Frans páfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Frans

Frans (latína: Franciscus), fæddur 17. desember 1936 og skírður Jorge Mario Bergoglio SJ, er páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hann var áður biskup í Buenos Aires í Argentínu og er fyrsti páfinn í yfir 1200 ár sem ekki kemur frá Evrópu. Hann valdi sér páfanafnið Frans til heiðurs Frans frá Assisí.

Bergoglio fæddist í Buenos Aires og vann í stuttan tíma sem efnafræðingur og dyravörður í næturklúbbi áður en hann hóf guðfræðinám. Hann varð kaþólskur prestur árið 1969 og var héraðsforingi Jesúítareglunnar í Argentínu frá 1973 til 1979. Hann varð erkibiskup Buenos Aires árið 1998 og var útnefndur kardináli árið 2001 af Jóhannes Pál 2. páfa. Þegar Benedikt 16. sagði af sér þann 28. febrúar 2013 var Bergoglio kjörinn eftirmaður hans þann 13. mars.

Alla ævi sína hefur Frans verið rómaður fyrir hógværð sína, áherslu á miskunnsemi Guðs, baráttu gegn fátækt og stuðning við samræður á milli mismunandi trúarhópa. Nálgun hans á páfastól þykir alþýðlegri og óformlegri en hjá forverum hans; t.d. dvelur hann í gestahíbýlunum í Domus Sanctae Marthae frekar en í páfaíbúðunum sem forverar hans bjuggu í. Hann heldur auk þess upp á einfaldari og látlausari klæðaburð. Hann hefur talað fyrir því að kristnar kirkjur eigi að vera opnari og velkomnari. Hann styður hvorki óheftan kapítalisma, Marxisma né marxískar túlkanir á frelsunarguðfræði. Frans hefur haldið sig við hefðbundnin kaþólsk viðhorf gagnvart fóstureyðingum, samfélagskennslu, réttindi kvenna innan kirkjunnar og skírlífi presta. Hann er andsnúinnn neysluhyggju, óábyrgri uppbyggingu og hefur talað fyrir því að hert sé á losun gróðurhúsalofttegunda. Frans lagði sitt af mörkum til að koma á endurreistu stjórnmálasambandi milli Bandaríkjanna og Kúbu. Frá því hann gaf út ritið Amoris Laetitia árið 2016 hefur Frans mátt sæta æ opinskárri gagnrýni af hálfu íhaldssamra kaþólikka.


Fyrirrennari:
Benedikt 16.
Páfi
(13. mars 2013 – )
Eftirmaður:
'


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.