Theodór Jónassen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Theodor Jónassen)

(Eggert) Theodór Jónassen (f. 9. ágúst 1838 í Reykjavík, d. 29. september 1891 í Reykjavík) (einnig E. Th. Jónassen) var íslenskur embættismaður. Theodór var amtmaður og þingmaður.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar hans voru Þórður Jónasson (f. 1800, d. 1880) alþingismaður og háyfirdómari og kona hans Dorothea Sophia Rasmusdóttir, dóttir Rasmus Lynge á Akureyri. Bróðir Theodórs var Jónas Jónassen (f. 1840) alþingismaður og dómari. Theodór var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elín Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Stephensen í Vatnsdal, sýslumanns Rangæinga og systir Magnúsar Stephensen landshöfðingja. Eftir ándlát Elínar kvæntist Theodór aftur. Síðari kona hans var Carolina Siemsen, dóttir Georg Nicolai Edvard Siemsen kaupmanns og konsúls í Reykjavík. Theodór átti eina dóttur með fyrri konu sinni, en hún dó meðan hún var barn að aldri.

Menntun og embættisstörf[breyta | breyta frumkóða]

Theodór útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1858, og sigldi þá til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á lögfræði. Hann varð kandídat í lögfræði frá Hafnarháskóla 1867. Starfaði í skrifstofu land- og bæjarfógeta 1867—1868. Árið 1868 var Theodór settur sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu og árið á eftir i Mýra- og Hnappadalssýslu. Árið 1871 var hann skipaður sýslumaður í báðum sýslum er þær voru sameinaðar. Meðan hann var sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu bjó hann í Hjarðarholti í Stafholtstungum. Árið 1878 var Theodór skipaður bæjarfógeti Reykjavíkur og fluttist þá til Reykjavíkur. Árið 1886 var hann skipaður amtmaður í Suður- og vesturamtinu og sat í því embætti til æviloka, 1891.

Afskipti af stjórnmálum[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Theodór var skipaður amtmaður í Suður- og vesturamti sat hann einnig sem bæjarfulltrúi í Reykjavík, allt til æviloka eða frá 1886 til 1891. Árið 1887 var Theodór konungskjörinn þingmaður og sat á þingi 1887—1891. Líkt og margir aðrir embættismenn vildi hann fara hægt í sjálfstæðismálinu. Andstæðingar hans báru hins vegar virðingu fyrir honum enda var hann einstaklega ljúfur og lipur í samningum. Í Þjóðólfi var sagt að hann hefði verið "fyrstr til að hverfa frá þeim þvergirðingsskap hins konungkjörna flokks" að vilja enga endrskoðun leyfa á stjórnarskránni.[1]

Theodór Jónassen var mjög vinsæll embættismaður og þekktur fyrir góðmennsku og hjálpsemi. Í minningargrein í Öldinni var honum lýst þannig:

Amtmaðr Jónassen var einn meðal hinna vinsælustu valdsmanna, er hér hafa verið, og það að maklegleikum. Mannhylli sína átti hann að þakka sinni miklu ljúfmensku og góðfýsi, jafnt við volduga og vesala; hjartagæzka hans og hjálpsemi við fátæka og bagstadda var alkunn. ...
Hann var og hinn mesti iðjumaðr, og kom góðfýsi hans eigi hvað sízt fram í því, hvað hann var jafnan boðinn og búinn til að leggja á sig margvíslegt ómak og kvaðir umfram það, er skyldan bauð, hvort heldr var til almennings þarfa eða fyrir einstaka menn. Má telja víst, að hann hefði enzt betr, ef hann hefði lagt minna á sig, því hraustgerðr var hann aldrei.[2]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Æviágrip á vef Alþingis.

Þjóðólfur, 46. tbl. 43. árg. (2.október 1891), bls. 190.

Öldin, 5. tbl. 1. árg. (3. nóvember 1891), bls. 1.

Fjallkonan, 39-40. tbl. 8. árg (29. september 1891), bls. 158-159.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Þjóðólfur 46. tbl. 43. árg. (2.október 1891), bls. 190.
  2. Öldin, 5. tbl. 1. árg. (3. nóvember 1891), bls. 1.