Fara í innihald

Húgó Kapet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hugo Kapet)
Skjaldarmerki Kapet-ætt Konungur Franka
Kapet-ætt
Húgó Kapet
Húgó Kapet
Ríkisár 3. júlí 987 – 24. október 996
SkírnarnafnHugues
FæddurU.þ.b. 939-941
 Dourdan
Dáinn24. október 996
 Les Juifs, Presville
GröfSaint-Denis-basilíka, París
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Húgó mikli
Móðir Heiðveig af Saxlandi
DrottningAðalheiður af Akvitaníu
BörnGisèle, Heiðveig, Róbert, Aðalheiður

Húgó Kapet (Hugues Capet á frönsku) var frankneskur konungur af ætt Róbertunga sem stofnaði Kapet-konungsættina sem réð yfir Frakklandi frá 10. öld til 19. aldar. Hann fæddist á árabilinu 939-941, líklega í Dourdan[1] og dó þann 24. október 996, líklega í kastalanum Les Juifs nærri Prasville.[2] Hann hafði verið hertogi Franka árin 960-987 og var síðan konungur Frankaríkisins árin 987-996. Húgó var sonur Húgós mikla og konu hans, Heiðveigar af Saxlandi. Hann var af ætt Róbertunga, voldugri aðalsætt sem kepptist við Karlunga og aðrar aðalsættir um völd í Frankaríkinu á níundu og tíundu öld. Í gegnum föðurömmu sína gat hann einnig rekið ættir til Karlungsins Bernharðs af Ítalíu, sonarsonar Karlamagnúsar. Húgó Kapet var fyrsti konungur Franka sem talaði frönsku fremur en þýsku.[3]

Í lok 10. aldar hófst efnahags- og samfélagsbylting sem náði hápunkti í kringum árið 1100. Efnahagurinn var fyrir áhrifum af framförum í landbúnaðartækni og af upptöku staðlaðrar myntar á fyrstu valdaárum Karlungaættarinnar. Á sama tíma hafði innrásum lokið og stríð milli stakra frankneskra aðalsmanna hafði leitt til byggingar fyrstu kastalanna í einkaeign þar sem bændur gátu leitað skjóls á ófriðartímum. Nýja valdastéttin, riddararnir, byrjuðu að keppast um völd við gömlu aðalsstéttir Karlunganna. Til þess að tryggja eigin hagsmuni byrjuðu klerkar og aðalsmenn að styðja svokallaðan Guðsfrið (Paix de Dieu) til að stýra beitingu ofbeldis í Frankaríkinu. Í þessu umhverfi tókst Húgó Kapet að reisa Kapet-konungsættina.

Frá upphafi naut Húgó góðs af stjórnarferli föður síns, sem hafði unnið bug á Herbert 2. af Vermandois og kæft í fæðingu áætlanir hans um að koma eigin ætt til valda. Þetta hjálpaði þó einnig Karlungum, sem höfðu misst tök á franknesku krúnunni eftir að Karli einfalda var steypt af stóli. Árið 960 erfði Húgó Kapet titilinn hertogi Franka, en þann titil hafði faðir hans hlotið í skiptum fyrir að eftirláta Loðvík 4. franknesku krúnuna. Áður en Húgó gat komist til valda varð hann að sleppa úr umsjá saxnesku Ottónían-ættarinnar og losa sig við síðustu Karlunganna. Það var með stuðningi kirkjunnar, sérstaklega biskupsins Adalbérons af Reims og Gerberts d'Aurillac (sem báðir voru nánir hirðmönnum Ottónían-ættar) sem Húgó var loks krýndur konungur Franka árið 987.

Það kom sér vel fyrir Húgó að hann var tiltölulega veikburða miðað við marga aðra aðalsmenn og því fannst frankneskum aðalsmönnum þeim ekki ógnað af krýningu hans. Þótt konungnum væri um megn að undiroka óhlýðna lénsmenn sína breyttist hugmyndin um konungsembættið verulega á valdatíð hans. Húgó gerði bandalag við kirkjuna og umkringdi sig af helstu biskupum ríkisins. Auk þess tengdist hann aðlinum og gerði bandalag við voldugustu lénsmenn ríkisins, hertogann af Normandí og greifann af Anjou, til þess að styrkja stöðu sína. Heimildir um líf fyrsta Kapetingsins eru aðallega úr sagnaritum munksins Richers af Reims.

Vestur-Frankaland var varanlega klofið úr Heilaga rómverska ríkinu og Húgó, líkt og eftirmenn hans, einbeitti sér að því að festa valdaætt sína í sessi. Hann hófst snemma handa við að leggja grunninn fyrir valdatöku sonar síns, Róberts, og lét krýna hann meðkonung á jóladag árið 987.[4] Það er til merkis um hve vel Húgó tókst þetta upp að Róbert settist átakalaust á valdastól eftir að Húgó dó árið 996. Ætt Kapetinga og ættkvíslir hennar áttu eftir að ríkja yfir Frakklandi fram að frönsku byltingunni og aftur frá 1814 til 1848. Auk þess áttu ættkvíslir hennar eftir að ríkja yfir Spáni, Ítalíu, Lúxemborg, Ungverjalandi, Portúgal og Brasilíu.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Monique Depraetère-Dargery (dir.), L’Île-de-France médiévale, t. 2, L'amour de Dieu - La vie de château - Images de la ville, 2001 : « Dourdan. La ville natale supposée d'Hugues Capet […] » Son père Hugues le Grand est mort au château de Dourdan le 16 juin 956.
  2. Obituaires de Sens, Tome I.1, Abbaye de Saint-Denis, bls. 329. [1].
  3. Les langues d'Europe : le français au cœur des langues d'Europe : l'espéranto au cœur des langues d'Europe, Raymond Guéguen, Edilivre, 2007, 186 bls., bls. 47.
  4. Colette Beaune, « roi », Dictionnaire du Moyen Âge, Paris, Presses universitaires de France, 2002, bls. 1232.
  5. Michel Parisse, « Qu'est-ce que la France de l'an Mil ? », La France de l'an Mil, Paris, Seuil,‎ 1990, p. 29-48, bls. 29-30.


Fyrirrennari:
Loðvík 5.
Konungur Frakklands
(3. júlí 98724. október 996)
Eftirmaður:
Róbert 2.