Fara í innihald

Íslamska ríkið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá ISIS)
Íslamska ríkið
الدولة الإسلامية (ad-Dawlah al-Islāmiyah)
Fáni ISIS með innsigli Múhameðs. Efri línan vísar í trúarjátningu múslima: „Það er enginn guð nema Allah“ og hvíta merkið vísar til innsiglis Múhameðs og textans „Múhameð er sendiboði Allah“.

Yfirráðasvæði ISIS þegar það var stærst, í júní 2015. Yfirráðasvæði ISIS er í gráum lit.
SkammstöfunISIS eða ISIL
UndanfariJama'at al-Tawhid wal-Jihad (1999)
Stofnun1999; fyrir 25 árum (1999) (sem Jama'at al-Tawhid wal-Jihad)
13. október 2006; fyrir 18 árum (2006-10-13) (stofnun íslamsks ríkis yfirlýst)
29. júní 2014; fyrir 10 árum (2014-06-29) (stofnun kalífadæmis yfirlýst)
HöfuðstöðvarÓvíst (síðan 2019)
StaðsetningSýrland og Írak
LeiðtogiAbu Bakr al-Baghdadi   (2010-2019)
Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi   (2019-2022)
Abu al-Hasan al-Hashimi al-Qurashi   (2022)
Abu al-Hussein al-Husseini al-Qurashi   (2022-2023)
Abu Hafs al-Hashimi al-Qurashi (2023–)
HugmyndafræðiJihadismi, íslömsk bókstafstrú, wahhabismi
Kort sem sýnir yfirráðasvæði Íslamska ríkisins (grátt).
Loftárás á ISIS í kúrdíska bænum Kobane.

Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær (arabíska: الدولة الإسلامية في العراق والشام‎ ad-Dawlah al-Islāmiyah fī 'l-ʿIrāq wa-sh-Shām, skammstafað Daesh) eða einfaldlega Íslamska ríkið, oftast kallað ISIS (Islamic State of Iraq and Syria) eða ISIL (Islamic State of Iraq and the Levant), oft nefnt „Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki“ í fjölmiðlum á Íslandi, eru hryðjuverkasamtök sunní-múslima sem fylgja jihad samkvæmt rétttrúnaði (salafisma) í íslam. Samtökin komust á legg árið 2012 upp úr mótmælum og andófi gegn ríkisstjórn og forseta Sýrlands í kjölfar þjóðfélagsumróta í Mið-Austurlöndum, sem nefnd hafa verið arabíska vorið. Samtökin voru virk í Uppreisninni í Írak og Sýrlensku borgarastyrjöldinni. Á árinu 2014 lýsti Íslamska ríkið yfir stofnun nýs kalífadæmis múslima á svæði sem tók yfir stóran hluta Sýrlands og Íraks. ISIS kom á fót sharía-löggjöf á valdasvæði sínu og stóð fyrir stórtækum ofsóknum, ofbeldisverkum og kúgun. Trúarhópar kristinna, jasída og shía-múslima voru ofsóttir og drepnir í fjöldamorðum. Þúsundir kvenna voru hnepptar í kynlífsþrældóm og seldar á þrælamörkuðum við Persaflóa.

Ólýsanleg ofbeldisverk hafa verið framin af vígamönnum Íslamska ríkisins. Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað Íslamska ríkið um stríðsglæpi og mannréttindabrot og Amnesty International hefur talað um þjóðernishreinsanir á „sögulegum skala“. Fjöldi ríkja, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa lýst samtökin hryðjuverkasamtök. Yfir 60 lönd hafa átt beint eða óbeint í stríði við Íslamska ríkið. Vestrænir blaðamenn og hjálparstarfsmenn hafa verið myrtir af samtökunum.

Í kjölfar innrásar Bandaríkjmanna og Breta í Írak árið 2003 urðu súnní-múslimar, sem voru hluti af ríkjandi valdhöfum, valdalausari og shía-múslimar fengu aukin völd í Írak. Þetta leiddi til ólgu og meiri róttækni innan súnní-samfélaga. Abu Musab Zarqawi, upprunalega frá Jórdaníu, var leiðtogi hóps sem rekja má til ársins 1999 og var tengdur Al-Kaída. Hann gerði árásir á shía-múslima og bandaríska herliðið. Hann sór eið til Al-Kaída samtakanna. Zarqawi féll í loftárás BNA árið 2006 en eftir dauða hans stofnuðu róttækir uppreisnarmenn súnní-múslima Íslamska ríkið í Írak (ISI) sem átti að sameina Al-Kaída og aðra hryðjuverkahópa múslima. Leiðtogar þeirra voru drepnir af Bandaríkjaher í árið 2010 og uppreisnarmennirnir hörfuðu og urðu æ einangraðari. Leifar af þessum uppreisnarhópum voru leiddir af Ibrahim Awad al-Badri sem síðar kallaði sig, Abu Bakr al-Baghdadi eftir Abu Bakr sem á að hafa verið fyrsti arftaki Múhameðs skv. trúarritum íslams. Baghdadi hafði verið í fangabúðum Bandaríkjahers, Camp Bucca, árið 2004 þar sem hann byggði upp tengsl við aðra róttæka súnní-múslima.

Árið 2011 opnaðist fyrir landamærin í Sýrlandi vegna borgarastríðs þar og Baghdadi og fylgismenn nýttu tækifærið og fóru inn í landið. Þar fundu þeir fyrir róttæka súnní-múslima, andstæðinga Bashar Al-Assads Sýrlandsforseta, og stofnuðu Al-Nusra samtökin. Bandaríski herinn yfirgaf Írak árið 2011 og undir nýjum forseta Nouri al-Maliki sem var shía-múslimi. Fannst súnní-múslimum þeir vera enn meir jaðarsettir. Árið 2013 lýsti Baghdadi yfir að Al-Nusra væri undir sínum væng og stofnaði til Íslamska ríkis Íraks og Sýrland (ISIS). Síðar voru átök milli Al-Nusra og ISIS og sumir úr Al-Nusra gengu yfir í ISIS. Al Kaída höfnuðu ISIS árið 2014 því þeim fannst þeir hafa of ofsafengnar aðferðir.[1]

Hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndafræði og kenningar ISIS koma úr bókstafstrú í íslam um Jihad (arabíska: salafiya jihadiyah), sem krefst þess að allir múslimar taki þátt í „heilögu stríði“ gegn „vantrúuðum“ og „heiðingjum“ (þeim sem ekki eru múslimar). Stríð og árásir ISIS gegn hópum múslima sem teljast hófsamir, eru réttlættar með því að um sé að ræða „hræsnara“ (arabíska: takfir) sem ekki iðka og fylgja súnní-íslamstrú rétt. Takmark ISIS er að sameina alla múslima í eitt ríki, „Kalífat“, undir stjórn eins drottnara, „kalífa“ og að ná loks öllum heiminum undir vald múslima og lögmál íslams („sharía“).[2][3]

ISIS-liðar náðu stórum hluta Sýrlands og Íraks á sitt vald í júní árið 2014 og lýstu yfir stofnun Íslamska ríkisins sem nýs kalifats múslima á svæðinu með Abu Bakr al-Baghdadi sem æðsta valdhafa eða „kalífa“ (arabíska: khalīfah, þýðir „arftaki“ [Múhameðs]). ISIS kom á fót sharía-löggjöf og stóð fyrir stórtækum ofsóknum og ofbeldisverkum á svæðinu allt frá stofnun þess. Trúarhópar kristinna, jasída og sjía-múslima hafa verið ofsóttir og drepnir. Þúsundir kvenna og stúlkna hafa verið hnepptar í kynlífsþrældóm og seldar á þrælamörkuðum múslima við Persaflóa. Ólýsanleg ofbeldisverk voru framin af vígamönnum Íslamska ríkisins, t. d. þar sem óléttum konum og nýfæddum börnum var nauðgað og þau drepin.

Þegar kom fram á árið 2017 höfðu yfir 300.000 manns verið drepnir í Sýrlandi og margar milljónir höfðu flúið heimili sín. Tugum þúsunda fólks af trúarhópum jasída í Írak hefur verið útrýmt af vígamönnum ISIS.[4] [5]

Í janúar 2014 náðu ISIS undir sig Fallujah og í júní Mósúl, annarri stærstu borg Íraks. Samtökin komust yfir vopnabúr íraska hersins í Mósúl sem styrkti stöðu þeirra heilmikið. Síðar fóru niður Tígris dal og náðu undir sig borginni Tikrit og smærri bæjum. Shí-múslimar voru teknir af lífi. Í Sýrlandi höfðu ISIS lagt undir sig borgina Rakka (Al-Raqqah). Síðar héldu þeir norður til Kúrdahéraða, og á svæði Jasída, borginni Sinjar. Karlmenn jasída sem náðu ekki að flýja voru drepnir. Konur og börn voru tekin föngnum, sumar konur í kynlífsþrælkun.

Liðsmenn ISIS sátu um kúrdísku borgina Kobane í september 2014. Umsátrið varði lengi og borgin var illa farin eftir átökin. Bandaríkjamenn blönduðu sér inn í átökin og sprengdu svæði ISIS í borginni.

Ramadi, höfuðborg Anbar héraðs, var endurheimt í lok 2015 eftir talsvert umsátur og eyðileggingu. Samtökin höfðu um mitt ár 2016 tapað um þriðjung af svæði sínu þegar að var umfangsmest.

Haustið 2016 var réðst íraski stjórnarherinn í Mósúl, Írak, en borgin var frelsuð í júlí 2017. Einnig réðust Kúrdar og fleiri á borgina Al-Raqqah, Sýrlandi, sem talið var höfuðvígi ISIS.

Í desember 2017 hafði ISIS misst megnið að svæði sínu og réðu aðeins 2% af því svæði sem þeir höfðu á hámarki veldis síns. Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi sagði þá samtökin hafa verið upprætt í landinu. ISIS réði þá aðeins yfir litlu svæði í Sýrlandi.

Í febrúar árið 2019 hafði veldi ISIS í Sýrlandi verið brotið á bak aftur. Þá sátu kúrdískar hersveitir (Lýðræðissveitir Sýrlands eða SDF) með stuðningi frá hersveitum og lofther Bandaríkjanna um nokkur hundruð vígamenn og fjölskyldur ISIS sem höfðu hreiðrað um sig í bænum Baghuz á bökkum Efratsfljótsins. Herforingi Kúrda sagði vígamenn ISIS þá að mestu samanstanda af múslimum frá Frakklandi, Írak, Rússlandi, Úkraínu, Kanada og Mið-Asíu. Margir meðlimir ISIS reyndu að flýja af vígvellinum, en voru þá skotnir af ISIS liðum sjálfum.

Talið var að foringi samtakanna, Abu Bakr al-Bagdadi, hefði þá verið flúinn til Afganistan eða Pakistan og að margir ISIS-liðar myndu fylgja honum þangað.[6][7]

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu þá við því að þó samtökin (ISIS) væru að mestu sigruð hernaðarlega, hefðu þau yfir að ráða meira en 230 milljónum sterlingspunda, sem geymd væru í ýmsum löndum til að fjármagna hryðjuverk og árásir þegar tækifæri gæfust til.[8][9]

Síðasta vígi Íslamska ríkisins í Baghuz féll svo þann 21. mars. Síðustu vígamennirnir gáfust þá upp, en vikurnar áður höfðu um 60.000 liðsmenn þess flúið átökin. Flestir höfðu verið handteknir og var haldið í fangabúðum kúrdískra hersveita, sem höfðu farið fram á aðstoð Bandaríkjamanna við að setja upp dómstóla til að ákæra og rétta yfir fylgismönnum Íslamska ríkisins. Á hátindi íslamska ríkisins í Sýrlandi og Írak stjórnaði það yfir um 8 milljónum manna.[10][11]

Eftir fall kalífadæmisins (2019–)

[breyta | breyta frumkóða]

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, sprengdi sjálfan sig í loft upp þann 27. október árið 2019 til að forðast handtöku þegar sérsveit Bandaríkjahers réðst á fylgsni hans í Sýrlandi.[12] Maður að nafni Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi tók við af Baghdadi sem leiðtogi og „kalífi“ samtakanna.[13] Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi var einnig drepinn í árás Bandaríkjahers þann 3. febrúar 2022.[14] Eftir dauða hans var Abu al-Hasan al-Hashimi al-Qurashi skipaður nýr kalífi samtakanna, en hann er eldri bróðir Abu Bakr al-Baghdadi.[15] Sá var einnig drepinn í lok nóvember sama ár.[16]

Næsti leiðtogi ISIS var Abu al-Hussein al-Husseini al-Qurashi en hann var drepinn af tyrknesku leyniþjónustunni í apríl 2023.[17]

ISIS í öðrum löndum

[breyta | breyta frumkóða]

Skæruliðar í Líbíu voru fyrstir til að sverja hollustu við samtökin árið 2014 og stuttu eftir í Egyptalandi, nánar tiltekið Sinaískaga. Boko Haram í Nígeríu fylgdi fordæminu árið 2015. Hópar frá Jemen og Afganistan hafa einnig lýst yfir stuðningi við ISIS. Samtökin Íslamska ríkið í Khorasan (ISIS-K eða IS-KP) hafa framið fjölda árása í Afganistan á síðari árum,[18] auk þess sem samtökin lýstu yfir ábyrgð á mannskæðri hryðjuverkaárás í Moskvu í mars 2024.[19]

ISIS gefur út vefritið Dabiq þar sem hugmyndafræði og áróðri er dreift. Undir stjórn ISIS þarf fólk að fara eftir ákveðnum reglum um klæðaburð og háttvísi: konur þurfa að klæðast blæju og karlmenn að safna skeggi. Tónlist, kaffihús, sjónvarp og farsímar eru bannaðir. Siðalögregla fer um svæði; vaktar og leitar að brotamönnum. Þeir sem búa á svæði samtakanna en aðhyllast ekki íslam þurfa að borga skatt, ellegar snúast til íslams eða verða líflátnir ella.

Aðgerðir sínar og hugmyndafræði réttlæta ISIS-liðar nánar með áróðri og tilvísunum í Kóraninn og aðra trúartexta íslams. Fjöldinn allur af múslimum frá Vesturlöndum hefur gengið til liðs við ISIS. Stærsti hópur vígamanna ISIS hefur komið frá Sádi-Arabíu.[20] Um 6000 sjálfboðaliða frá Túnis hafa gengið til liðs við samtökin.

Íslamska ríkið sendi út ákall og hvatningu árið 2014, og fleiri síðar, til múslima á Vesturlöndum um að ráðast á og drepa fólk sem ekki er múslimar með öllum tiltækum ráðum. Þar voru múslimar hvattir til þess að drepa fólk með grjóti, hnífaárásum, keyra yfir fólk á bílum, kasta fólki ofan af byggingum, eitra fyrir þeim og kyrkja.[21][22][23][24] Árið 2016 sendi Íslamska ríkið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að stríð þeirra gegn Vesturlöndum sé trúarlegt að fyrirskipun og uppskrift Kóranins og að þeir muni hata hin kristnu Vesturlönd þar til þau taki upp íslam. Í sömu yfirlýsingu var einnig hæðst að ummælum Frans páfa Kaþólsku kirkjunnar, sem hafði áður lýsti því yfir að „rétt túlkun á Kóraninum hafnaði öllu ofbeldi“.[25]

Fjármögnun

[breyta | breyta frumkóða]

ISIS hefur fjármagnað starfssemi sína m.a. með því að selja olíu og með fjárkúgunum. Auðugir einstaklingar hafa einnig styrkt samtökin.[26] Samtökin hafa einnig selt fornminjar ásamt því að eyðileggja þær. ISIS hefur eyðilagt hluta af fornu borginni Palmýra, einni elstu borg í heimi.

Hryðjuverk og fjöldamorð

[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 2015 voru framin hryðjuverk þar sem gjörningsmennirnir sögðust hafa framið þau fyrir samtökin ISIS. Í Egyptalandi var flugvél sprengd í miðju lofti þar sem meira en 200 létust og í París drápu byssumenn um 130 manns. Bandaríkjamenn höfðu gert loftárásir á samtökin fram að þessu en Frakkar skárust í leikinn tímabundið. Rússland einnig en þeir ráðast auk þess á aðra andstæðinga Assads forseta Sýrlands.

Í júnímánuði árið 2017 lýsti neðri deild austurríska þingsins (þýska: Nationalrat) því yfir að Íslamska ríkið hefði framið þjóðarmorð gegn kristnu fólki í Mið-Austurlöndum. Þar var því lýst hvernig Íslamska ríkið hafði hálshöggvið og grýtt kristið fólk til bana, börn kristins fólks höfðu verið pyntuð og hálfhöggvin fyrir framan foreldra sína fyrir að neita að taka íslam, börnum kristinna hafði verið nauðgað og þau brennd lifandi og að heilu þorpum kristinna hefði verið eytt.[27]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Islamic State group: The full story BBC. Skoðað 14. október, 2016.
  2. Dr. Lawrence A. Franklin, Post-Caliphate ISIS, Gatestone Institute, 19.2.2019, https://www.gatestoneinstitute.org/13750/post-caliphate-isis
  3. ISIS’s Ideology and Vision, and their Implementation, Crethi Plethi, 21.2.2019, http://www.crethiplethi.com/isis-s-ideology-and-vision-and-their-implementation/islamic-countries/syria-islamic-countries/2015/
  4. Muhammad Jambaz, Sarah Sirgany, Bodies of 1,500 Yazidis found in northern Iraq since 2015, CNN, 12.4.2017, https://edition.cnn.com/2017/04/12/middleeast/iraq-yazidi-mass-graves-isis/
  5. UN: ISIS genocide of Yazidis in Iraq ongoing, CBS News, 3.8.2016, https://www.cbsnews.com/news/united-nations-says-isis-yazidi-genocide-ongoing-in-iraq/
  6. Martin Chulov, Isis fighters firing at escaping family members, says coalition, The Guardian, 14.2.2019, https://www.theguardian.com/world/2019/feb/14/isis-fighters-shot-escaping-family-members-says-coalition
  7. Dr. Lawrence A. Franklin, Post-Caliphate ISIS, Gatestone Institute, 19.2.2019, https://www.gatestoneinstitute.org/13750/post-caliphate-isis
  8. Jacob Dirnhuber, Desperate ISIS terror fanatics have stashed away MILLIONS, The Sun, 12.2.2019, https://www.thesun.co.uk/news/8408606/isis-stashed-millions-fun-attack-britain-west/
  9. Fjölskyldur fluttar á brott úr síðasta ferkílómetra ISIS Vísir, skoðað 22. feb. 2019.
  10. Benjamin Hall, ISIS caliphate has crumbled and last stronghold liberated, Fox News Network, 21.3.2019, https://www.foxnews.com/world/isis-has-officially-crumbled-and-last-stronghold-liberated-fox-news-has-learned
  11. Lýsa yfir sigri á Ríki íslams , mbl.is, 23.3.2019, https://www.mbl.is/frettir/erlent/2019/03/23/lysa_yfir_sigri_a_riki_islams/
  12. „Leiðtogi Rík­is íslams sprengdi sig í loft upp“. mbl.is. 27. október 2019. Sótt 27. október 2019.
  13. Chulov, Martin (31. október 2019). „Islamic State names new leader after death of Abu Bakr al-Baghdadi“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 31. október 2019. Sótt 31. október 2019.
  14. Atli Ísleifsson (3. febrúar 2019). „Leið­togi ISIS-sam­takanna drepinn í að­gerð Banda­ríkja­hers“. Vísir. Sótt 4. febrúar 2022.
  15. Árni Sæberg (11. mars 2022). „Nýr leið­togi Íslamska ríkisins bróðir stofnandans“. Vísir. Sótt 3. mars 2022.
  16. Samúel Karl Ólason (30. nóvember 2022). „Enn einn leiðtogi ISIS er fallinn“. Vísir. Sótt 30. nóvember 2022.
  17. Árni Sæberg (30. apríl 2023). „Segir Tyrki hafa fellt leið­toga ISIS“. Vísir. Sótt 1. maí 2023.
  18. „Hver eru Isis-K hryðjuverkasamtökin?“. mbl.is. 26. ágúst 2021. Sótt 28. mars 2024.
  19. Samúel Karl Ólason (26. mars 2024). „Hverjir eru ISKP? Skæðasti angi Íslamska ríkisins teygir anga sína til Moskvu“. Vísir. Sótt 28. mars 2024.
  20. Christine Williams, “More citizens of Saudi Arabia have joined the Islamic State than from any other country”, Jihad Watch, 11.3.2017, https://www.jihadwatch.org/2017/03/more-citizens-of-saudi-arabia-have-joined-the-islamic-state-than-from-any-other-country Geymt 3 desember 2018 í Wayback Machine
  21. Yara Bayoumy, “Isis urges more attacks on Western ‘disbelievers’”, Independent, http://www.independent.co.uk/news/world/middle-east/isis-urges-more-attacks-on-western-disbelievers-9749512.html Geymt 24 desember 2018 í Wayback Machine
  22. "Normandy terrorists pledged allegiance to ISIS", Arutz Sheva, 28.7.2016, http://www.israelnationalnews.com/News/News.aspx/215645
  23. Greg Myre, "A Mass Shooter Pledges Allegiance To ISIS", National Public Radio, 13.6.2016, https://www.npr.org/sections/parallels/2016/06/13/481284054/a-mass-shooter-pledges-allegiance-to-isis-what-does-this-mean?t=1551470806557
  24. Alice Foster, "Terror attacks timeline: From Paris and Brussels", Express, 18.8.2017, https://www.express.co.uk/news/world/693421/Terror-attacks-timeline-France-Brussels-Europe-ISIS-killings-Germany-dates-terrorism
  25. Theresa Giarratano, ISIS To Pope Francis: This Is A Religious War Between The Muslim Nation And The Nations Of Disbelief, American Military News, 3.8.2016, https://americanmilitarynews.com/2016/08/isis-to-pope-francis-this-is-a-religious-war-between-the-muslim-nation-and-the-nations-of-disbelief/
  26. What is 'Islamic State'? BBC. Skoðað 14. október, 2016
  27. Stoyan Zaimov, “Austria Among First Nations to Recognize ISIS' Genocide Against Christians“, The Christian Post, 21.6.2017, http://www.christianpost.com/news/austria-among-first-nations-recognize-isis-genocide-against-christians-188925/