Fara í innihald

Menelik 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Salómonsætt Eþíópíukeisari
Salómonsætt
Menelik 2.
Menelik 2.
ዳግማዊ ምኒልክ
Ríkisár 10. mars 1889 – 12. desember 1913
SkírnarnafnSahle Maryam
Fæddur17. ágúst 1844
 Angolalla, Eþíópíu
Dáinn12. desember 1913 (69 ára)
 Addis Ababa, Eþíópíu
GröfBa'eta Le Mariam-klaustri, Addis Ababa, Eþíópíu
Konungsfjölskyldan
Faðir Haile Melekot
Móðir Ijigayehu Adeyamo
KeisaraynjaTaytu Betul
BörnZauditu, Shoa Ragad, Wossen Seged

Menelik 2. (17. ágúst 1844 – 12. desember 1913) var keisari Eþíópíu frá 1889 til dauðadags árið 1913 og Negus (konungur) af Shoa frá 1866 til 1889. Á valdatíð Meneliks þandi hann landamæri Eþíópíu verulega út með landvinningum gegn nágrannaþjóðunum og lagði þannig drög að landamærum Eþíópíu eins og þau eru í dag. Eþíópíumenn vörðust einnig innrás Ítala í Eþíópíu og tókst að sigra þá í orrustunni við Adúa árið 1896. Með þessum sigri varð Eþíópía eina Afríkuþjóðin sem tókst að viðhalda sjálfstæði sínu gagnvart evrópskum nýlenduherrum í kapphlaupinu um Afríku.

Eftir að Theódór 2. Eþíópíukeisari féll í baráttu við Breta árið 1868 tók Menelik, sem þá var konungur eþíópíska konungdæmisins Shoa, þátt í valdabaráttu um keisarakrúnuna við aðra undirkonunga. Hann gafst að endingu viljugur upp fyrir Jóhannesi, konungi Tígra, sem varð í kjölfarið nýr keisari og leyfði Menelik að sitja áfram sem undirkonungur yfir Shoa.[1] Menelik lýsti sjálfan sig keisara Eþíópíu eftir að Jóhannes lést árið 1889.

Sem keisari átti Menelik í verslun við Evrópuveldin og keypti af þeim miklar birgðir af skotvopnum sem hann notaði síðan til þess að ráðast gegn Orómó-þjóðunum til suðurs. Með landvinningum sínum gegn Orómóum þrefaldaði Menelik yfirráðasvæði Eþíópíu og innlimaði ýmsar þjóðir og þjóðarbrot sem höfðu aldrei áður tilheyrt keisaradæminu.[2] Menelik vildi með þessu standa vörð um sjálfstæði Eþíópíu, fá alþjóðlega viðurkenningu á landamærum ríkisins, styrkja samstöðu þjóðarinnar með því að reka burt þjóðarbrot sem ekki voru kristin og auka völd keisarans yfir landinu.

Líkt og margir aðrir afrískir leiðtogar vonaðist Menelik til þess að geta gert bandalög við Evrópuveldin til að hafa hemil á stjórnarandstöðu í eigin landi og því undirritaði hann Wuchale-sáttmálann svokallaða við Ítali árið 1889. Í sáttmálanum viðurkenndi Menelik að Ítalir ættu verndarsvæði í Erítreu í skiptum fyrir loforð um fjárhags- og hernaðaraðstoð. Ítalir lögðu hins vegar allt annan skilning í samningin en Menelik; samkvæmt þeirra útgáfu hafði Menelik í reynd samþykkt að gera alla Eþíópíu að verndarsvæði Ítala og að gerast leppstjórnandi ítalskra nýlenduyfirráða. Þegar Menelik varð þess áskynja hvernig Ítalirnir höfðu túlkað samninginn rifti hann honum umsvifalaust.[3]

Eftir að samningnum var rift réðust Ítalir inn í Eþíópíu árið 1895 og hugðust leggja hana undir sig með valdi. Menelik mætti ítalska innrásarhernum með 100.000 manna her og tókst að sigra Ítali í orrustunni við Adúa.[4] Ítalir neyddust í kjölfarið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Eþíópíu og Bretar og Frakkar fylgdu fordæmi þeirra næsta ár.

Árið 1886 stofnaði Menelik nýja höfuðborg, Addis Ababa, í miðju ríkinu þar sem áður hafði verið Orómó-þorpið Finfine. Á næstu árum eftir sigurinn gegn Ítölum hófst mikið framfara- og uppbyggingarskeið í landinu: Símalínur voru lagðar frá Eþíópíu til umheimsins, járnbrautarlína var byggð frá Addis Ababa til Djíbútí og Menelik greiddi fyrir byggingu nýrra skóla í höfuðborginni með hjálp sænskra trúboða.[5] Menelik gerði hlutleysissamninga við Breta, Frakka árin 1902, 1906 og 1907.[6]

Heimildaskrá
  • Felix Ólafsson (1974). Bókin um Eþíópíu. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
Tilvísanir
  1. „Abessinía“. Dvöl. 3. nóvember 1935. Sótt 26. febrúar 2019.
  2. Bókin um Eþíópíu, bls. 140.
  3. Bókin um Eþíópíu, bls. 142.
  4. Hallgrímur Hallgrímsson (1. janúar 1935). „Abessinía“. Skírnir. Sótt 26. febrúar 2019.
  5. Bókin um Eþíópíu, bls. 146.
  6. „Ófriðurinn í Abessiníu“. Fálkinn. 25. október 1935. Sótt 26. febrúar 2019.


Fyrirrennari:
Jóhannes 4.
Eþíópíukeisari
(10. mars 188912. desember 1913)
Eftirmaður:
Iyasu 5.