Salómon konungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Salómon, móðir hans Batseba, Natan spámaður og Abísag frá Súnem við rúmstokk Davíðs. Úr handriti frá um 1435 (Haag, MMW, 10 A 19, fol. 33r)

Salómon (hebreska שְׁלֹמֹה) var konungur Ísraelsríkis á 10. öld f.Kr. Hann ríkti á eftir föður sínum, Davíð. Um ævi Salómons er fjallað í Biblíunni og í Kóraninum. Frægastur er Salómon fyrir visku og skáldskapargáfur. Honum er m.a. eignað Orðskviðirnir, Prédikarinn og Ljóðaljóðin.[1]

Salómon í Biblíunni[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Salómons voru Davíð og Batseba Elíamsdóttir[2] (líka skrifað Batsúa Ammíelsdóttir).[3] Batseba var kona Úría Hetíta en varð þunguð af völdum Davíðs. Úría þjónaði í her Davíðs og Davíð skipaði herforingjanum sínum Jóab Serújusyni með launung að senda Úría í fremstu víglínu. Úría lét lífið í bardaga við Ammóníta og Davíð tók Batsebu síðan heim til sín.[4] Davíð iðraðist ekki fyrr en Natan spámaður álasaði Davíð fyrir morðið. Elsti sonur þeirra Batsebu dó en þau átti fjóra aðra syni: Símea, Sóbab, Natan og Salómon.[5] Annað nafn Salómons var Jedídjah.[6]

Salómon átti fjölda hálfsystkina. Ósætti ríkti gjarnan meðal sona Davíðs og þegar Davíð varð ellihniginn gerði Adónía Davíðsson tilraun til að ná völdum.[7] Jóab Serjúson og Abjatar prestur studdu Adónía. Salómon naut þó stuðnings Batsebu, Natans spámanns og fleiri í Jerúsalem. Batseba og Natan fóru á fund Davíðs og fengu hann til að staðfesta að Salómon skyldi verða næsti konungur Ísraelsríkis. Salómon var smurður til konungs í opinberri athöfn ekki löngu áður en Davíð dó. Adónía sótti eftir að fá fyrir konu Abísag frá Súnem sem hafði þjónað Davíð í elli konungsins og taldi Salómon það merki um að Adónía vildi ná af honum konungsríkinu.[8] Salómon lét drepa Adónía og Jóab og senda Abjatar í útlegð.

Ríkisárum Salómons er lýst sem trúarlegu og menningarlegu blómaskeiði. Salómon á að hafa reist musteri í Jerúsalem og konungshöll. Eftir dauða Salómons klofnaði ríkið í norður (Ísreal) og suður (Júda).

Salómon í bókmenntum og tónlist[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sigurður Ægisson. „Hver var Salómon konungur og fyrir hvað var hann frægur?“. Vísindavefurinn 3.12.2007. http://visindavefur.is/?id=6938. (Skoðað 16.8.2015).
  2. Síðari Samúelsbók 11:3
  3. Fyrri Kroníkubók 3:5
  4. Síðari Samúelsbók 11
  5. Fyrri Kroníkubók 3:5
  6. Síðari Samúelsbók 12:25
  7. Fyrri Konungabók 1:5-10
  8. Fyrri Konungabók 2:13-25