Hvítárvellir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hvítárvellir er gamalt stórbýli og höfðingjasetur í Borgarfirði við ósa Hvítár. Jörðin þótti ein mesta kostajörð landsins og var meðal annars ein mesta laxveiðijörð í Borgarfirði. Þar var neðsta lögferja á Hvítá og síðar var gerð þar brú. Þarna lá því þjóðvegurinn um allt þar til Borgarfjarðarbrúin var byggð, auk þess sem Hvítá var notuð til flutninga, og var því löngum gestkvæmt á Hvítárvöllum.

Þar voru kaupstefnur á sumrin til forna og reistu norskir kaupmenn sér þar búðir. Þaðan var Böðvar sonur Egils Skallagrímssonar að koma þegar bátur hans fórst og hann drukknaði ásamt fleirum. Á völlunum kom líka fjölmenni saman til knattleika á söguöld að því er segir í Egils sögu og það var á Hvítárvöllum sem Egill varð fyrst mannsbani, sjö ára að aldri, þegar hann vó Grím Heggsson frá Heggstöðum eftir að hafa farið halloka fyrir honum í knattleik.

Á fyrri hluta 18. aldar bjó Sigurður Jónsson (1679-1761) sýslumaður á Hvítárvöllum ásamt konu sinni, Ólöfu Jónsdóttur. Fyrri maður hennar dó í Stórubólu 1707, nokkrum dögum eftir brúðkaupið. Hún þótti góður kvenkostur og vildu margir giftast henni en Sigurður var hlutskarpastur. Var sagt að einhver vonsvikinn vonbiðill hefði þá sent þeim draug sem nefndur var Stormhöttur. Hann var þó fljótt settur niður en vonbiðillinn sendi þá annan draug í staðinn og var það Hvítárvalla-Skotta, sem löngum var kennt um ýmiss konar óhöpp og óskunda á Hvítárvöllum. Margir kenndu henni um stórbruna sem varð á Hvítárvöllum 1751, þegar sjö manns brunnu inni, þar á meðal Páll sonur Sigurðar og Ólafar, sem fórst þegar hann reyndi að bjarga börnum úr eldinum.

Stefán Stephensen amtmaður bjó á Hvítárvöllum á fyrri hluta 19. aldar. Þegar leið á öldina urðu breskir laxveiðimenn tíðir gestir á Hvítárvöllum og þar var meðal annars stunduð niðursuða á laxi. Árið 1898 keypti Charles Gauldrée-Boilleau barón jörðina og settist þar að og hafði mikil umsvif. Hann varð þó fjárvana um síðir og fyrirfór sér í Englandi 1901. Þórarinn Eldjárn skrifaði skáldsögu um hann sem nefnist Baróninn og kom út 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Tvö höfðingjasetur brenna. Lögberg, 3. ágúst 1938“.