Abu Bakr al-Baghdadi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Abu Bakr al-Baghdadi
أبو بكر البغدادي
Mynd af al-Baghdadi í fangabúðunum Camp Bucca í Írak árið 2004.
„Kalífi“ íslamska ríkisins
Í embætti
7. apríl 2013 – 27. október 2019
EftirmaðurAbu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. júlí 1971
Samarra, Írak
Látinn27. október 2019 (48 ára) Barisha, Sýrlandi
ÞjóðerniÍraskur
TrúarbrögðSúnní

Abū Bakr al-Baghdadi (arabíska: أبو بكر البغدادي; fæddur undir nafninu Ibrahim Awad Ibrahim al-Badri[1][2][3] إبراهيم عواد إبراهيم علي محمد البدري السامرائي árið 1971; d. 27. október 2019) var leiðtogi salafíska vígahópsins íslamska ríkisins.[4] Bandaríkin, Evrópusambandið og flest stök ríki líta á samtökin sem hryðjuverkahóp og á al-Baghdadi sem hryðjuverkaleiðtoga.[4] Í júní árið 2014 kaus ráðgjafarráð samtakanna (Majlis-ash-Shura) að viðurkenna al-Baghdadi sem kalífa íslamska ríkisins.[5]

Margt er á huldu um fortíð al-Baghdadi og sem leiðtogi hryðjuverkahópsins birtist hann mjög sjaldan opinberlega. Talið er að hann hafi útskrifast með doktorsgráðu í íslömskum fræðum úr Saddam-háskólanum í Bagdad.[6][7] Vegna leyndarinnar sem hvílir yfir al-Baghdadi var hann stundum kallaður „sjeikinn ósýnilegi“.[8] Hann vakti mikla athygli árið 2014 þegar myndband var birt af honum að predika í al-Nuri-moskunni í Mósúl í Ramadan-mánuði, stuttu eftir að íslamska ríkið hafði hertekið borgina. Í myndbandinu lýsti al-Baghdadi sjálfan sig trúarleiðtoga allra múslima heimsins og kallaði eftir stuðningi múslima um allan heim.[9]

Að þessu myndbandi undanskildu lét al-Baghdadi aðallega á sér bera í hljóðupptökum til stuðningsmanna sinna. Tilkynningar og orðrómar bárust oft um að al-Baghdadi væri látinn eða illa særður en erfitt var að staðfesta þessa orðróma. Síðast sást al-Baghdadi í myndbandi sem birt var í lok apríl árið 2019. Myndbandið birtist eftir að Íslamska ríkið hafði glatað nær öllu landsvæði sínu í Sýrlandi og Írak en í því hét hryðjuverkaleiðtoginn áframhaldandi baráttu gegn vesturlöndum.[10]

Frá árinu 2016 lofaði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna 25 milljóna dollara verðlaunafé hverjum þeim sem byggi yfir upplýsingum sem gætu leitt til handtöku eða dauða al-Baghdadi.[5][11]

Þann 27. október árið 2019 sprengdi al-Baghdadi sjálfan sig í loft upp til þess að forðast handtöku þegar sérsveit Bandaríkjahers réðst á fylgsni hans í Sýrlandi.[12] Maður að nafni Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi tók við af Baghdadi sem leiðtogi og „kalífi“ samtakanna.[13] Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi var einnig drepinn í árás Bandaríkjahers þann 3. febrúar 2022.[14] Eftir dauða hans var Abu al-Hasan al-Hashimi al-Qurashi skipaður nýr kalífi samtakanna, en hann er eldri bróðir Abu Bakr al-Baghdadi.[15]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Rubin, Alissa J. (5. júlí 2014). „Militant Leader in Rare Appearance in Iraq“. The New York Times. Sótt 7. október 2014.
 2. „Profile: Abu Bakr al-Baghdadi“. BBC News. 5. júlí 2014. Sótt 20. júlí 2014.
 3. „ISIS Spokesman Declares Caliphate, Rebrands Group as "Islamic State". SITE Institute. 29. júní 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2014. Sótt 7. október 2014.
 4. 4,0 4,1 Rewards for JusticeInformation that brings to justice… Abu Bakr al-Baghdadi Up to $25 Million Reward Geymt 24 febrúar 2017 í Wayback Machine Skoðað 7. október 2018.
 5. 5,0 5,1 „Terrorist Designations of Groups Operating in Syria“. United States Department of State. 14. maí 2014. Sótt 13. júní 2014.
 6. „U.S. Actions in Iraq Fueled Rise of a Rebel“. The New York Times. 10. ágúst 2014. Sótt 23. desember 2014.
 7. „The Believer“. The Brookings Essay.[óvirkur tengill]
 8. Crompton, Paul (30. júní 2014). „The rise of the new 'caliph,' ISIS chief Abu Bakr al-Baghdadi“. Al Arabiya News. Sótt 24. febrúar 2015.
 9. „ISIS leader calls for global Muslim obedience“. Middle East Star. 5. júlí 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2014. Sótt 7. október 2018.
 10. „Bag­hda­di í mynd­bandi Rík­is íslams“. mbl.is. 29. apríl 2019. Sótt 2. maí 2019.
 11. „Terrorist Designation of Ibrahim Awwad Ibrahim Ali al-Badri“. United States Department of State. 4. október 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. október 2011. Sótt 7. október 2018.
 12. „Leiðtogi Rík­is íslams sprengdi sig í loft upp“. mbl.is. 27. október 2019. Sótt 27. október 2019.
 13. Chulov, Martin (31. október 2019). „Islamic State names new leader after death of Abu Bakr al-Baghdadi“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Afrit af uppruna á 31. október 2019. Sótt 31. október 2019.
 14. Atli Ísleifsson (3. febrúar 2022). „Leið­togi ISIS-sam­takanna drepinn í að­gerð Banda­ríkja­hers“. Vísir. Sótt 4. febrúar 2022.
 15. Árni Sæberg (11. mars 2022). „Nýr leið­togi Íslamska ríkisins bróðir stofnandans“. Vísir. Sótt 3. mars 2022.