Jóhann 2. Frakkakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jóhann góði)
Jóhann góði (Jehan roy de France).

Jóhann 2. Frakkakonungur (16. apríl 13198. apríl 1364), kallaður Jóhann góði (franska: Jean le Bon) var konungur Frakklands frá 1350 til dauðadags. Hann var annar í röð konunga af Valois-ætt. Hann var einnig greifi af Anjou, Maine og Poitiers, hertogi af Normandí frá 1332, hertogi af Akvitaníu frá 1345 og frá 1361 til 1363 hertogi af Búrgund.

Hertogi af Normandí[breyta | breyta frumkóða]

Jóhann var sonur Filippusar konungs 6. og Jóhönnu höltu. Faðir hans varð óvænt konungur Frakklands, eftir að hinn síðasti þriggja sona Filippusar 4. frænda hans lést án þess að láta eftir sig son. Erfðatilkall Filippusar var þó alls ekki óumdeilt og hann ákvað fljótlega að styrkja sig í sessi með því að finna syni sínum hentuga konu. Fyrst hafði hann Elinóru, yngri systur Játvarðar 3. Englandskonungs, í huga en ákvað svo að leita samninga við Jóhann af Lúxemborg, konung Bæheims, um hjúskap við Bonne dóttur hans. Hún var orðin sextán ára og gat því fljótt farið að ala Jóhanni, sem var þrettán ára, erfingja. Þau giftust 28. júlí 1332 og Jóhann var gerður hertogi af Normandí um leið.

Nokkur órói var í Normandí og um 1345 voru ýmsir aðalsmenn þar orðnir opinberir stuðningsmenn Játvarðar 3. og yfirráð Frakka í hertogadæminu voru í hættu. Filippus sendi Jóhann til að reyna að leita sátta og vinna aðalsmennina á sitt band og tókst honum fá hluta þeirra á sitt band.

Konungur Frakklands[breyta | breyta frumkóða]

Jóhann tók við ríkjum þegar faðir hans lést sumarið 1350 og var krýndur í Reims. Fyrstu árin naut hann auðs síns og valda en lét misgóða ráðgjafa halda um stjórnartaumana. Með árunum tók hann þó sjálfur meiri þátt í stjórn ríkisins. Hann var heilsuveill og tók lítinn þátt í konunglegum íþróttum eins og burtreiðum og veiðum en var bókamaður og styrkti málara og tónlistarmenn. Hann er sagður hafa verið skapmikill og fljótur til reiði svo að oft kastaðist í kekki milli hans og þeirra sem hann átti í samskiptum við.

Árið 1355 blossaði Hundrað ára stríðið upp að nýju og árið eftir fór Svarti prinsinn, sonur Játvarðar 3., herför um Frakkland með tiltölulega fámennt lið. Jóhann veitti honum eftirför og í september kom til bardaga milli herjanna við Poitiers. Jóhann var sigurviss, enda með tvöfalt fjölmennara lið en andstæðingurinn. Frakkar biðu lægri hlut og Jóhann konungur féll í hendur Englendinga eftir frækilega framgöngu. Hann var svo fluttur til Englands.

Fangi Englendinga[breyta | breyta frumkóða]

Í Englandi var honum haldið föngnum á ýmsum stöðum en að lokum var hann fluttur í Lundúnaturn. Hann var þó ekki í ströngu varðhaldi, fékk jafnvel að ferðast um og hafði um sig litla hirð. Bókhald konungs frá þessum tíma hefur varðveist og má þar sjá að hann var að kaupa sér hesta, gæludýr og fatnað á meðan hann var fangi og hafði hjá sér stjörnuspeking og hirðhljómsveit.

Fyrsti frankinn var sleginn árið 1360 til að fagna heimkomu Jóhanns konungs úr fangavistinni á Englandi.

Í Brétigny-sáttmálanum, sem undirritaður var 1360, var samið um að Frakkar skyldu greiða geysihátt lausnargjald fyrir konung sinn. Honum var heimilað að snúa aftur til Frakklands til að afla fjár fyrir lausnargjaldinu en næstelsti sonur hans, Loðvík af Anjou, varð gísl í hans stað. Jóhanni gekk þó seint að afla fjár og í júlí 1363 bárust þær fregnir að Loðvík hefði sloppið úr haldi Englendinga. Jóhanni fannst þetta svo mikil skömm að hann tilkynnti, þegnum sínum til furðu og skelfingar, að hann ætlaði sjálfur að fara til Englands og gefa sig Englendingum á vald. Ekkert gekk að telja konung af þessu, hann mat heiðurinn meira en frelsið, og sigldi til Englands um veturinn.

Honum var vel fagnað í Englandi með veisluhöldum og skrúðgöngum. En nokkrum mánuðum eftir að hann sneri aftur veiktist hann og dó í Savoy-höll um vorið. Lík hans var flutt til Frakklands og grafið þar.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Jóhann og Bonne drottning eignuðust tíu börn á ellefu árum. Þau sem upp komust voru Karl 5. Frakkakonungur, Loðvík 1. hertogi af Anjou, Jóhann hertogi af Berry, Filippus 2. hertogi af Búrgund, Jóhanna kona Karls 2. Navarrakonungs, María kona Róberts hertoga af Bar og Ísabella, kona Gians Galeazzo 1., hertoga af Mílanó. Bonne lést svo 11. september 1349. Jóhann hugðist þá giftast Blönku af Navarra, frænku sinni, en faðir hans ákvað að giftast henni sjálfur. Hann giftist þá í staðinn Jóhönnu 1. af Auvergne, ekkju Filippusar af Búrgund og móður Filippusar 1. hertoga af Búrgund. Þau eignuðust tvær dætur sem dóu ungar.

Nánasti vinur Jóhanns var Charles de la Cerda, sem naut mikillar hylli konungs og hafa sumir talið að þeir hafi átt í ástarsambandi. Náin tengsl þeirra kveiktu afbrýðisemi annarra aðalsmanna og nokkrir þeirra myrtu de la Cerda árið 1354. Konungur syrgði hann ákaft.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Filippus 6.
Konungur Frakklands
(13501364)
Eftirmaður:
Karl 5.