Joachim Gauck
Joachim Gauck | |
---|---|
Forseti Þýskalands | |
Í embætti 18. mars 2012 – 18. mars 2017 | |
Kanslari | Angela Merkel |
Forveri | Christian Wulff |
Eftirmaður | Frank-Walter Steinmeier |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 24. janúar 1940 Rostock, Þýskalandi |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Gerhild Radtke (g. 1959; sk. 1991) Daniela Schadt (sambýliskona frá 2000) |
Trúarbrögð | Lútherskur |
Börn | 4 |
Háskóli | Háskólinn í Rostock |
Undirskrift |
Joachim Gauck (f. 24. janúar 1940) er þýskur prestur, stjórnmálamaður og mannréttindafrömuður sem var forseti Þýskalands frá 18. mars 2012[1][2][3] til 18. mars 2017.[4]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Joachim Gauck fæddist árið 1940 í Rostock. Þegar hann var ungur dæmdi hernámslið Sovétmanna föður Gaucks í 25 ára fangelsi og sendi hann í gúlagið í Síberíu. Gauck hafði hug á að gerast blaðamaður en hann fékk ekki inngöngu í þýsk fræði í háskóla og nam þess í stað guðfræði. Hann tók prestsvígslu árið 1967.[5]
Gauck varð á unga aldri andsnúinn sósíalíska stjórnkerfinu í Austur-Þýskalandi. Í predikunum sínum gagnrýndi Gauck austur-þýsk stjórnvöld og talaði fyrir frelsi og mannréttindum, sem leiddi til þess að leyniþjónustan Stasi hafði með honum eftirlit. Gauck var meðal leiðtoga mótmælahreyfingarinnar sem varð til þess að Berlínarmúrinn féll árið 1989 og kommúnistastjórn Austur-Þýskalands hrökklaðist frá völdum stuttu síðar.[5]
Eftir sameiningu Þýskalands árið 1990 fékk Gauck það hlutverk að hafa yfirumsjón með úrvinnslu úr skjalasafni Stasi. Í skjölum gömlu leyniþjónustunnar var að finna upplýsingar um milljónir manna sem austur-þýska stjórnin hafði haft undir eftirliti og áttu nú heimtingu á aðgangi að gögnunum. Gauck gegndi þessu embætti til ársins 2000 og ávann sér á þessum tíma almenna virðingu fyrir að stuðla að uppgjöri við fortíð Þýskalands en stuðla um leið að sáttum.[5]
Gauck var nefndur sem mögulegt efni í næsta forseta Þýskalands árið 2010 og naut þá stuðnings dagblaðanna Bild og Der Spiegel. Angela Merkel kanslari og stjórnarflokkur hennar, Kristilegir demókratar, studdu hins vegar stjórnmálamann úr eigin röðum, Christian Wulff, í forsetaembættið. Wulff neyddist til að segja af sér sem forseti árið 2012 þegar saksóknari fór fram á rannsókn á honum vegna ásakana um spillingu. Við val á næsta forseta féllst Merkel á tillögu samstarfsflokks síns, Frjálsa demókrataflokksins, að Gauck yrði næsti forseti.[5]
Gauck var kjörinn forseti Þýskalands á þýska þinginu í mars 2012 með þverpólitískum stuðningi flestra þingflokkanna (Kristilegra demókrata, Frjálsra demókrata, Jafnaðarmanna og Græningja). Aðeins Vinstriflokkurinn setti sig á móti kjöri Gaucks og tefldi fram nasistaveiðaranum Beate Klarsfeld sem forsetaefni í atkvæðagreiðslunni. Í atkvæðagreiðslunni fékk Gauck 991 atkvæði en Klarsfeld 126.[6]
Gauck gegndi einu fimm ára kjörtímabili sem forseti Þýskalands en tilkynnti í júní 2016 að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.[7] Frank-Walter Steinmeier tók við af Gauck sem forseti í mars 2017.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ German Presidential Nominee’s Background Seen as an Asset, New York Times, 20. febrúar 2012
- ↑ „A crucial test for Angela Merkel“. FRANCE 24. Sótt 21. febrúar 2012.
- ↑ „Gauck's civic engagement wins him wide support“. DW.DE. 17. febrúar 2012. Sótt 21. febrúar 2012.
- ↑ 4,0 4,1 Kári Gylfason (12. febrúar 2017). „Frank-Walter Steinmeier nýr forseti Þýskalands“. RÚV. Sótt 28. október 2021.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 Karl Blöndal (4. mars 2012). „Pólitískt kraftaverk“. SunnudagsMogginn. bls. 4.
- ↑ „Gauck, nýr forseti Þýskalands“. RÚV. 18. mars 2012. Sótt 11. janúar 2022.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (6. júní 2016). „Gauck hættir á næsta ári“. RÚV. Sótt 11. janúar 2022.
Fyrirrennari: Christian Wulff |
|
Eftirmaður: Frank-Walter Steinmeier |