Fara í innihald

Páll Jónsson (biskup)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Páll Jónsson (115529. nóvember 1211) var biskup í Skálholti frá 24. febrúar 1195. Hann var launsonur Jóns Loftssonar ríka og ólst upp í Odda ásamt Snorra Sturlusyni. Hann lærði í Englandi og gerðist síðan goðorðsmaður og bóndi á Skarði á Landi áður en hann varð biskup. Hann var mikill höfðingi og safnaði að sér listamönnum í Skálholti og lét þá skreyta kirkjuna og gera fagra gripi, bæði fyrir kirkjuna og biskupsstólinn og eins til að senda erlendum höfðingjum. Meðal annars lét hann gera mikla steinkistu handa sjálfum sér. Hann var líka mikill menntamaður og lét rita bækur. Sjálfur var hann mikill söngmaður og þótti bera af öðrum á því sviði. Hann lét lögleiða helgi dýrlinganna Þorláks og Jóns helga.

Faðir Páls var Jón Loftsson, sonarsonur Sæmundar fróða. Móðir Jóns var Þóra, dóttir Magnúsar konungs berfætts Ólafssonar, en móðir Páls var Ragnheiður Þórhallsdóttir, systir Þorláks biskups hins helga. Kona Páls var Herdís Ketilsdóttir; hún drukknaði í Þjórsá 17. maí 1207 ásamt Höllu dóttur þeirra. Þekktastur barna þeirra er Loftur biskupssonur, sem svo var jafnan kallaður og kemur nokkuð við sögu í Sturlungu.

Steinkistan

[breyta | breyta frumkóða]

Við rannsóknir í kirkjugarðinum í Skálholti, í ágúst 1954, fannst steinkista, sem talin var kista Páls biskups, því ekki er kunnugt að neinn annar maður hafi verið greftraður þar í steinkistu. Var þessi fundur talinn með merkilegri fornleifafundum á Íslandi frá upphafi. Kistan var opnuð mánudaginn 30. ágúst að viðstöddum prestum og öðru stórmenni. Fannst í henni heilleg beinagrind og krókur af biskupsstaf.


Fyrirrennari:
Þorlákur helgi Þórhallsson
Skálholtsbiskup
(11951211)
Eftirmaður:
Magnús Gissurarson


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.