Fara í innihald

Guðmundur góði Arason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðmundur góði
Stytta af Guðmundi Arasyni á Hólum

Guðmundur Arason hinn góði fæddist á Grjótá í Hörgárdal 1161 en lést á Hólum í Hjaltadal 16. mars 1237. Hann var biskup á Hólum (1203 - 1237). Hann fékk fljótt orð á sig fyrir góðmennsku og þótti hafa til að bera mikla mildi og mýkt. Hann hlaut því viðurnefnið „góði“ sem merkir helgur maður og töldu sumir að í nálægð hans gætu gerst kraftaverk. Hann varð fljótt umdeildur biskup og átti alla sína biskupstíð í deilum við volduga höfðingja.

Guðmundur Arason fæddist í Hörgárdal 1161 og var óskilgetinn því móðir hans, Úlfhildur Gunnarsdóttir, hafði verið nauðug gift öðrum manni áður en hún varð þunguð með föður hans, Ara Þorgeirssyni. Þegar hann var ungur féll faðir hans úti í Noregi þegar hann bjargaði Erlingi skakka jarli undan óvinum. Föðurbróðir Guðmundar, Ingimundur prestur, ól hann upp á hálfgerðum flækingi, barði hann til bókar og var harður við hann. Um 1180 ætluðu þeir til útlanda en skipið fórst við Hornstrandir. Guðmundur bjargaðist en slasaðist illa á fæti, átti lengi í þeim meiðslum og varð þá trúmaður og meinlætamaður. Hann var vígður til prests 1185.

Hann var svo prestur á nokkrum stöðum í Skagafirði og síðan á Völlum í Svarfaðardal og fór mikið orð af trúhneigð hans, meinlætalifnaði, örlæti og líknsemi við þá er minna máttu sín. Fljótlega fór það orð af honum að hann gæti gert ýmis kraftaverk, læknað sjúka og rekið út illa anda. Varð þetta til þess að höfðingjar sóttust eftir að fá hann til sín. Hann ferðaðist líka mikið um, vígði brunna og gerði áheit. Gvendarbrunna má enn finna víða um land og til er þekkt þjóðsaga um það þegar Guðmundur blessaði Drangey á Skagafirði.

Biskupskjör

[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur var skyldur Gyðríði konu Kolbeins Tumasonar, höfðingja Ásbirninga í Skagafirði, og fékk Kolbeinn hann til að gerast heimilisprestur sinn á Víðimýri. Skömmu síðar dó Brandur biskup á Hólum og kom Kolbeinn því til leiðar að Guðmundur var kjörinn biskup í hans stað. Færðist Guðmundur fyrst undan en á endanum tók hann við kjöri og bjóst Kolbeinn við að hann yrði sér leiðitamur, svo að hann gæti stýrt bæði leikmönnum og kennimönnum á Norðurlandi. Guðmundur fór þá til Hóla að undirbúa vígsluferð sína en Kolbeinn fór með og tók undir sig staðarforráð og líkaði Guðmundi það ekki en á endanum varð að ráði að Kolbeinn setti Sigurð Ormsson Svínfelling, stjúpföður sinn, til búsforráða á Hólum.

Hrafn Sveinbjarnarson fylgdi Guðmundi út til vígslu 1202 og var hann vígður af Eiríki erkibiskupi í Niðarósdómkirkju 13. apríl 1203. Guðmundur kom svo heim um sumarið og tók við embætti biskups á Hólum en vorið eftir sendi hann Sigurð til Munkaþverár og setti hann síðan niður á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem biskupsstóllinn hafði þá eignast. Þetta líkaði Kolbeini ekki því að hann treysti biskupi engan veginn fyrir fjármálum biskupsstólsins, og brátt urðu ágreiningsefnin fleiri.

Víðinesbardagi

[breyta | breyta frumkóða]

Kolbeinn taldi sig eiga fé hjá presti einum í Skagafirði og stefndi honum en biskup sagði að prestar ættu ekki að vera undir landslögum, heldur kirkjulögum. Þetta jók enn á ósættið og fór svo að biskup bannfærði Kolbein 1206. Hörðnuðu deilurnar stöðugt og vildi biskup ekki gefa sig, heldur bauð að skjóta málinu til erkibiskups í Noregi. Um leið átti Guðmundur í deilum við Sigurð Ormsson og Hall Kleppjárnsson, goðorðsmann á Hrafnagili.

Deilum Guðmundar og Kolbeins lauk með Víðinesbardaga þar sem Kolbeinn lést eftir að hafa fengið stein í höfuðið. Talið er að Kolbeinn hafi skömmu fyrir dauða sinn samið sálminn Heyr, himna smiður, en þar biður skáldið Guð fyrirgefningar. Eftir það lagði biskup mikil fégjöld og þungar skriftir á fylgismenn Kolbeins. Þá og oftar þóttu menn hans ganga hart fram, enda var sagt að biskup hefði litla stjórn á þeim og var honum kennt um ofbeldisverk þeirra og uppivöðslusemi. Missti biskup því mikið af þeim stuðningi sem hann hafði haft hjá bændum en fátæklingar og betlarar söfnuðust að honum.

Flökkubiskup

[breyta | breyta frumkóða]

Deilunum var engan veginn lokið. Guðmundur og lið hans áttu næstu ár í erjum við Arnór bróður Kolbeins og menn hans, og raunar við flesta íslenska höfðingja nema Oddaverja og Hrafn Sveinbjarnarson á meðan hans naut við, þótt biskup ætti stundum skjól hjá Snorra Sturlusyni. Þar var hann eftir að Arnór hrakti hann frá Hólum 1209 og drap nokkra manna hans. Næstu ár flakkaði hann um landið og var mest á Vestfjörðum en 1214 fór hann út á fund erkibiskups, tókst að fá hann á sitt band og fór aftur til Íslands 1218 og settist að á Hólum. Brátt kom þó Arnór Tumason, leysti upp skóla sem biskup hafði komið á fót en tók hann og hafði hann í haldi um veturinn. Um sumarið flutti hann Guðmund suður á Hvítárvelli en þangað kom Eyjólfur Kársson og bjargaði honum.

Næstu ár var biskup á hrakningi um landið með lið sitt við litlar vinsældir og lenti þá meðal annars í Helgastaðabardaga í ágústlok 1220, en afdrifaríkastur fyrir biskup var þó Grímseyjarbardagi vorið 1222. Þá laut hann í lægra haldi fyrir Sighvati Sturlusyni og Sturlu syni hans en þeir voru að hefna vígs Tuma Sighvatssonar sem menn Guðmundar líflétu á Hólum veturinn áður.

Biskup var sjálfur rekinn til Noregs um sumarið og var þar í fjögur ár. Erkibiskup skaut málinu til páfa en úr svarbréfi páfa eru nú aðeins þekkt orðin Si vult cedare, cedat - „Vilji hann víkja, þá víki hann.“ - sem hefur verið túlkað þannig að páfi hafi viljað að Guðmundur segði af sér embætti en ekki viljað þvinga hann til þess.

Árið 1226 fór Guðmundur aftur heim en Magnúsi Skálholtsbiskupi, sem var í hópi andstæðinga hans, var stefnt utan nokkru síðar. Þegar hann kom heim eftir fjögur ár hafði hann meðferðis bréf þar sem embættið var tekið af Guðmundi en ekki var því þó framfylgt. Guðmundur var hins vegar orðinn gamall og hefur kannski ekki þótt jafnmikill ógnvaldur við veldi höfðingjanna og áður. Hann hafði heldur ekki stóran flokk fylgismanna með sér eins og verið hafði. Guðmundur var orðinn hálfblindur og gamall maður þegar hann hætti loks að flakka um landið og fékk frið heima á Hólum tvö síðustu æviárin. Hann lést árið 1237.

Fornar heimildir um Guðmund góða

[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega eftir andlát hans var hafist handa við að skrifa sögu hans en söguritarinn virðist hafa fallið frá í miðjum klíðum því ritið endar fyrirvaralaust þar sem Guðmundur er á leið til biskupsvígslu í Noregi. Þetta er hin svokallaða Prestssaga Guðmundar Arasonar, sem er engu að síður mikilvæg sagnfræðiheimild, og er bæði notuð í Sturlungu og í sögum Guðmundar biskups góða. Guðmundur góði kemur enn fremur fyrir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, Arons þætti og víðar. Um og upp úr 1320 voru síðan ritaðar sérstakar ævisögur biskups sem prentaðar eru í Biskupasögum. Þær eru að miklu leyti byggðar á fyrrgreindum heimildum en mörgum kraftaverkasögum bætt við.

  • Hrund Hlöðversdóttir (2006). Merkir sögustaðir, Hólar. Námsgagnastofnun, Reykjavík.
  • „Guðmundur biskup góði. Þjóðviljinn 15. ágúst 1951“.
  • „Biskupasögur á Google Books“.


Fyrirrennari:
Brandur Sæmundsson
Hólabiskup
(12031237)
Eftirmaður:
Bótólfur (biskup)