Ernesto Geisel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ernesto Geisel
Ernesto Geisel í kringum 1974.
Forseti Brasilíu
Í embætti
15. mars 1974 – 15. mars 1979
VaraforsetiAdalberto Pereira dos Santos
ForveriEmílio Garrastazu Médici
EftirmaðurJoão Figueiredo
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. ágúst 1907
Bento Gonçalves, Rio Grande do Sul, Brasilíu
Látinn12. september 1996 (89 ára) Rio de Janeiro, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurViðreisnarbandalagið (1974–1979)
MakiLucy Markus (g. 1939)
Börn2
HáskóliRealengo-herskólinn
Escola de Comando e Estado-Maior do Exército
Undirskrift

Ernesto Beckmann Geisel (3. ágúst 1907 – 12. september 1996) var brasilískur herforingi og stjórnmálamaður sem var forseti Brasilíu frá 1974 til 1979, á tíma brasilísku herforingjastjórnarinnar.

Geisel var fyrsti forseti Brasilíu sem var mótmælendatrúar, en allir forverar hans höfðu verið kaþólskir.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ernesto Geisel fæddist þann 3. ágúst 1907 og var þýskur í báðar ættir. Faðir hans, sem var kennari, og föðurafi hans, sem var prestur, höfðu flutt til Brasilíu frá Stuttgart. Faðir Geisels kvæntist konu sem einnig var af þýskum ættum og eignaðist alls með henni fimm börn. Ernesto Geisel var þeirra yngstur.[1]

Geisel gekk í brasilíska herinn ásamt tveimur bræðrum sínum og náði hershöfðingjatign. Talið er að árið 1962 hafi Geisel verið meðal þeirra herforingja sem komu í veg fyrir að herinn steypti forsetanum João Goulart af stóli. Árið 1964 var Geisel hins vegar meðal helstu forsprakkanna í valdaráni herforingjanna gegn stjórn Goularts. Geisel varð sérstakur ráðunautur Humberto de Alencar Castelo Branco, aðalleiðtoga valdaránsins, sem varð fyrsti forseti Brasilíu eftir stofnun herforingjastjórnar í landinu.[1]

Eftir að herforingjarnir tóku völdin var Geisel útnefndur forseti herdómstóls. Hann gegndi því embætti til ársins 1969 en þá hætti hann störfum í hernum eftir að hafa gegnt herþjónustu í 44 ár samfellt og var útnefndur forstjóri brasilíska ríkisolíufélagsins Petrobras.[1]

Brasilíska herforingjastjórnin hafði þann hátt á að hver forseti gegndi aðeins einu fimm ára kjörtímabili áður en herforingjarnir völdu nýjan forseta. Tilkynnt var um það í júní 1973 að Geisel myndi taka við af Emílio Garrastazu Médici sem forseti næsta ár. Geisel var þá lítt kunnur meðal Brasilíumanna en hann ferðaðist um landið fyrir embættistöku sína til að kynnast stjórnarleiðtogum í fylkjum og héruðum landsins. Þegar kjörmannaráð kom saman til að kjósa nýjan forseta fékk Geisel rúmlega 400 atkvæði af 503.[1]

Þegar Geisel tók við sem forseti árið 1974 voru uppi vonir um að hann myndi taka upp frjálslyndari stjórnarhætti en fyrri forsetar herforingjastjórnarinnar höfðu viðhaft, meðal annars með því að færa þingi landsins aukin völd og draga úr ritskoðun.[1] Fyrstu stjórnarár Geisels þóttu nokkuð frjálslegri en undanfara hans og blöðum var veitt meira svigrúm til athafna en áður.[2]

Á tíma herforingjastjórnarinnar voru tveir stjórnmálaflokkar leyfðir: Viðreisnarbandalagið (ARENA), stjórnarflokkur herforingjanna, og Brasilíska lýðræðishreyfingin (MDB), sem var formlega stjórnarandstöðuflokkur en var undirgefinn stjórninni í flestum málum. Þegar MDB neitaði að greiða atkvæði með fyrirhuguðum breytingum stjórnarinnar á brasilíska réttarkerfinu árið 1977 lét Geisel senda þingmennina heim til þess að geta þröngvað frumvarpinu í gegn án þeirra aðkomu.[3]

Í apríl árið 1977 gaf Geisel út úrskurð til þess að skerða völd þingsins verulega, auk þess sem hann lét lengja kjörtímabil forseta Brasilíu úr fimm árum í sex ár. Kosningafyrirkomulaginu var jafnframt breytt þannig að forsetinn skyldi framvegis ekki aðeins kjörinn af þinginu heldur einnig af fulltrúum fylkja landsins. Þessi breyting var til þess fallin að veita herforingjastjórninni tryggari stjórn yfir forsetakjörinu þar sem tvísýnt var orðið hvort herforingjarnir gætu gert það einungis með meirihluta sínum á þinginu. Lögum var jafnframt breytt svo að einfaldur þingmeirihluti nægði til að gera stjórnarskrárbreytingar.[2]

Árið 1977 lét Geisel reka flotamálaráðherrann Sylvio Frota, sem hafði verið fulltrúi þeirra afla innan herforingjastjórnarinnar sem vildu ekki færa stjórnina í frjálsræðisátt.[4] Frota hafði verið talinn líklegur eftirmaður Geisels á forsetastól en árið 1978 útnefndi Geisel João Figueiredo forsetaefni sitt í næstu kosningum.[5]

Figueiredo tók við af Geisel sem forseti árið 1979. Eitt síðasta verk Geisels í embætti var að fella úr gildi reglugerð sem heimilaði forsetanum að skerða valdsvið þingsins og dómstólanna.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Þórarinn Þórarinsson (28. febrúar 1974). „Þjóðverji verður forseti Brazilíu“. Tíminn. bls. 7; 10.
  2. 2,0 2,1 Þórarinn Þórarinsson (26. apríl 1977). „Geisel fer ekki að ráðum Carters“. Tíminn. bls. 11.
  3. Halldór Sigurðsson (13. maí 1977). „Stórþjóð stjórnað sem herbúðum“. Þjóðviljinn. bls. 10; 14.
  4. Ólafur Geirsson (9. desember 1977). „Geisel forseti kom á óvart og rak hermálaráðherra sinn“. Dagblaðið. bls. 10-11.
  5. 5,0 5,1 Þórarinn Þórarinsson (21. mars 1979). „Nýr forseti kominn til valda í Brasilíu“. Tíminn. bls. 6.


Fyrirrennari:
Emílio Garrastazu Médici
Forseti Brasilíu
(15. mars 197415. mars 1979)
Eftirmaður:
João Figueiredo