Fara í innihald

Zauditu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Salómonsætt Keisaraynja Eþíópíu
Salómonsætt
Zauditu
Zauditu
ዘውዲቱ
Ríkisár 27. september 1916 – 2. apríl 1930
SkírnarnafnAskala Maryam
Fædd29. apríl 1876
 Werreyimenu, Wollo, Eþíópíu
Dáin2. apríl 1930 (53 ára)
 Addis Ababa, Eþíópíu
Konungsfjölskyldan
Faðir Menelik 2.
Móðir Weyziro Abechi
EiginmaðurAraya Selassie Yohannes (1882–1888)
Gugsa Welle (1900–1930)

Zauditu (29. apríl 1876 – 2. apríl 1930) var keisaraynja Eþíópíu frá 1916 til 1930. Zauditu var fyrsta ríkjandi keisaraynja Eþíópíu og fyrsti kvenkyns þjóðhöfðingi í Afríkuríki sem naut alþjóðlegrar viðurkenningar á 19. og 20. öld. Hún er jafnframt síðasta ríkjandi keisaraynjan í mannkynssöguni fram til dagsins í dag. Ríkisár Zauditu einkenndust af ýmsum umbótum sem fóru fram að frumkvæði erfingja hennar, ríkisstjórans Ras Tafari, en hann átti síðar eftir að ríkja yfir Eþíópíu sem keisari undir nafninu Haile Selassie. Þar sem Zauditu var sjálf mjög íhaldssöm var hún gjarnan efins um eða blátt áfram mótfallin þessum umbótum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Zauditu fæddist undir nafninu Alskla Maryam og var dóttir Meneliks 2., konungs af Shoa, sem varð keisari Eþíópíu árið 1889. Þegar Menelik lést árið 1913 settist dóttursonur hans, Iyasu 5., á keisarastól en var þó aldrei formlega krýndur. Iyasu varð mjög óvinsæll meðal eþíópísku aðalsstéttarinnar þar sem hann var talinn hallur undir íslamstrú og var jafnvel vændur um að vera sjálfur múslimi. Eftir fáein stormasöm valdaár Iyasu var honum steypt af stóli og Zauditu var krýnd keisaraynja í hans stað.[1] Titill hennar var „drottning konunganna“ (Negiste Negest), í stað titilsins „konungur konunganna“ (Nəgusä Nägäst) sem keisarar Eþíópíu báru jafnan.

Frændi Zauditu, Ras Tafari, var útnefndur ríkisstjóri þegar hún tók við völdum og Zauditu fékk í fyrstu ekki að fara sjálf með ríkisvaldið sem keisaraynja. Tafari var jafnframt lýstur erfingi hennar að krúnunni þar sem öll börn Zauditu höfðu látist áður en hún tók við völdum.

Fyrstu ríkisár keisaraynjunnar einkenndust af áframhaldandi borgarastyrjöld gegn stuðningsmönnum Iyasu, sem hafði sloppið úr haldi stuttu eftir valdatöku Zauditu. Stuðningsmenn hans báðu afgerandi ósigur í orrustunni við Segale árið 1916 og Iyasu sjálfur var handsamaður á ný árið 1921. Zauditu vildi að farið yrði vel með Iyasu, systurson sinn, og sá til þess að hann skorti ekkert í fangavist sinni. Hún bað um að hann yrði settur í persónulega umsjá sína í keisarahöllinni í Addis Ababa svo hún gæti reynt að fá hann til að iðrast gerða sinna og öðlast sáluhjálp eftir að eþíópíska rétttrúnaðarkirkjan hafði bannfært hann. Ras Tafari og aðrir áhrifamenn í hirð Zauditu voru mjög mótfallnir þessum fyrirætlunum og því var Iyasu áfram hafður í stofufangelsi í bænum Fiche.

Ágreiningur jókst milli Zauditu og Tafari eftir því sem leið á valdatíð hennar. Tafari var hlynntur nútímavæðingu og vildi opna Eþíópíu fyrir umheiminum, en Zauditu var íhaldssöm og óttaðist að umbætur Tafari gætu ógnað hefðbundnum eþíópískum gildum.[2][3] Tafari átti meðal annars frumkvæði að því að þrælahald var bannað og að Eþíópía hlaut aðild að Þjóðabandalaginu á ríkisárum Zauditu.[4]

Árið 1928 gerðu Zauditu og aðrir íhaldsmenn tilraun til þess að losa sig við Tafari. Þessi tilraun fór út um þúfur og Zauditu neyddist í kjölfarið til að lýsa Tafari konung (negus) yfir Eþíópíu. Formlega séð var hann áfram undirmaður keisaraynjunnar en í reynd fór hann þaðan af með öll völd þjóðhöfðingjans. Zauditu hætti að mestu afskiptum af stjórnmálum og einbeitti sér að trúarmálum, meðal annars með því að láta byggja margar nýjar kirkjur.

Íhaldsmenn gerðu nokkrar tilraunir í viðbót til að steypa Tafari en án árangurs. Eiginmaður Zauditu, Ras Gugsa Welle, tók meðal annars þátt í uppreisn gegn Tafari þrátt fyrir mótmæli eiginkonu sinnar en var drepinn í orrustu gegn her ríkisstjórans árið 1930. Zauditu lést aðeins tveimur dögum síðar, hugsanlega úr sykursýki eða taugaveiki, og Tafari var formlega lýstur keisari undir nafninu Haile Selassie.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Harold G. Marcus (1995). The Life and Times of Menelik II: Ethiopia 1844-1913. Red Sea Press. bls. 278–281. ISBN 1-56902-010-8.
  2. Felix Ólafsson (30. desember 1960). „Uppreisnin í Eþíópíu“. Morgunblaðið. Sótt 26. febrúar 2019.
  3. Hallgrímur Hallgrímsson (1. janúar 1935). „Abessinía“. Skírnir. Sótt 23. mars 2019.
  4. Felix Ólafsson (1974). Bókin um Eþíópíu. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. bls. 159.


Fyrirrennari:
Iyasu 5.
Keisaraynja Eþíópíu
(27. september 19162. apríl 1930)
Eftirmaður:
Haile Selassie