Fara í innihald

Haile Selassie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Salómonsætt Eþíópíukeisari
Salómonsætt
Haile Selassie
Haile Selassie
ኃይለ፡ ሥላሴ
Ríkisár 2. apríl 1930 – 12. september 1974
SkírnarnafnLij Tafari Makonnen
Fæddur23. júlí, 1892
 Ejersa Goro, Eþíópíu
Dáinn27. ágúst 1975 (83 ára)
 Addis Ababa, Eþíópíu
GröfDómkirkja heilagrar þrenningar, Addis Ababa, Eþíópíu
Konungsfjölskyldan
Faðir Makonnen Wolde Mikael
Móðir Yeshimebet Ali
KeisaraynjaMenen Asfaw
BörnRomanework, Tenagnework, Asfaw Wossen, Zenebework, Tsehai, Makonnen, Sahle Selassie

Haile Selassie (ge'ez: ኃይለ፡ ሥላሴ, „kraftur þrenningarinnar“; 23. júlí 189227. ágúst 1975), fæddur undir nafninu Lij Tafari Makonnen og einnig kallaður Ras Tafari, var ríkisstjóri Eþíópíu frá 1916 til 1930 og Eþíópíukeisari frá 1930 til 1974. Hann átti þátt í að nútímavæða landið og var gríðarlega vinsæll leiðtogi, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Selassie var meðlimur eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Innan rastafarahreyfingarinnar, sem var stofnuð á Jamaíku snemma á 4. áratugnum er hann talinn vera Kristur endurborinn.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Haile Selassie fæddist árið 1892 og var skírður Tafari Makonnen en hlaut síðar nafnið Ras Tafari. Hann var skyldur þáverandi keisara Eþíópíu, Menelik 2., í gegnum ömmu sína. Hann varð landstjóri í héraðinu Salale þegar hann var fjórtán ára og síðan landstjóri í heimahéraði sínu, Harar, fjórum árum síðar. Eftir að Menelik lést tók Tafari þátt í andspyrnu gegn eftirmanni hans, Iyasu 5. keisara, sem þótti of hallur undir eþíópíska múslima. Svo fór að Iyasu var steypt af stóli og dóttir Meneliks, Zauditu, var lýst keisaraynja. Tafari var hins vegar lýstur ríkisstjóri Eþíópíu og varð jafnframt erfingi Zauditu á keisarastól.[1]

Sem ríkisstjóri Eþíópíu stóð Ras Tafari fyrir ýmsum umbótum í þágu nútímavæðingar. Á þessum tíma voru nýir skólar stofnaðir í höfuðborginni Addis Ababa, nemendur voru sendir í nám erlendis, ný sjúkrahús voru byggð og byrjað var að prenta bókmenntir á amharísku. Jafnframt var þrælahald formlega afnumið með lagasetningu árið 1923 samhliða inngöngu Eþíópíu í Þjóðabandalagið.[2] Tafari lenti oft í útistöðum við Zauditu keisaraynju, sem var mun íhaldssamari en ríkisstjórinn og þótti hann of nýjungagjarn.[3]

Árið 1928 gerðu Zauditu og aðrir íhaldsmenn tilraun til þess að losa sig við Tafari. Þessi tilraun fór út um þúfur og Zauditu neyddist í kjölfarið til að lýsa Tafari konung (negus) yfir Eþíópíu. Formlega séð var hann áfram undirmaður keisaraynjunnar en í reynd fór hann þaðan af með öll völd þjóðhöfðingjans.[2]

Stríðið við Ítali[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Zauditu lést árið 1930 varð Ras Tafari nýr keisari og tók sér nafnið Haile Selassie og titilinn „hið sigursæla ljón af ætt Júda, konungur konunganna og keisari Eþíópíu“. Eitt það fyrsta sem Haile Selassie tók sér fyrir hendur sem keisari var að setja Eþíópíu sína fyrstu stjórnarskrá.[4] Þessi stjórnarskrá kom á fót tveggja deilda þingi í Eþíópíu en hélt þó flestum eiginlegum völdum í höndum aðalsstéttarinnar. Að sögn keisarans var nýja stjórnarfyrirkomulaginu ætlað að vera millistig í átt að þróun til lýðræðis.[5]

Árið 1935 hratt Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu, af stað innrás í Eþíópíu. Ítalir höfðu áður reynt að leggja undir sig Eþíópíu árið 1889 en höfðu beðið ósigur og neyðst til að hafa sig á brott eftir orrustuna við Adúa. Fasistar sem sátu við völd á Ítalíu vildu hefna þessarar gömlu niðurlægingar og sanna yfirburði fasismans með því að gera það sem fyrri stjórnvöldum hafði mistekist; að gera Eþíópíu að ítalskri nýlendu.

Eþíópíumenn börðust hetjulega gegn ítölsku innrásinni en gátu ekki unnið bug á þeim í þetta sinn þar sem Ítalir bjuggu yfir mun háþróaðari vopnabúnaði, þar á meðal stórum flugher. Þann 2. maí 1936 flúði Haile Selassie frá Eþíópíu ásamt fjölskyldu sinni og hugðist biðla til Þjóðabandalagsins um hernaðaraðstoð. Ítalir hertóku Addis Ababa þremur dögum síðar og lýstu konung Ítalíu, Viktor Emmanúel 3., nýjan keisara Eþíópíu.

Útlegð (1936-1941)[breyta | breyta frumkóða]

Haile Selassie kom þann 12. maí fyrir samkomu Þjóðabandalagsins í Genf og fordæmdi innrás Ítala í Eþíópíu. Hann fordæmdi meðal annars notkun efnavopna í stríðinu og harmaði það að Þjóðabandalagið hefði ekki komið Eþíópíumönnum til hjálpar þrátt fyrir að Ítalir hefðu þverbrotið reglugerðir bandalagsins með innrásinni.[6] Með ræðunni vann Haile Selassie sér inn samúð andfasista á heimsvísu en Þjóðabandalagið aðhafðist hins vegar lítið. Bandalagið beitti aðeins minniháttar efnahagsþvingunum gegn Ítalíu en lét það annars óafskipt hvernig Ítalir höfðu brotið alþjóðasamninga með því að ráðast að tilefnislausu á aðildarríki Þjóðabandalagsins. Sljó viðbrögð Þjóðabandalagsins við stríðinu í Eþíópíu áttu sinn þátt í því að hvetja herskáa útþenslusinna, meðal annars í Þýskalandi og Japan, til dáða á næstu árum.

Haile Selassie settist í útlegð sinni að í borginni Bath í Englandi og keypti þar hús. Hann bjó þar við fremur fátæklegar aðstæður næstu árin[7] og reyndi að tala máli þjóðar sinnar við alþjóðasamfélagið. Honum varð lítið ágengt fyrr en árið 1940, en þá gengu Ítalir inn í seinni heimsstyrjöldina við hlið Þjóðverja. Þar með voru Ítalir komnir í stríð gegn Bretum, sem réðust því árið 1941 inn í Eþíópíu og frelsuðu landið undan ítölsku hernámi. Haile Selassie sneri aftur til Addis Ababa þann 5. maí árið 1941 og settist aftur á keisarastól í Eþíópíu, fimm árum upp á dag eftir að hann hrökklaðist undan innrás Ítala.[8]

Keisaratíð (1941-1974)[breyta | breyta frumkóða]

Haile Selassie á skrifstofu sinni árið 1942.

Haile Selassie hélt áfram margvíslegu uppbyggingarstarfi í Eþíópíu eftir að hann komst aftur til valda. Meðal annars lét hann byggja upp eþíópíska herinn svo landsmenn yrðu því viðbúnir ef önnur innrás yrði gerð. Þegar Sameinuðu þjóðirnar kölluðu árið á eftir alþjóðlegu hernaðarinngripi í Kóreustríðið sendi Haile Selassie eþíópíska hermenn til að berjast á Kóreuskaga. Hann lét sig einnig heilbrigðis- og menntamál miklu skipta og lét reisa fjölda nýrra sjúkrahúsa og skóla.[8]

Sem keisari reyndi Haile Selassie að skapa heilsteypta þjóðernisímynd í hinni fjölþjóðlegu Eþíópíu með því að hygla sérstaklega amharískri menningu á kostnað annarra þjóðarbrota sem bjuggu innan keisaradæmisins. Börn voru skylduð til að læra amharísku í skóla og börn sem ekki voru af amharaþjóðerni þurftu stundum jafnvel að taka upp ný amharísk nöfn svo kennarar þeirra ættu auðveldara með að muna hvað þau hétu.[9] Minnihlutahópar í keisaradæminu fengu því lítinn aðgang að amharísku valdaelítunni í kringum keisarann.[10] Haile Selassie skipaði einstaka embættismenn af Orómó- og Tígra-þjóðerni en gerði lítið sem ekkert til að bæta úr ójafnrétti þjóðflokkanna í hinu almenna samfélagi Eþíópíu.

Eftir að Ítalir voru hraktir frá Afríku árið 1941 fékk Eþíópía verndarland þeirra á austurströndinni, Erítreu, í sinn hlut. Í fyrstu tóku Erítreumenn því fagnandi að sameinast grannríkinu, en þegar stjórn Haile Selassie fór að þröngva amharískri menningu upp á íbúana og skipa amharíska fulltrúa í öll embætti létu Erítreumenn sér það illa lynda. Erítrea lýsti yfir sjálfstæði frá Eþíópíu árið 1961 og þar með hófst blóðugt sjálfstæðisstríð sem lauk ekki fyrr en árið 1993 með aðskilnaði Erítreu frá Eþíópíu. Hvorki keisarinn né stjórn hans lifðu nógu lengi til að sjá fyrir endann á þeirri deilu.

Í byrjun eftirstríðsáranna var Haile Selassie einn helsti talsmaður fyrir hagsmunum Afríkuríkja og einn helsti gagnrýnandi heimsvaldastefnu á heimsvísu. Hann var fyrsti forstöðumaður Afríska einingarbandalagsins árið 1963 og sá um byggingu höfuðstöðva þess í Addis Ababa.[11] Um leið og keisarinn lét til sín kveða á alþjóðavettvangi og vann sér inn aðdáun og virðingu útlendinga döluðu vinsældir hans þó heima fyrir. Árið 1960 gerðu fjórir meðlimir í keisaravarðliði Haile Selassie tilraun til valdaráns gegn keisaranum á meðan hann var erlendis. Valdaránið fór út um þúfur en uppreisnin var þó talin alvarlegasta ógnin við stjórn keisarans frá árinu 1941.[12] Tilraunir keisarans á næstu árum til að koma á umbótum í forneskjulegu landbúnaðarkerfi Eþíópíu þóttu hægfara og árangurslitlar og þurrkar ollu því að mikill hluti Eþíópíumanna, um 40.000 til 80.000 manns, létust í hungursneyð árið 1973.

Haile Selassie missti endanlega tökin á þjóð sinni árið 1974 vegna hungursneyðar og verðbólgu sem hafði versnað vegna olíukreppunnar sem þá skók heiminn. Þann 12. september tók hreyfing innan eþíopíska hersins, Derg, öll völd í landinu og steypti keisaranum af stóli. Eftir uppreisnina lagði herinn formlega niður keisaradæmið og gerði kommúnisma að nýrri hugmyndafræði ríkisins. Haile Selassie var settur í stofufangelsi og lést þar þann 27. ágúst árið 1975 þegar launmorðingi kæfði hann með kodda í rúmi sínu.[13]

Haile Selassie í rastafaratrú[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt fylgjendum rastafaratrúar er Haile Selassie Jesús Kristur endurborinn. Rastafarahreyfingin er kennd við nafn Haile Selassie fyrir keisaratíð hans, Ras Tafari. Fylgjendur trúarinnar telja að titill Haile Selassie og ætterni hans sem meints afkomanda Salómons konungs og drottningarinnar af Saba sýni fram á að krýning hans hafi verið uppfylling á spádómi úr Opinberunarbók Jóhannesar um endurkomu Messíasar. Rastar líta sem svo á að Haile Selassie sé sá Messías sem eigi að frelsa Afríkubúa og fólk af afrískum uppruna um allan heim.[14]

Haile Selassie fór í opinbera heimsókn til Jamaíku, fæðingarstaðs rastafaratrúar, þann 21. apríl 1966. Þessi dagur er annar heilagasti dagur rastafaratrúar á eftir 2. nóvember, krýningardegi keisarans.

Keisarinn var tvíræður í afstöðu sinni til rastafaratrúar og ávítaði fylgjendur hennar aldrei opinberlega fyrir að tilbiðja hann þrátt fyrir að vera sjálfur kristinn. Í hljóðrituðu viðtali sem Haile Selassie veitti árið 1967 neitaði hann því þó nokkuð ótvírætt að hann væri guðleg vera:

„Ég hef heyrt um hugmyndina. Ég hef líka hitt nokkra rasta. Ég sagði þeim skýrt og greinilega að ég sé maður, að ég sé dauðlegur, og að ég muni dag einn víkja fyrir komandi kynslóð, og að þeir ættu aldrei að gera þau mistök að halda eða láta sem mannleg vera geti verið guðleg.“[15]

Sumir rastar telja þessi orð keisarans þó ekki jafngilda afdráttarlausri höfnun á guðleika hans. Margir þeirra benda á að þegar Haile Selassie var hvattur til að hafna guðleika sínum í heimsókn sinni til Jamaíku árið 1966 hafi hann svarað: „Hvaða rétt hef ég til að hrófla við trú þeirra?“[16]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Haile Selassie fyrrum keisari Eþíópíu látinn“. Þjóðviljinn. 28. ágúst 1975. Sótt 26. febrúar 2019.
 2. 2,0 2,1 Felix Ólafsson (1974). Bókin um Eþíópíu. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. bls. 159.
 3. Felix Ólafsson (30. desember 1960). „Uppreisnin í Eþíópíu“. Morgunblaðið. Sótt 26. febrúar 2019.
 4. „Haile Selassie: Hið fallna tákn Eþíópíu“. Morgunblaðið. 14. september 1974. Sótt 26. febrúar 2019.
 5. Nahum, Fasil (1997), Constitution for a Nation of Nations: The Ethiopian Prospect. Red Sea Press. ISBN 1569020515, bls. 22.
 6. „Haile Selassie: Hvar er öryggi smáþjóðanna?“. Morgunblaðið. 2. júlí 1936. Sótt 26. febrúar 2019.
 7. Lindon Laing (5. desember 1937). „Fátækasti þjóðhöfðingi heimsins“. Vísir Sunnudagsblað. Sótt 26. febrúar 2019.
 8. 8,0 8,1 „Keisari Ethiopiu“. Tíminn. 8. ágúst 1952. Sótt 26. febrúar 2019.
 9. Ben Parker (1995). Ethiopia: Breaking New Ground. Oxfam. bls. 17.
 10. Alemseged Abbay. „Diversity and State-Building in Ethiopia“. African Affairs. Oxford University Press, 2004: 593–614. .
 11. „Haile Selassie að missa völdin“. Tíminn. 12. mars 1974. Sótt 26. febrúar 2019.
 12. Bahru Zewde, A History of Modern Ethiopia, second edition (Oxford: James Currey, 2001), p. 211: "The nearest the emperor came to losing his throne was in 1960."
 13. „Réttað í málum marxista í Eþíópíu Keisarinn var kæfður með kodda Addis Ababa“. mbl.is. 15. desember 1994. Sótt 9. maí 2021.
 14. „Hvers vegna líta rastafarar upp til Haile Selassie sem eins konar hálf-guðs?“. Vísindavefurinn.
 15. Spencer, William David (1998). Dread Jesus. SPCK Publishing. bls. 44. ISBN 978-0-28105101-4.
 16. O'Brien Chang, Kevin; Chen, Wayne (1998). Reggae Routes: The Story of Jamaican Music. Temple University Press. bls. 243. ISBN 978-1-56639-629-5.


Fyrirrennari:
Zauditu
Eþíópíukeisari
(2. apríl 193012. september 1974)
Eftirmaður:
Amha Selassie
(ókrýndur)