Möðruvellir (Eyjafjarðarsveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Möðruvellir í Eyjafirði er kirkjustaður og fornt höfuðból í innsveitum Eyjafjarðar, rúma 25 km inn frá Akureyri. Þar hafa oft búið höfðingjar og ríkismenn. Möðruvöllum er oft ruglað saman við Möðruvelli í Hörgárdal.

Fyrsti bóndinn á Möðruvöllum sem sögur fara af var Eyjólfur Valgerðarson, goðorðsmaður og skáld, sem kemur við nokkrar Íslendingasögur. Synir hans voru þeir Einar Þveræingur og Guðmundur Eyjólfsson ríki, sem bjó á Möðruvöllum og barst mikið á, enda var hann einn helsti höfðingi Norðlendinga á söguöld.

Seinna átti Loftur ríki Guttormsson bú á Möðruvöllum og dvaldi þar löngum. Þorvarður sonur hans bjó á Möðruvöllum og síðar Margrét Vigfúsdóttir ekkja hans.

Möðruvellir eru kirkjustaður frá fornu fari og ekki ólíklegt að Guðmundur ríki hafi látið byggja fyrstu kirkjuna þar. Kirkjan er enn í bændaeign. Núverandi kirkja var byggð 1847-1848 og er timburkirkja í hefðbundnum stíl. Hún er turnlaus en klukknaport við kirkjuna er frá 1781 og er eitt elsta mannvirki úr timbri sem enn stendur á Íslandi. Helsti kjörgripur kirkjunnar er altarisbrík úr alabastri, sem Margrét Vigfúsdóttir gaf til hennar seint á 15. öld.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Nokkrir punktar að norðan. Lesbók Morgunblaðsins, 22. ágúst 1992“.