Fara í innihald

Björn Þorleifsson biskup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Björn Þorleifsson (f. 21. júní 1663, d. 13. júní 1710) var biskup á Hólum frá 1697 til dauðadags, 1710, eða í 13 ár.

Foreldrar Björns voru Þorleifur Jónsson (um 1619–1690) prestur í Odda á Rangárvöllum, og kona hans Sigríður Björnsdóttir (um 1620–1688) frá Bæ á Rauðasandi.

Björn Þorleifsson fæddist í Odda og ólst þar upp. Hann var tekinn í Skálholtsskóla 1679 og varð stúdent þaðan 1683. Fór utan 1684, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið og varð attestatus í guðfræði vorið 1686. Kom heim um sumarið með vonarbréf fyrir Odda. Vígðist 1687 aðstoðarprestur föður síns og tók við Odda 1690 eftir lát hans.

Björn fór til Kaupmannahafnar haustið 1691 og sótti um Hólabiskupsdæmi eftir fráfall Jóns Vigfússonar, en Einar Þorsteinsson varð honum yfirsterkari. Að boði konungs var síra Björn vígður varabiskup 30. janúar 1692, og skyldi hljóta hvort biskupsdæmið er fyrr losnaði, og halda Odda á meðan. Varð magister að nafnbót vorið 1692 og kom heim um sumarið. Hann hélt síðan aðstoðarprest og gegndi sumum biskupsstörfum í veikindum Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups, einkum 1694 og 1696, stýrði t.d. prestastefnum og vígði presta. Tók við Hólastól 1697, eftir fráfall Einars Þorsteinssonar, og hélt til æviloka, 1710. Páll Eggert Ólason segir um Björn: "Var vel að sér, hneigður fyrir söng, kom á söng- og reikningskennslu í Hólaskóla, hélt þar fleiri nemendur á fullum styrk en hann var skyldur til. ... Hann var veitull og gestrisinn og hélt sig mjög að höfðingjahætti, góðviljaður öllum. Mælskur vel og ritfær, en þó með nokkurri fordild, enda talinn tilgerðarsamur."

Björn biskup stóð í bréfaskiptum við Árna Magnússon og veitti honum aðstoð við söfnun handrita.

Þegar Björn tók við sem biskup á Hólum var eina prentsmiðja landsins í Skálholti, og var Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup þá nýfallinn frá. Sonur Þórðar, Brynjólfur Þórðarson Thorlacius sýslumaður á Hlíðarenda í Fljótshlíð, tók prentsmiðjuna til sín. Björn biskup samdi um kaup á henni 1703 og var hún flutt aftur norður að Hólum. Hófst prentun þar á ný haustið 1703. Um 20 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Björns Þorleifssonar. Meðal þeirra var Jónsbók, hin forna lögbók Íslendinga, sem kom í tveimur útgáfum, 1707 og 1709.

Björn frumsamdi tvær bækur: Fjórar iðrunarpredikanir (Hólum 1705 og 1710) og Heitdagspredikanir (Hólum 1706). Orti erfiljóð á latínu eftir Gísla Magnússon sýslumann (Vísa-Gísla), sem prentað var í útfararminningu hans, Hólum 1704. Hann þýddi bók eftir A. Hjörring: Veganesti guðsbarna (Hólum 1706), og e.t.v. eitthvað fleira. Fékk ámæli fyrir breytingar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, sem prentaðir voru á Hólum 1704.

Björn biskup var í fyrstu vel efnaður maður, en varð fyrir miklu tjóni þegar biskupsbaðstofan á Hólum brann 18. nóvember 1709, þá nýlega uppgerð. Brunnu þar bækur, silfurgripir o.fl. Beið efnahagur hans þá mikinn hnekki, en einnig er hann í sumum heimildum gagnrýndur fyrir eyðslusemi.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru vísitasíubók og prestastefnubók úr embættistíð Björns Þorleifssonar, en bréfabækur hans og tveggja fyrirrennara hans mun hafa brunnið 1709.

Engin mynd eða málverk er til af Birni Þorleifssyni og ekki heldur legsteinn með grafskrift hans.

Kona Björns Þorleifssonar (gift 1689) var Þrúður Þorsteinsdóttir (f. 13. desember 1666, d. 19. apríl 1738), dóttir Þorsteins Þorleifssonar sýslumanns á Víðivöllum í Blönduhlíð og konu hans Elínar Þorláksdóttur, dóttur Þorláks Skúlasonar Hólabiskups. Eftir lát manns síns fluttist Þrúður að Víðivöllum. Árið 1730 brá hún búi og fluttist suður að Hlíðarenda í Fljótshlíð og dó þar.

Þau Björn og Þrúður voru barnlaus.

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár I.
  • Ragnar Fjalar Lárusson: Skrá um Hólaprent, í handriti.
  • Sigurjón Páll Ísaksson: Um Legsteina í Hóladómkirkju. Skagfirðingabók 21.
  • Íslendingabók (á netinu).


Fyrirrennari:
Einar Þorsteinsson
Hólabiskup
(16971710)
Eftirmaður:
Steinn Jónsson