Helgastaðabardagi
Helgastaðabardagi var bardagi á milli fylgismanna Guðmundar biskups Arasonar og liðs þeirra Sighvatar Sturlusonar og Arnórs Tumasonar á Helgastöðum í Reykjadal 29.-30. ágúst 1220.
Guðmundur hafði verið á flakki um landið og var í Reykjadal um sumarið með hundrað manna lið. Bændum þótti nóg um átroðninginn og gerðu þeir Sighvati og Arnóri boð og þeir komu með lið með sér norður. Biskup var þá að vígja kirkju á Helgastöðum. Menn hans bjuggust til varnar í kirkjugarðinum og eftir nokkurn bardaga var umsátur um kirkjuna um nóttina. Um morguninn „gjörðu þeir vígfleka af röptum ok bera hann at lundi þeim er stód sunnan á gardinum ok grafa þar nú gardinn undir flekanum“ og þegar þeim tókst að rjúfa skarð í garðinn flúðu biskupsmenn í kirkjuna.
Flestir manna biskups fengu grið, þar á meðal Eyjólfur Kársson, en biskup hélt áfram flakki sínu og endaði suður í Odda, þar sem hann var um veturinn hjá Sæmundi Jónssyni.