Jón Teitsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Teitsson (f. 8. ágúst 1716, d. 16. nóvember 1781) var biskup á Hólum frá 1780 til dauðadags, 1781, eða rúmlega 1 ár.

Foreldrar Jóns voru Teitur Pálsson (d. 1728) prestur á Eyri í Skutulsfirði, og kona hans Ragnheiður Sigurðardóttir frá Holti í Önundarfirði.

Jón ólst upp á Eyri í Skutulsfirði, en missti föður sinn 12 ára gamall. Hann lærði undir skóla hjá eftirmanni föður síns á Eyri, var tekinn í Skálholtsskóla 1733 og varð stúdent þaðan vorið 1735. Hann fékk Otradal 1740 og varð prófastur í Barðastrandarsýslu 1743, fékk síðan Gaulverjabæ í Flóa 1755 og varð prófastur í Árnesþingi 1775. Árið 1773 vísiteraði hann Snæfellsness- og Barðastrandarsýslur í forföllum Finns biskups tengdaföður síns.

Árið 1779 var Jón boðaður utan til þess að verða Hólabiskup, fór til Kaupmannahafnar um haustið og var vígður biskup 7. maí 1780. Hann kom að Hólum í september 1780 og var biskup til æviloka, 1781, eða í rúmt ár. Sagt var að Jóni hefði verið óljúft að taka við biskupsembættinu, en tengsl hans við Finn biskup í Skálholti beindu athygli að honum. Páll Eggert Ólason segir um hann: "Hann var mikill vexti og rammur að afli, sem frændur hans, réttsýnn og ráðvandur, ekki talinn mjög lærður, stilltur og vinfastur, en hafði ekki mikla mannhylli, ekki viðfelldinn né rausnsamur, var vel efnum búinn."

Nokkrar bækur komu út á Hólum í biskupstíð Jóns Teitssonar, þar á meðal Tvennar húslestrar- og vikubænir eftir sjálfan hann (Hólum 1781). Árið 1782 kom út á Hólum útfararminning Jóns Teitssonar. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Jóns biskups. Ekki er til mynd af Jóni Teitssyni.

Jón Teitsson var tvígiftur:

Kona 1 (gift 1736): Halldóra Sigurðardóttir (f. 1716, d. 1753) frá Holti í Önundarfirði, þau voru systkinabörn. Af börnum þeirra komst upp:

Kona 2 (gift 1758): Margrét Finnsdóttir (f. 11. ágúst 1734, d. 3. ágúst 1796), dóttir Finns Jónssonar biskups í Skálholti og Guðríðar Gísladóttur. Margrét var vel gefin kona. Hún missti mest allan búpening sinn í móðuharðindunum, fluttist að Neðra-Ási í Hjaltadal og bjó þar til æviloka. Af börnum þeirra komust upp:

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár III.



Fyrirrennari:
Gísli Magnússon
Hólabiskup
(17801781)
Eftirmaður:
Árni Þórarinsson