Magnús Einarsson
Magnús Einarsson (1098 – 30. september 1148) var biskup í Skálholti frá 1134. Hann var sonur Einars Magnússonar, sem var sonarsonur Þorsteins Síðu-Hallssonar, og var því afkomandi Síðu-Halls í beinan karllegg. Móðir Magnúsar var Þuríður Gilsdóttir.
Magnús var kjörinn biskup eftir lát Þorláks Runólfssonar 1133 og vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 28. október 1134. Hann bætti kirkjuna sem Gissur biskup hafði reist í Skálholti og efldi staðinn mjög og keypti til hans jarðeignir, þar á meðal nær allar Vestmannaeyjar. Hann brann inni í Hítardal þar sem hann var við veislu á heimleið úr vísitasíuferð um Vestfirði. Brunnu þar inni 72 menn alls, þar á meðal átta prestar.
Hallur Teitsson var kjörinn biskup eftir Magnús en hann andaðist erlendis og fékk ekki vígslu.
Fyrirrennari: Þorlákur Runólfsson |
|
Eftirmaður: Klængur Þorsteinsson |