Fara í innihald

Jón Gerreksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jeremias Jeriksen)

Jón Gerreksson (Jöns Gerekesson eða Jeremias Jeriksen [1] og latnesk útgáfa af nafni hans var: Johannes Gerechini) (1378? - 20. júlí 1433) var danskur biskup í Skálholti frá 1426. Jón er einna þekktastur fyrir að hafa verið settur í sekk við Brúará og bundinn við stein og honum drekkt í ánni. Sveinar hans voru síðan drepnir hvar sem í þá náðist, og voru þeir allir dysjaðir þar sem kallað er Íragerði.

Jón Gerreksson var sonur Gereke Jensen Lodehat en föðurbróðir Jóns, Peter Lodehat, var biskup í Hróarskeldu og kanslari Margrétar drottningar. Jón stundaði nám við háskólana í Köln og Prag og var síðan prestur í Árósum. Hann var vinur Eiríks af Pommern sem gerði hann að kanslara sínum og fékk árið 1408 Gregoríus XII páfa til að gera hann að erkibiskupi í Uppsölum í Svíþjóð þrátt fyrir mótmæli kórbræðra. Þar er Jón sagður hafa borist mikið á og haldið góðar veislur. Hann var lýstur margfaldlega brotlegur við skírlífisreglur kirkjunnar, enda hafði hann tekið unga konu frá Stokkhólmi sem frillu sína og átti með henni tvö börn, og árið 1421 dæmdi páfi hann óhæfan til æðri klerkþjónustu, enda naut hann þá ekki lengur hylli konungs.

Næst verður Jóns vart í páfagarði 1426. Hann fékk uppreisn æru hjá Marteini 5. páfa, þá var honum veitt Skálholtsbiskupsdæmi sama ár og borgaði drjúgan sjóð fyrir. Trúlega hefur Eiríkur af Pommern haft hönd í bagga og átti Jón að stemma stigu við verslun Englendinga á Íslandi og styrkja konungsvaldið. Um þessar mundir voru áhrif Englendinga mjög mikil á Íslandi og enskur biskup, Jón Vilhjálmsson Craxton, var vígður til Hóla sama ár.

Vera Jóns á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Jón Gerreksson kom ekki til Íslands fyrr en árið 1430 eftir viðkomu í Englandi. Hann kom á eigin skipi og hafði sveinalið með sér. Honum virðist hafa verið vel tekið í fyrstu en sveinar hans þóttu óeirðasamir ribbaldar og urðu fljótt mjög óvinsælir og biskup sömuleiðis. Íslendingar samþykktu á Alþingi 1431 að hann skyldi senda sveinana úr landi. Var það Ívar hólm Vigfússon á Kirkjubóli á Miðnesi sem harðast beitti sér í því máli. Biskup lét þó ógert að senda sveinana burt. Til einhverra átaka mun hafa komið milli sveinanna og Englendinga árið 1432 en annars gekk biskupi illa það ætlunarverk að hindra verslun þeirra.

Engar samtímaheimildir greina frá aðdraganda þess að biskup var drepinn og er allt mjög óljóst um það en sagt er að fyrirliði biskupssveina hafði beðið Margrétar Vigfúsdóttur (1406 - 1486), systur Ívars, en verið synjað. Hann á þá að hafa reiðst, farið með flokk biskupssveina suður að Kirkjubóli, þar sem Margrét var hjá bróður sínum, og ætlaði að brenna hana inni, en eins og áður segir bar þeim fleira á milli. Ívar var skotinn til bana en Margrét komst undan og flúði norður í Eyjafjörð. Sagnir segja að hún hafi svarið að giftast þeim sem hefndi brennunnar.

Helstu andstæðingar biskups eru sagðir hafa verið þeir Teitur ríki Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði og Þorvarður Loftsson á Möðruvöllum. Biskup lét handtaka báða og flytja í Skálholt en hvers vegna er ekki vitað. Hann hafði þá að sögn í myrkrastofu og lét þá berja fisk og vinna önnur störf sem þeim þótti lítil virðing að. Þorvarður slapp úr varðhaldinu haustið 1432 en Teitur ekki fyrr en um vorið.

Liðssöfnuður andstæðinga Jóns

[breyta | breyta frumkóða]

Þorvarður, Teitur og Árni Einarsson Dalskeggur söfnuðu liði og fóru um sumarið á Þorláksmessu (20. júlí) að biskupi og mönnum hans í Skálholti, drógu biskup út úr kirkjunni, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará, og var það gert svo að ekki væri hægt að segja að þeir hefðu úthellt blóði biskups. Ekki er að sjá að nein refsing hafi komið fyrir verkið.

Björn Þorsteinsson sagnfræðingur hefur sett fram þá kenningu að morðið á Jóni hafi verið pólitísk aðgerð runnin undan rifjum Englendinga og er þá ekki ólíklegt að Jón Hólabiskup hafi tengst því á bak við tjöldin, enda hafði Loftur Guttormsson faðir Þorvarðar verið helsti stuðningsmaður hans. Svo mikið er víst að ekki virðist Hólabiskup hafa gert minnstu tilraun til að beita valdi kirkjunnar gegn þeim sem drepið höfðu starfsbróður hans og saurgað kirkjuna.

Þorvarður og Margrét giftust 1436, bjuggu á Möðruvöllum og voru sögð auðugustu hjón landsins á sinni tíð.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fjölnir 1835
  • Óspektir og rán Englendinga; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
  • „Myrtur biskup. Morgunblaðið 12. ágúst 1984“.
  • „Nordisk familjebok, Johannes Jerechini“.


Fyrirrennari:
Árni Ólafsson
Skálholtsbiskup
(1426 – 1433)
Eftirmaður:
Jón Vilhjálmsson Craxton


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.