Einar Þorsteinsson (f. 1633)
Einar Þorsteinsson (f. 21. febrúar 1633, d. 9. október 1696) var biskup á Hólum frá 1692 til dauðadags, 1696, eða í rúm 4 ár.
Foreldrar Einars voru Þorsteinn Tyrfingsson (um 1595–1645) prestur í Hvammi í Norðurárdal, og kona hans Jórunn Einarsdóttir (um 1600–1678) frá Melum í Melasveit.
Einar Þorsteinsson fæddist í Hvammi í Norðurárdal og ólst þar upp. Hann lærði undir skóla hjá séra Þórði Jónssyni í Hítardal, var tekinn í Hólaskóla 1645 og varð stúdent þaðan 1649. Var síðan eitt ár djákni á Reynistað og tvö ár í þjónustu Henriks Bjelkes, fór með honum utan 1650. Skráður í Kaupmannahafnarháskóla í desember 1652 og varð attestatus í guðfræði vorið 1654. Kom heim um sumarið og varð heyrari (þ.e. kennari) í Hólaskóla í 2-3 ár og síðan skólameistari í þrjú ár. Fékk Múla í Aðaldal 1660 (tók við staðnum vorið 1662) og var prestur þar til 1692.
Einar fór til Kaupmannahafnar haustið 1691 og fékk veitingu konungs fyrir biskupsdæminu. Vígður 13. mars 1692, kom heim um vorið og tók við Hólastól í lok júní. Páll Eggert Ólason segir um Einar: "Hann var talinn vel að sér í andlegum og veraldlegum efnum, glaðlyndur og gestrisinn, stjórnsamur og auðgaðist vel, en þó vel látinn."
Engin prentsmiðja var á Hólum í tíð Einars Þorsteinssonar.
Engin mynd eða málverk er til af Einari Þorsteinssyni, en legsteinn með grafskrift hans er í Hóladómkirkju.
Einar Þorsteinsson var tvígiftur. Kona 1 (gift 1664): Ingibjörg Gísladóttir (f. um 1642, d. 8. júní 1695), dóttir Gísla Brynjólfssonar prests á Bergsstöðum í Svartárdal og konu hans Sesselju Grímsdóttur. Þau áttu 11 börn sem upp komust, meðal þeirra voru: Guðrún Einarsdóttir (1665–1752) kona Jóns Árnasonar biskups í Skálholti, Gísli eldri Einarsson (1666–1724) prestur í Múla eftir föður sinn, Guðríður Einarsdóttir (f. 1669) kona Jóns Jónssonar Thorlaciusar sýslumanns, Sigurður Einarsson (1673–1748) lögsagnari á Geitaskarði, Nikulás Einarsson (1673–1707) sýslumaður á Reynistað, Gísli yngri Einarsson (1678–1747) prestur á Auðkúlu í Svínadal, og sex önnur, þar af dóu fjögur úr stórubólu 1707.
Kona 2 (gift 1696): Ragnheiður Jónsdóttir (1646 – 10. apríl 1715), dóttir Jóns Arasonar prests í Vatnsfirði og ekkja Gísla Þorlákssonar biskups. Einar dó tæpum mánuði eftir brúðkaupið. Þau Einar og Ragnheiður voru barnlaus.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár I.
- Sigurjón Páll Ísaksson: Um Legsteina í Hóladómkirkju. Skagfirðingabók 21.
- Íslendingabók (á netinu).
Fyrirrennari: Jón Vigfússon |
|
Eftirmaður: Björn Þorleifsson |