Fara í innihald

Deodoro da Fonseca

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Deodoro da Fonseca
Deodoro da Fonseca árið 1889.
Forseti Brasilíu
Í embætti
15. nóvember 1889 – 23. nóvember 1891
VaraforsetiFloriano Peixoto (1891)
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurFloriano Peixoto
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. ágúst 1827
Alagoas da Lagoa do Sul, Alagoas, Brasilíu
Látinn23. ágúst 1892 (65 ára) Rio de Janeiro, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiMariana Cecília de Sousa Meireles (g. 1860)
HáskóliPraia Vermelha-herskólinn
Undirskrift

Manuel Deodoro da Fonseca (5. ágúst 1827 – 23. ágúst 1892) var brasilískur stjórnmálamaður og herforingi sem var fyrsti forseti Brasilíu. Hann fæddist í Alagoas, var af hermannaættum og gekk sjálfur í herinn og þaðan í landsmálin. Fonseca tók við embætti forseta Brasilíu til bráðabirgða eftir að hann leiddi herforingjabyltingu gegn Pétri 2. Brasilíukeisara og stofnaði fyrsta brasilíska lýðveldið árið 1880. Stuttu eftir að Fonseca var kjörinn forseti árið 1891 neyddist hann til að segja af sér þegar hann reyndi að leysa upp brasilíska þingið. Hann lést innan við ári eftir það.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Fonseca var þriðja barnið í stórri herfjölskyldu. Hann fæddist þann 5. ágúst 1827 í bænum Alagoas da Lagoa do Sul, Alagoas, sem var síðar nefndur Marechal Deodoro, í höfuðið á honum, í Norðaustur-Brasilíu. Hann var sonur Manuels Mendes da Fonseca Galvão (1785–1859) og eiginkonu hans, Rosu Mariu Paulinu de Barros Cavalcanti (1802–1873). Á tíma brasilíska keisaradæmisins var eldri bróðir hans, Severino Martins da Fonseca, aðlaður sem barón af Alagoas. Portúgalski húmanistinn Francisco de Holanda (d. 1585) var fjarskyldur frændi hans. Fonseca gerðist hermaður að atvinnu og tók árið 1848 þátt í að bæla niður Praieira-uppreisnina í Pernambuco in 1848, sem innblásin var af byltingunum í Evrópu.[1] Hann barðist jafnframt í Paragvæstríðinu (1864–1870) og hlaut höfuðsmannstign. Árið 1884 var hann hækkaður í tign og gerður hermarskálkur. Fonseca varð þjóðkunnur í Brasilíu fyrir hugrekki, herkænsku og karlmannlegt yfirbragð.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Fonseca var fylkisstjóri í Rio Grande do Sul reyndu lýðveldissinnaðir menntamenn á borð við Benjamin Constant og Ruy Barbosa í São Paulo að fá Fonseca til liðs við sig. Árið 1886 varð Fonseca þess var að keisarastjórnin hefði skipað handtöku kunnra lýðveldissinna. Hann fór því til Rio de Janeiro og gerðist leiðtogi þess hóps innan hersins sem studdi afnám þrælahalds í Brasilíu.

Pétur 2. Brasilíukeisari hafði talað fyrir afnámi þrælahalds í marga áratugi og hafði veitt sínum eigin þrælum frelsi árið 1840, en hann var þeirrar skoðunar að réttast væri að afnema þrælahald smám saman til þess að forðast að skaða brasilíska efnahaginn. Ríkisstjórnin, sem var að nafninu til undir forystu Ísabellu krónprinsessu, bannaði þrælahald alfarið árið 1888, á meðan hún var ríkisstjóri fyrir föður sinn á meðan hann var erlendis. Reiðir olígarkar áttu þátt í að styðja valdaránið sem var framið stuttu síðar. Fonseca varð leiðtogi herforingjabyltingar sem setti keisarann af þann 15. nóvember 1889 og varð síðan til skamms tíma leiðtogi bráðabirgðastjórnar sem kallaði til stjórnlagaþings til að rita nýja stjórnarskrá fyrir brasilískt lýðveldi. Fonseca lenti fljótt í deilum við borgaralega leiðtoga lýðveldisstjórnarinnar. Hann var kjörinn fyrsti forseti Brasilíu þann 25. febrúar 1891 með naumum meirihluta og stuðningi hersins.

Forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórn Fonseca einkenndist af pólitískum og persónulegum ríg milli Fonseca og Floriano Peixoto varaforseta. Stjórnin átti jafnframt í slæmu sambandi við þingið, sem beitti sér gegn flestum stefnumálum hennar. Á fyrstu mánuðum sínum í embætti leyfði Fonseca ráðherrum sínum nánast alfarið að stýra sínum málaflokkum án eftirlits.[2] Andstaða við Fonseca á þingi jókst fljótt vegna geðþóttaákvarðana forsetans eins og að afsala höfninni Torres til einkafyrirtækis og opna landið fyrir fleiri innflytjendum, að undanskyldum Afríkubúum. Almenningsálit snerist jafnframt gegn Fonseca vegna árangurslítillar efnahagsstjórnar hans á tíma efnahagsbólu (Encilhamento) í landinu. Þetta leiddi jafnframt til þess að lýðveldissinnar í suðurhluta landsins snerust gegn Fonseca og bráðabirgðastjórninni.[3] Ástandið varð að stjórnarkreppu þegar Fonseca leysti upp þingið og lýsti yfir neyðarástandi þann 3. nóvember 1891. Hópur þingmanna mótmælti ákvörðuninni og hlaut stuðning hjá háttsettum foringjum innan sjóhersins, meðal annars Custódio José de Melo flotaforingja. Þar sem Fonseca sá að landið rambaði á barmi borgarastyrjaldar undirritaði hann þann 23. nóvember 1891 uppsagnarbréf og eftirlét Peixoto forsetavaldið.

Fonseca lést í Rio de Janeiro þann 23. ágúst 1892. Hann sýktist alvarlega af mæði og var jarðsettur í fjölskyldugröf í Caju-kirkjugarðinum. Árið 1937 voru líkamsleifar hans grafnar upp og færðar í minnismerki í Praça Paris, Rio de Janeiro.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Marshal Deodoro and The Fall of Dom Pedro II“. JSTOR 2511467.
  2. „Ruy Barbosa“. JSTOR 1006827.
  3. Simmons, Charles Willis (1963). „Deodoro da Fonseca, Fate's Dictator“. Journal of Inter-American Studies. 5 (1): 45–52. doi:10.2307/165283. JSTOR 165283.


Fyrirrennari:
Embætti stofnað
Forseti Brasilíu
(15. nóvember 1889 – 23. nóvember 1891)
Eftirmaður:
Floriano Peixoto