ring of Fire“, „Man in Black“ og „Hurt“. Eftir hann liggja einnig lög í gamansamari kantinum eins og „One Piece at a Time“, „The One on the Right is on the Left“ og „A Boy Named Sue“ sem Shel Silverstein samdi.

Tónlistarferill Cash entist í næstum fimm áratugi og í hugum margra er hann sem holdgervingur kántrítónlistarinnar þrátt fyrir að hann hafi sjálfur haft óbeit á hinni ráðandi Nashville stefnu. Líkt og önnur stór nöfn í tónlistarheiminum eins og Ray Charles, Bítlarnir, Bob Dylan og Elvis Presley þá takmörkuðust áhrif Cash ekki við neina einstaka tónlistarstefnu. Hann gerði lög sem geta flokkast sem rokk, blús, rokkabillí, þjóðlagatónlist eða gospel.

Árið 2005 var frumsýnd verðlaunamyndin Walk the Line sem byggð er á lífi Cash og stormasömu hjónabandi hans og tónlistarkonunnar June Carter Cash.

Uppeldisárin

[breyta | breyta frumkóða]

J.R. Cash fæddist í Kingsland í Arkansas árið 1932, fáeinum árum eftir að kreppan mikla skall á. Um veturinn árið 1935, þegar J.R. var þriggja ára, fluttist fjölskyldan á eitt af bóndabýlunum í Dyess sem ríkisstjórn Franklins D. Roosevelts úthlutaði fjölskyldum sem áttu um sárt að binda vegna heimskreppunnar. Cash fjölskyldan fluttu inn í hús númer 266, á þessu nýja heimili þeirra ræktuðu þau bómull og J.R. ólst upp við vinnu á bómullarakrinum allt þar til hann lauk gagnfræðaskólaprófi en þá flutti hann að heiman.[3]

J.R. átti sex systkini og af þeim leit hann sennilega mest upp til eldri bróður síns Jack. Þegar J.R. var ungur dreymdi hann að engill hefði heimsótt hann í draumi og sagt honum að bróðir hans, Jack, mundi deyja en það væri áætlun Guðs og einhvern daginn mundi hann skilja að svo væri. Tveimur vikum seinna var hann dáinn. Jack vann inn tekjur fyrir fjölskylduna við að saga timbur á borðsög fyrir landbúnaðarskóla héraðsins en þann örlagaríka dag 12. maí 1944 lenti Jack í mjög alvarlegu slysi. Hann hafði lent í söginni og dregist með henni yfir borðið en við það hlaut hann skurð allt frá bringu niður að nára. Ótrúlegt en satt þá lét hann ekki lífið samstundis heldur tórði í átta daga eftir slysið sem veitti fjölskyldunni færi á því að kveðja. Jack hafði verið órólegur daginn sem slysið varð og fannst einsog eitthvað ætti eftir að gerast. Mamma hans tók eftir þessu og bað hann um að fara ekki í vinnuna og það gerði J.R. líka, hann bað hann að koma með sér að veiða, en Jack var samviskusamur og fór því í vinnuna. Þar sem Jack var í eins miklum metum hjá J.R. og raun ber vitni þá hafði slysið mikil áhrif á J.R. til frambúðar.[4]

Reba Cash, systir J.R. sagði eitt sinn. „Hann hafði sópranrödd þegar hann var lítill strákur, síðan breyttist röddin hans allt í einu, hann fór aldrei í mútur.“[5] Johnny Cash er þekktur fyrir sína voldugu bassa-barítón rödd sem margir hafa öfundað hann af. „Ekki síðan Jóhannes Skírari var uppi hefur nokkur haft svona rödd, öskrandi í auðninni. Karlmannlegasta rödd í öllum hinum kristna heimi. Allir menn vita að þeir eru kveif miðað við Johnny Cash“[6] sagði Bono um rödd Johnny Cash. Tónlistin skipaði stóran sess í lífi Johnny Cash allt frá því hann mundi eftir sér, það var honum næstum eins eðlilegt að syngja og anda. Hann söng í kirkjunni, hann söng á bómullarökrunum þegar hann var að vinna, hann söng hvert sem hann gekk, hann söng sig meira að segja í svefn á kvöldin en hafði kveikt á útvarpinu á lágum styrk spilandi kántrí smelli, bara svo pabbi hans vissi ekki að hann var að vaka frameftir. Pabba hans leist ekki á hversu miklum tíma hann eyddi í að hlusta á plöturnar sem spilaðar voru í útvarpinu og hafði á orði að ef hann færi ekki að einbeita sér að einhverju öðru en tónlist þá gæti hann aldrei framfleytt sér. J.R. var sár út í pabba sinn fyrir að reyna að gera lítið úr draumum hans á þennan hátt en um leið hvatti það hann til þess að afsanna kenningu pabba síns.[7]

Mamma J.R., Carrie Cash, var sú sem studdi hann mest til að sinna tónlistinni. Hún skynjaði hversu rík tónlistin var innra með J.R. rétt einsog henni sjálfri og pabba hennar, en hann var sagður vera nógu góður til að geta lifað af söngnum einum, sem var þó mun meira mál þá en það er núna. Carrie lagði svo mikið á sig fyrir J.R. að hún vann aukavinnu við að þvo þvott, bara svo hún gæti komi J.R. í söngnám. J.R. var hneykslaður á móður sinni að vilja nota þennan auka pening til að borga söngkennara og neitaði að fara í fyrstu en gafst að lokum upp fyrir mömmu sinni og fór í tímann. J.R. hóf að læra söng hjá Mae Fielder og voru fyrstu tímarnir þar ansi tíðindalitlir og fór svo að í þriðja tímanum hætti hún að spila á píanóið í miðju lagi og bað hann um að syngja það sem hann langaði að syngja. Í því hóf hann að syngja lagið „Long Gone Lonesome Blues“ eftir Hank Williams. Þegar hann hafði lokið söngnum var hún svo uppnumin að hún fékk hann til að lofa sér að fara aldrei aftur í söngþjálfun og ekki leyfa neinum undir nokkrum kringumstæðum breyta því hvernig hann syngi.[8]

Fljótlega eftir að J.R flutti að heiman gekk hann í flugherinn en það var þá fyrst sem hann tók sér nafnið John en það varð hann að gera vegna þess að yfirmenn hans í hernum kröfðust þess að hann bæri hefðbundnara nafn en J.R.[9] Hann var sendur til Landsberg í Þýskalandi þar sem hann kynntist nokkrum mönnum sem einnig höfðu gaman af kántrí tónlist og saman spiluðu þeir og sungu mikið. Það var fljótlega upp úr þessu sem hann keypti sér sinn fyrsta kassagítar og eftir það skildi hann varla við gítarinn enda var hann fljótur að ná tökum á gítarleiknum. Í Þýskalandi samdi hann eitt af sýnum þekktustu lögum, „Folsom Prison Blues“.[10]

Johnny Cash and the Tennessee Two

[breyta | breyta frumkóða]

Stuttu eftir að Johnny kom heim úr hernum, 4. júlí 1954, flutti hann til Memphis og tók saman við Vivian Liberto, stúlku sem hann hafði skrifast á við meðan hann var í hernum. Roy Cash, elsti bróðir Johnny, bjó líka í Memphis og bað Johnny um að kíkja á sig í vinnuna einn daginn því hann langaði að kynna Johnny fyrir tveimur vinnufélögum sínum, Marshall Grant og Luther Perkins. Líklega grunaði engan þeirra hvað sá fundur átti eftir að leiða af sér. Marshall Grant og Luther Perkins spiluðu báðir á gítar og hittust stundum til að spila saman. Eftir kynni þeirra gekk Johnny til liðs við þá og þá fóru hjólin að snúast hratt. Johnny varð fljótt leiðtogi þríeykisins, hann sá um sönginn, Marshall hóf að spila á kontrabassa og Luther fékk sér rafgítar. Þeir hófu að spila víða sem Johnny Cash and the Tennessee Two, þó aldrei á börum þar sem Johnny fannst ekki rétt að blanda saman tónlist og áfengi. Hljómsveitin fór vel af stað og því var ekkert annað í stöðunni en að reyna að fá plötusamning.[11]

Hljómplötuútgefandinn Sun

[breyta | breyta frumkóða]

Um vorið 1955 hringdi Johnny Cash fullur bjartsýni í Sam Phillips hjá Sun, sem áður hafði gefið út efni með mönnum á borð við Elvis Presley og Roy Orbison, og tjáði honum að hann væri gospelsöngvari sem langaði að gefa út plötu. Sam Phillips tók ekki vel í það, sagði að hann gæti ómögulega markaðssett gospeltónlist, þá reyndi Johnny að segja honum að hann væri kántrísöngvari en því trúði Sam ekki og því hafði Johnny ekki erindi sem erfiði. Johnny gafst hinsvegar ekki upp og mætti galvaskur fyrir framan stúdíó Sun eldsnemma morgun einn áður en nokkur var mættur til vinnu. Fyrstur til að mæta var Sam sjálfur, Johnny heilsaði honum og bað hann að hlusta á sig því hann ætti ekki eftir að sjá eftir því. Sam Phillips var svo ánægður með hversu sjálfsöruggur Johnny var að hann veitti honum áheyrn. Johnny steig því inn í stúdíó og söng nokkur vel valin lög eftir aðra höfunda. Sam hafði aftur á móti ekki áhuga á að heyra hann flytja lög eftir aðra og vildi heyra eitthvað sem hann hafði samið sjálfur. Johnny mannaði sig því upp í að syngja lagið „Hey, Porter!“, lag sem hann hafði verið að semja en væri ekki orðinn alveg ánægður með enn þá. Sam varð svo hrifinn að hann bauð honum að koma aftur daginn eftir ásamt þeim Marshall Grant og Luther Perkins til þess að spila lagið „Hey, Porter!“ inn á smáskífu.[12]

San Quentin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir langa og erfiða baráttu við eiturlyf, þar sem litlu mátti muna að eiturlyfin yrðu honum að aldurtila, náði Johnny Cash sér aftur á strik. Hann hafði nýlega komið fram edrú í fyrsta skipti í um áratug og fékk þá hugmynd að halda tónleika í fangelsi. Fyrstu tónleikarnir af því tagi voru haldnir í Folsom fangelsinu sem lag hans „Folsom Prison Blues“ heitir eftir. Árið 1969 hélt hann tónleika í San Quentin fangelsinu sem voru bæði hljóðritaðir og myndritaðir, þar frumflutti hann meðal annars lag eftir Shel Silverstein, „A Boy Named Sue“, sem varð hans söluhæsta lag. Johnny Cash heyrði lagið í fyrsta skipti í veislu sem hann og síðari kona hans, June Carter, héldu kvöldið fyrir tónleikana í San Quentin en gestirnir í þeirri veislu voru meðal annars Bob Dylan, Joni Mitchell, Kris Kristofferson, Graham Nash og Shel Silverstein. Daginn eftir stakk June upp á því að hann mundi flytja „A Boy Named Sue“ á tónleikunum í San Quentin. Honum leist ekki vel á það í byrjun og fannst tíminn ansi naumur til þess að læra lagið en gaf eftir að lokum. Þegar hann hafði safnað nægum kjark til að flytja lagið setti hann textann á nótnastatíf fyrir framan sig og hóf upp raust sína. Johnny söng-las textann og hljómsveitin spilaði melódíuna af fingrum fram en móttökurnar létu ekki á sér standa. Fangarnir trylltust þegar Johnny Cash öskraði ögrandi og einkennandi texta lagsins.[13] „My name is Sue! How do you Do? Now you gonna die!“[14] Hann hafði náð föngunum algjörlega á sitt band. Seinna hafði hann á orði að gráir fyrir járnum hefðu fangaverðirnir verið logandi hræddir. Fangarnir voru orðnir algjörlega stjórnlausir og meðan á seinni endurflutningi lagsins „San Quentin“ stóð, lag sem hann hafði samið fyrir tilefnið, hefði hann aðeins þurft að segja ‚uppreisn!‘ og þá hefði allt farið á annan endann.[15] „Ég vissi að ég hafði tökin á föngunum og það eina sem ég hefði þurft að segja var: „Gerið uppreisn! Takið yfir!“ og þá hefðu þeir gert það. Verðirnir vissu það líka, það var freistandi en mér var hugsað til June og Carter fjölskyldunnar sem voru stödd þarna með mér svo ég sat á mér. Ég var virkilega tilbúinn fyrir smá æsing.“[16]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Johnny Cash | Biography, Albums, Streaming Links“. AllMusic.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Johnson, Howard (12. september 2016). „A tribute to Johnny Cash, the ultimate rebel and rock star“. Classic Rock Magazine.
  3. Dave Urbanski (2003): 1-4.
  4. Dave Urbanski (2003): 13-18.
  5. George Carpozi, Jr. (1970): 29.
  6. Dave Urbanski (2003): 192.
  7. Dave Urbanski (2003): 23-24.
  8. Dave Urbanski (2003): 25-27.
  9. Dave Urbanski (2003): 33.
  10. Irwin Stambler (1989): 105.
  11. Dave Urbanski (2003): 36-40.
  12. Dave Urbanski (2003): 41-43.
  13. Dave Urbanski (2003): 79-83.
  14. Dave Urbanski (2003): 83.
  15. Dave Urbanski (2003): 83-84.
  16. Dave Urbanski (2003): 84.
  • Carpozi Jr., George. The Johnny Cash Story (New York: Pyramid Books, 1970).
  • Stambler, Irwin. Encyclopedia of pop, rock & soul, endursk. útg. (London: Macmillan, 1989).
  • Urbanski, Dave. The Man Comes Around – The Spiritual Journey of Johnny Cash (Relevant Books, 2003).