Tancredo Neves

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tancredo Neves
Tancredo Neves árið 1983.
Forseti Brasilíu
(kjörinn; tók ekki við embætti)
Í embætti
15. mars 1985 – 21. apríl 1985
VaraforsetiJosé Sarney
ForveriJoão Figueiredo
EftirmaðurJosé Sarney
Forsætisráðherra Brasilíu
Í embætti
8. september 1961 – 12. júlí 1962
ForsetiJoão Goulart
ForveriEmbætti endurstofnað
EftirmaðurBrochado da Rocha
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. mars 1910
São João del-Rei, Minas Gerais, Brasilíu
Látinn21. apríl 1985 (75 ára) São Paulo, São Paulo, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurBrasilíska lýðræðishreyfingin (Movimento Democrático Brasileiro, MDB)
MakiRisoleta Guimarães Tolentino (g. 1938)
Börn3
HáskóliFaculdade de Direito da Universidade Federal de Minas Gerais
Undirskrift

Tancredo de Almeida Neves (4. mars 1910 – 21. apríl 1985) var brasilískur stjórnmálamaður, lögfræðingur og viðskiptamaður. Hann var dóms- og innanríkismálaráðherra frá 1953 til 1954, forsætisráðherra frá 1961 til 1962, fjármálaráðherra árið 1962 og fylkisstjóri Minas Gerais frá 1983 til 1984.

Við endalok brasilísku herforingjastjórnarinnar árið 1985 var Tancredo Neves kjörinn forseti Brasilíu af brasilíska þinginu. Neves átti þá að leiða fyrstu borgaralegu stjórn landsins frá árinu 1964. Neves veiktist hins vegar þann 14. mars 1985, aðeins fáeinum klukkustundum áður en hann átti að sverja embættiseið, og lést þann 21. apríl. Hann settist því aldrei á forsetastól og þess í stað varð það varaforsetinn José Sarney sem tók við embættinu.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Tancredo Neves fæddist þann 4. mars 1910 í námubænum São João del-Rei í fylkinu São Paulo í austanverðri Brasilíu. Neves var einn tólf systkina og gat rakið ættir sínar til Portúgala sem fluttust til Brasilíu á ofanverðri átjándu öld. Hann var talinn trúrækinn í æsku og var kórdrengur í rómversk-kaþólskri kirkju. Neves sneri sér síðar að laganámi og starfaði við blaðamennsku samhliða náminu. Árið 1932, á öðru ári sínu í laganámi, var Neves vistaður í fangelsi í tvo daga fyrir þátttöku sína í pólitískum aðgerðum námsmanna.[1]

Neves hóf afskipti af stjórnmálum á námsárum sínum og var kjörinn í borgarstjórn árið 1934, þegar hann var 24 ára gamall. Hann sat til ársins 1937, þegar forsetinn Getúlio Vargas tók sér einræðisvald. Neves hóf þá störf sem lögfræðingur og var um skeið sendur í fangelsi eftir að hann tók að sér málsvörn í máli stríðandi járnbrautarverkamanna.[1]

Neves hélt stjórnmálaferli sínum áfram þegar einræðisstjórn Vargas leið undir lok eftir seinni heimsstyrjöldina. Árið 1947 var Neves kjörinn á fylkisþing Minas Gerais og þremur árum síðar var hann kjörinn á þing Brasilíu. Neves varð dómsmálaráðherra landsins frá 1952 til 1954 í nýrri stjórn Getúlio Vargas, sem náði að komast aftur til valda eftir lýðræðislegar kosningar.[1]

Árið 1960 bauð Neves sig fram til embættis fylkisstjóra Minas Gerais en náði ekki kjöri.[1] Jânio Quadros forseti bauð Neves í kjölfarið að taka við embætti bankastjóra í Þjóðbanka Brasilíu eða sendiherra í Bólivíu en Neves afþakkaði boðið og hélt tryggð við varaforseta Brasilíu, João Goulart, sem hann hafði kynnst á meðan þeir voru báðir meðlimir í stjórn Getúlio Vargas. Goulart hafði tekið við forystu í flokki Vargas eftir að Vargas fyrirfór sér árið 1954.[2]

Quadros forseti sagði af sér árið 1961, sem gerði Goulart að nýjum forseta Brasilíu í samræmi við stjórnarskrá landsins. Goulart var hins vegar staddur erlendis þegar Quadros sagði af sér og brasilískir herforingjar voru tregir til að leyfa honum að taka við forsetaembættinu þar sem þeir álitu hann hættulega vinstrisinnaðan. Til þess að stuðla að friðsamlegum valdaskiptum var Neves meðal þeirra sem stóðu fyrir stjórnarskrárbreytingu sem breytti Brasilíu úr forsetaræði í þingræði og kom á fót embætti forsætisráðherra sem varð valdameira en forsetaembættið. Goulart fékk þannig að gerast forseti en með verulega skert völd. Neves varð forsætisráðherra Brasilíu og í reynd valdamesti maður í brasilísku stjórninni.[2]

Herinn sætti sig við að Neves yrði forsætisráðherra en hann gegndi því embætti aðeins í níu mánuði, en þá sagði hann af sér til þess að bjóða sig fram til þings. Eftir að Neves lét af embætti var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem Brasilíumenn höfnuðu þingræðisfyrirkomulaginu og Goulart fékk þannig óskert forsetavöld. Herinn brást árið 1964 við með því að fremja valdarán gegn Goulart og stofna herforingjastjórn sem var við lýði í Brasilíu til ársins 1985.[1]

Neves var kjörinn á öldungadeild brasilíska þingsins árið 1979. Þremur árum síðar var hann kjörinn fylkisstjóri Minas Gerais í kosningum sem voru taldar þær frjálsustu og lýðræðislegustu síðan herforingjarnir tóku völdin árið 1964.[1]

Óánægja Brasilíumanna með herforingjastjórnina jókst mjög á níunda áratugnum samhliða aukinni fátækt og misskiptingu. Eftir ítrekuð mótmæli kölluðu herforingjarnir saman 686 manna kjörmannafund sem kaus Tancredo Neves nýjan forseta lýðveldisins þann 15. mars 1985. Neves gaf út fyrirheit um að hann myndi kalla saman stjórnlagaþing næsta ár til þess að styrkja lýðræði í Brasilíu og koma í veg fyrir að herforingjar tækju völdin á ný.[3]

Þann 14. mars, daginn áður en Neves átti að sverja embættiseið sem nýr forseti Brasilíu, veiktist hann alvarlega og hrakaði stöðugt. Neves gekkst undir sjö skurðaðgerðir en ekki tókst að bjarga lífi hans og hann lést því þann 21. apríl 1985 án þess að hafa tekið við forsetaembættinu.[4] José Sarney, sem hafði verið kjörinn varaforseti í framboði Neves, varð því forseti Brasilíu.[5]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Ætlar að endurreisa stolt þjóðarinnar“. Morgunblaðið. 20. janúar 1985. bls. 27.
  2. 2,0 2,1 „Tancredo Neves“. Alþýðublaðið. 20. september 1961. bls. 4.
  3. „Umskipti í Brasilíu“. Þjóðviljinn. 22. janúar 1985. bls. 15.
  4. „Snillingur í að sigla milli skers og báru“. Morgunblaðið. 23. apríl 1985. bls. 32.
  5. Jóhanna Kristjónsdóttir (28. apríl 1985). „Hann axlar byrði sem annar sóttist eftir“. Morgunblaðið. bls. 63.


Fyrirrennari:
Embætti endurstofnað
Forsætisráðherra Brasilíu
(8. september 196112. júlí 1962)
Eftirmaður:
Brochado da Rocha