Fara í innihald

Hryðjuverkaárásin á Crocus City Hall

Hnit: 55°49′33″N 37°23′25″A / 55.82583°N 37.39028°A / 55.82583; 37.39028
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

55°49′33″N 37°23′25″A / 55.82583°N 37.39028°A / 55.82583; 37.39028

Björgunarmenn við rústir ráðhúss Crocus 25. mars eftir hryðjuverkaárásina.

Þann 22. mars 2024 var framin skotárás í tónleikahöllinni Crocus City Hall í Krasnogorsk á útjaðri Moskvu í Rússlandi. Að minnsta kosti 144 létust í árásinni og fleiri en 180 særðust. Meðlimir hryðjuverkasamtakanna ISIS-K, undirdeildar Íslamska ríkisins, lýstu yfir ábyrgð á árásinni. Árásin í Crocus City Hall er mannskæðasta hryðjuverkaárás í Rússlandi frá gíslatökunni í Beslan árið 2004.

Crocus City Hall árið 2020.
Ræða Vladímírs Pútín forseta um árásina þann 23. mars 2024.

Kvöldið 22. mars 2024 gerðu fjórir dulbúnir menn vopnaðir árásarrifflum skotárás á mannfjölda í tónleikahöllinni Crocus City Hall í Moskvu. Tilkynningar bárust um sprengingar úr höllinni og eldur og reykjarmökkur sáust stíga upp af þaki hennar.[1] Árásin var gerð á meðan tónleikar rússnesku rokkhljómsveitarinnar Picnic stóðu yfir í tónleikahöllinni og um 6.200 manns voru inni í Crocus City Hall. Rússnesk stjórnvöld staðfestu síðar um kvöldið að hryðjuverkaárás hefði verið framin.[2]

Árásin stóð yfir í um þrettán mínútur en á þeim tíma er talið að árásarmennirnir hafi hleypt af um 500 skotum og kveikt elda áður en þeir fóru út úr tónleikahöllinni. Að sögn rússneskra fjölmiðla komu lögreglumenn á vettvang um rúmri klukkustund eftir að fyrstu skotunum hafði verið hleypt af og fóru inn í tónleikahöllina um hálftíma eftir það. Þá hafi árásarmennirnir verið farnir.[3]

Síðar um kvöldið lýsti Íslamska ríkið (ISIS) yfir ábyrgð á árásinni.[4][5] Fréttaveita ISIS, nánar tiltekið undirsamtaka þeirra, Íslamska ríkisins í Khorasan (ISIS-K), birti stuttu síðar myndband af vettvangi árásarinnar sem árásarmennirnir höfðu sjálfir tekið upp á meðan á henni stóð.[6][7] Rússneski herinn hafði á undanförnum árum barist gegn Íslamska ríkinu og öðrum íslömskum öfgahreyfingum, meðal annars í sýrlensku borgarastyrjöldinni og í hernaðaraðgerðum í Afganistan og Téténíu.[8]

Fyrr í mars 2024 höfðu Bandaríkjamenn varað við því að öfgamenn kynnu að gera árásir í Moskvu og bandaríska sendiráðið hafði varað ríkisborgara sína í Rússlandi við því að sækja fjölsótta viðburði þá helgina. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafði gert lítið úr viðvörun Bandaríkjamanna og sagði hana tilraun til að kúga rússneskt samfélag.[1]

Á dögunum eftir árásina voru fjórir menn handteknir og dæmdir í gæsluvarðhald fyrir að hafa framið hana.[9] Þeir voru allir frá Tadsíkistan.[10] Tveir þeirra höfðu ferðast frá Tyrklandi til Rússlands án nokkurra takmarkana þar sem engin handtökuskipun hafði verið gefið út gegn þeim.[11]

Þrátt fyrir að Íslamska ríkið hafi lýst ábyrgð á hendur sér hefur stjórn Pútíns bendlað stjórn Úkraínu, sem hefur átt í stríði við Rússland frá árinu 2014 og hefur varist innrás Rússa frá árinu 2022, við hryðjuverkið. Þann 25. mars sagði Vladímír Pútín íslamska öfgamenn hafa framið árásina en endurtók staðhæfingar um að þeir hefðu átt í tengslum við Úkraínu.[12] Þá sökuðu rússnesk stjórnvöld leyniþjónustur á Vesturlöndum, sér í lagi Bandaríkjanna og Bretlands, um að hafa aðstoðað árásarmennina.[3] Pútín hélt því fram þessu til stuðnings að árásarmennirnir hefðu ætlað að flýja til Úkraínu eftir árásina. Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði árásarmennina hins vegar hafa reynt að flýja yfir landamærin til Hvíta-Rússlands til að sleppa frá Rússlandi. Þeir hafi neyðst til að snúa við vegna varðstöðva við landamærin.[13] Stjórnvöld í Úkraínu höfnuðu því afdráttarlaust að þau hefðu haft neitt með árásina að gera. Bretar sökuðu stjórn Rússlands um að reyna að nota árásina í áróðursskyni til að réttlæta innrás sína í Úkraínu.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Rafn Ágúst Ragnarsson (22. mars 2024). „Um­fangs­mikil hryðjuverkaárás í Moskvu“. Vísir. Sótt 25. mars 2024.
  2. „Skotárás í tónleikahöll í Moskvu“. mbl.is. 22. mars 2024. Sótt 25. mars 2024.
  3. 3,0 3,1 Samúel Karl Ólason (26. mars 2024). „Sakar Banda­ríkja­menn og Breta um að­komu að á­rásinni“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
  4. Samúel Karl Ólason (22. mars 2024). „ISIS lýsir yfir á­byrgð á á­rásinni í Moskvu“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
  5. „Það sem við vitum um samtökin alræmdu sem frömdu voðaverkið í Moskvu“. DV. 25. mars 2024. Sótt 25. mars 2024.
  6. Samúel Karl Ólason (25. mars 2024). „Beinir spjótunum enn að Úkraínu“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
  7. Ólafur Björn Sverrisson (24. mars 2024). „ISIS birtir hryllingsmyndbönd af á­rásinni“. Vísir. Sótt 26. mars 2024.
  8. „Engir kærleikar á milli Rússa og ISIS-hryðjuverkasamtakanna“. Varðberg. 24. mars 2024. Sótt 25. mars 2024.
  9. Markús Þ. Þórhallsson (24. mars 2024). „Fjórir grunaðir um hryðjuverkin úrskurðaðir í gæsluvarðhald“. RÚV. Sótt 25. mars 2024.
  10. „Árásarmennirnir frá Tadsíkistan“. mbl.is. 23. ágúst 2021. Sótt 29. mars 2024.
  11. „Ferðuðust án takmarkana til Rússlands“. mbl.is. 26. mars 2024. Sótt 26. mars 2024.
  12. „Pútin viðurkennir aðild íslamskra öfgamanna að hryðjuverkinu“. Varðberg. 25. mars 2024. Sótt 25. mars 2024.
  13. „Segir mennina hafa reynt að flýja til Hvíta-Rússlands“. mbl.is. 26. mars 2024. Sótt 27. mars 2024.
  14. Freyr Rögnvaldsson (25. mars 2024). „Bresk stjórnvöld leggja ekki trúnað á frásagnir um tengsl hryðjuverkamannanna við Úkraínu“. Samstöðin. Sótt 25. mars 2024.