Jair Bolsonaro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Jair Bolsonaro
Jair Bolsonaro em 24 de abril de 2019 (1).jpg
Forseti Brasilíu
Núverandi
Tók við embætti
1. janúar 2019
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. mars 1955 (1955-03-21) (66 ára)
Glicério í São Paulo-fylki, Brasilíu
StjórnmálaflokkurBandalag fyrir Brasilíu
MakiRogéria Nantes Braga (skilin), Ana Cristina Valle (skilin), Michelle Reinaldo (g. 2013)
TrúarbrögðMótmælandi
StarfHermaður, stjórnmálamaður
Undirskrift


Jair Messias Bolsonaro (f. 21. mars 1955) er brasilískur stjórnmálamaður sem er 38. og núverandi forseti Brasilíu. Hann hafði áður setið á fulltrúadeild brasilíska þingsins fyrir Rio de Janeiro-fylki frá árinu 1991. Bolsonaro var kjörinn forseti sem meðlimur í Félagslega frjálslynda flokknum (p. Partido Social Liberal eða PSL) en í nóvember árið 2019 klauf Bolsonaro sig úr flokknum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, Bandalag fyrir Brasilíu (p. Aliança pelo Brasil).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bolsonaro fæddist í sýslunni Glicério í São Paulo-fylki, útskrifaðist úr Agulhas Negras-hernaðarháskólanum árið 1977 og gegndi þjónustu í stórskota- og fallhlífadeildum brasilíska hersins. Hann vakti fyrst athygli almennings árið 1986 þegar hann kvartaði yfir lélegum launum brasilískra hermanna í grein sem hann skrifaði í tímaritið Veja. Yfirvöld handtóku Bolsonaro fyrir greinina þrátt fyrir að skoðanir hans nytu víðtæks stuðnings innan hersins. Hann var náðaður tveimur árum síðar.

Bolsorano gekk til liðs við varadeildir Brasilíuhers árið 1988 með höfuðsmannstign. Sama ár bauð hann sig fram í borgarráð Rio de Janeiro og var kjörinn sem fulltrúi Kristilega demókrataflokksins. Árið 1990 var Bolsonaro kjörinn á neðri deild brasilíska þingsins og síðar endurkjörinn sex sinnum. Á 27 ára langri þingsetu sinni varð Bolsonaro kunnur fyrir andóf sitt gegn vinstrisinnuðum stefnumálum. Hann hefur meðal annars talað gegn hjónabandi samkynhneigðra, fóstureyðingum, lögleiðingu fíkniefna, landeignarumbótum og veraldarhyggju.

Bolsonaro hefur vakið athygli í Brasilíu og víðar fyrir umdeild ummæli sín. Hann hefur meðal annars lýst því yfir að ef hann sjái tvo karlmenn kyssast á almannafæri muni hann lemja þá[1] og að hann myndi frekar vilja að sonur hans dæi í bílslysi en eignaðist kærasta.[2] Bolsonaro hefur oft hrósað herforingjastjórninni sem réð yfir Brasilíu frá 1964 til 1985 og hefur lýst því yfir sem þingmaður að Brasilíumenn „[muni] aldrei leysa grafalvarleg þjóðfélagsvandamál með þessu óábyrga lýðræði“.[3] Á tíunda áratugnum lýsti Bolsonaro því opinskátt yfir í viðtali að hann myndi koma á einræði á ný nái hann einhvern tímann kjöri í forsetaembættið.[4] Bolsonaro hefur einnig hrósað öðrum einræðisstjórnum í Rómönsku Ameríku, þar á meðal stjórnum Augustos Pinochet í Síle og Albertos Fujimori í Perú. Árið 2008 sagði Bolsonaro um stjórn Pinochet (sem drap rúmlega 3000 síleska ríkisborgara) að „hún hefði átt að drepa fleira fólk.“[5]

Bolsonaro hefur talað gegn því að konur fái jafnhá laun og karlmenn. Hann telur einnig að launuð mæðraorlof hafi slæm áhrif á skilvirkni á vinnustöðum.[6]

Bolsonaro er hlynntur notkun pyntinga í yfirheyrsluskyni og vill innleiða dauðarefsingar í Brasilíu á ný.[7]

Bolsonaro hóf kosningabaráttu sína fyrir forsetaembættinu sem fulltrúi Félagslega frjálslynda flokksins í ágúst árið 2018. Sem frambjóðandi sagðist hann vilja taka hart á glæpamönnum og leysa úr hækkandi glæpa- og morðtíðni í landinu. Í því skyni vill hann herða refsingar, víkka rannsóknarrétt lögreglunnar og létta á löggjöf um byssueignir.[8] Á meðan á kosningabaráttunni stóð var gerð tilraun til að myrða hann. Ráðist var að Bolsonaro á kosningasamkomu og hann stunginn í kviðinn með hníf.[9] Bolsonaro var rúmliggjandi vegna meiðsla sinna á síðasta hluta kosningabaráttunnar en hann vann þó afburðasigur í fyrri umferð kosninganna og fékk um 48 prósent atkvæða.[10] Kosið var á milli Bolsonaro og Fernandos Haddad, frambjóðanda Verkamannaflokksins, í annarri umferð kosninganna þann 28. október.[11] Bolsonaro sigraði og tók við embætti forseta í byrjun árs 2019.

Í mars árið 2020 var tilkynnt að Bolsonaro hefði greinst með kórónaveirusjúkdóminn COVID-19. Bolsonaro og sonur hans drógu síðar þessar fregnir í vafa og sögðu þær ósannar þrátt fyrir að hafa áður staðfest þær í viðtali hjá fréttastöðinni Fox News.[12] Bolsonaro hefur gert lítið úr kórónaveirufaraldrinum og hefur sakað fjölmiðla um að blekkja almenning í því skyni að skapa múgæsing yfir „örlítilli hitasótt“.[13] Í faraldrinum hefur Bolsonaro hvatt landsmenn til þess að aflétta samkomubönnum og óhlýðnast samskiptafjarlægð og hefur komist í kast við fylkisstjórnir Brasilíu sem hafa viðhaldið slíkum ráðstöfunum til að hefta útbreiðslu veirunnar.[14][15] Stuðningsmenn Bolsonaros í São Paulo, þar sem flest tilfelli COVID-19 hafa greinst, hafa mótmælt samkomubanni fylkisstjórnarinnar og meðal annars hindrað för sjúkrabíla í gegnum borgina í mótmælaskyni.[16] Í júní höfðu um 34.000 manns látist úr veirunni í Brasilíu og um 640.000 smit höfðu greinst samkvæmt opinberum talningum. Bolsonaro taldi tölurnar ekki gefa rétta mynd af ástandinu og lét því hætta að birta þær þann 7. júní.[17] Hæstiréttur landsins gerði stjórninni síðar að halda áfram birtingu talanna.[18]

Bolsonaro staðfesti þann 7. júlí að hann hefði greinst með COVID-19.[19]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Folha de S.Paulo – Câmara: Palmada muda filho "gayzinho", declara deputado federal – 26/11/2010“. www1.folha.uol.com.br. Sótt 3. júní 2018.
 2. „Bolsonaro: "prefiro filho morto em acidente a um homossexual"". Terra. (pt-BR) Skoðað 2. júní 2018.
 3. „Jair Bolsonaro; A Soldier Turned Politician Wants To Give Brazil Back to Army Rule". New York Times. (Enska) Skoðað 8. október 2018.
 4. „Folha de S.Paulo – Internacional – En – Brazil – Congressman Bolsonaro Defended New Military Coup in the 1990s – 04/06/2018“. www1.folha.uol.com.br. Sótt 4. júní 2018.
 5. „As frases polêmicas de Jair Bolsonaro". Congresso em Foco. (pt-BR) 5. ágúst 2017. Skoðað 13. september 2018.
 6. „Jair Bolsonaro diz que mulher deve ganhar salário menor porque engravida". revistacrescer.globo.com. (pt-br) Skoðað 8. október 2018.
 7. „Terra – ISTO GENTE – Entrevista: Jair Bolsonaro“. 31. maí 2013. Sótt 8. október 2018.
 8. „Bolsonaro kveðst ætla að taka hart á glæpum“. Vísir. 7. október 2018. Sótt 8. október 2018.
 9. „Hnífstungurásin sögð tryggja Bolsonaro brasilíska forsetastólinn“. Vísir. 8. september 2018. Sótt 8. október 2018.
 10. „Bol­son­aro með 48% at­kvæða“. mbl.is. 2018. Sótt 7. október 2018.
 11. „Hinn brasilíski Trump langefstur samkvæmt útgönguspám“. Vísir. 2018. Sótt 7. október 2018.
 12. Samúel Karl Ólason (2020). „Bolsonaro neitar því að hafa greinst með kórónuveiruna“. Vísir. Sótt 13. mars 2020.
 13. Tom Phillips (23. mars 2020). „Brazil's Jair Bolsonaro says coronavirus crisis is a media trick“ (enska). The Guardian. Sótt 12. apríl 2020.
 14. „Em meio a disparada de casos da Covid-19, Bolsonaro mais uma vez defende 'volta à normalidade' (portúgalska). Extra. 11. apríl 2020. Sótt 12. apríl 2020.
 15. „Brazil: Bolsonaro Sabotages Anti-Covid-19 Efforts“ (enska). Mannréttindavaktin. 10. apríl 2020. Sótt 12. apríl 2020.
 16. „Coronavírus: durante quarentena, manifestantes fazem buzinaço em São Paulo“ (portúgalska). Veja. 11. apríl 2020. Sótt 12. apríl 2020.
 17. Kjartan Kjartansson (7. júní 2020). „Hætta að birta heildartölur um látna og smitaða í Brasilíu“. Vísir. Sótt 8. júní 2020.
 18. Anna Sigríður Einarsdóttir (2020). „Brasilía birtir á ný upplýsingar um kórónaveirutilfelli“. RÚV. Sótt 22. júní 2020.
 19. Tryggvi Páll Tryggvason (2020). „Forseti Brasilíu með kórónuveiruna“. Vísir. Sótt 7. júlí 2020.


Fyrirrennari:
Michel Temer
Forseti Brasilíu
(1. janúar 2019 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti