Þorlákur Skúlason
Þorlákur Skúlason (24. ágúst 1597 – 4. janúar 1656) var biskup á Hólum frá 1628 til dauðadags, 1656.
Uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Faðir: Skúli Einarsson (d. 1612) á Eiríksstöðum í Svartárdal. Móðir: Steinunn Guðbrandsdóttir (f. 1571), laundóttir Guðbrands biskups.
Þorlákur ólst upp á Hólum hjá Guðbrandi biskupi afa sínum og lærði þar til prests. Fór utan haustið 1616 og skráður í Hafnarháskóla 9. desember. Varð baccalaureus 21. apríl 1618 með lofsamlegum vitnisburði. Kom til landsins 1619 og varð þá um haustið rektor í Hólaskóla. Fór utan sumarið 1620 vegna morðbréfamála afa síns, og stundaði nám í Hafnarháskóla veturinn 1620-1621. Kom til landsins 1621, tók aftur við rektorsstörfum og vígður dómkirkjuprestur á Hólum 1624.
Gamla dómkirkjan á Hólum fauk haustið 1624. Þorlákur fór utan 1625 til þess að afla viðar til nýrrar kirkju og kom aftur til landsins 1626. Þau Þorlákur og Halldóra Guðbrandsdóttir móðursystir hans, stóðu síðan fyrir byggingu nýrrar dómkirkju, svokallaðrar Halldórukirkju.
Biskup á Hólum
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að Guðbrandur biskup andaðist, 20. júlí 1627, var þess farið á leit við Arngrím lærða að hann yrði biskup, en hann færðist undan. Var Þorlákur Skúlason þá kjörinn. Fór hann utan sama haust, var vígður í Kaupmannahöfn 16. maí 1628, kom til landsins sama sumar og tók við biskupstólnum 2. ágúst. Hann var biskup til æviloka.
Páll Eggert Ólason segir um Þorlák: „Var mildur maður og óáleitinn, jafnaði allt fremur í kyrrþey en með hávaða. Fór honum þó kirkjustjórn vel úr hendi. Glaðlyndur maður og gamansamur, liðlegt latínuskáld og hafði liprar gáfur.“
Bókaútgáfa og fræðistörf
[breyta | breyta frumkóða]Þorlákur biskup hélt áfram útgáfu guðsorðabóka á Hólum í svipuðum anda og Guðbrandur afi hans hafði gert. Gaf hann út um 30 bækur. Mesta stórvirkið var önnur útgáfa biblíunnar á íslensku, sem við hann er kennd. Þorláksbiblía var prentuð á árunum 1637-1644, og er hún í meginatriðum endurprentun á Guðbrandsbiblíu, en textinn þó endurskoðaður með hliðsjón af danskri biblíu.
Þorlákur þýddi nokkrar guðsorðabækur. Einna þekktastar eru „Fimmtíu heilagar hugvekjur“ eftir Johann Gerhard (Hólum 1630 og oft síðar, seinast Reykjavík 2004) og "Dagleg iðkun guðrækninnar" eftir sama höfund (Hólum 1652).
Þorlákur Skúlason unni íslenskum fræðum og lét skrifa upp fjöldamörg gömul handrit. Einnig fékk hann Björn Jónsson á Skarðsá til þess að semja Skarðsárannál og fleiri rit. Telst Þorlákur meðal brautryðjenda fornmenntastefnunnar á Íslandi.
Þorlákur samdi eðlislýsingu Íslands á latínu (1647), sem prentuð var 1943 (Bibliotheca Arnamagnæana 3). Einnig hafa bréfaskipti hans við Ole Worm verið gefin út (Bibliotheca Arnamagnæana 7).
Í Þjóðskjalasafni Íslands er útdráttur úr Bréfabók Þorláks biskups Skúlasonar (prentuð 1979). Einnig brot úr vísitasíubók og reikningabók.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Kona Þorláks Skúlasonar var Kristín Gísladóttir (27. febrúar 1610 - 10. júní 1694). Foreldrar: Gísli Hákonarson lögmaður í Bræðratungu, og kona hans Margrét Jónsdóttir.
Kristín ólst upp á menningarheimili í Bræðratungu, giftist Þorláki Skúlasyni 1630 (kaupmáli 31. júlí) og fluttist með honum norður í Hóla. Um hana var sagt að henni hafi allir hlutir verið vel gefnir.
Börn þeirra voru: Gísli Þorláksson biskup á Hólum. Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Guðbrandur Þorláksson sýslumaður í Vallholti. Skúli Þorláksson prófastur á Grenjaðarstað. Elín Þorláksdóttir, gift Þorsteini Þorleifssyni sýslumanni á Víðivöllum. Jón Þorláksson sýslumaður í Berunesi.
Sumir afkomendur Þorláks Skúlasonar tóku upp ættarnafnið „Thorlacius“.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár V.
- Páll Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi.
Fyrirrennari: Guðbrandur Þorláksson |
|
Eftirmaður: Gísli Þorláksson |