Fara í innihald

Gilsbakki (Hvítársíðu)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gilsbakki í Hvítársíðu)
Úsýni í austur frá Gilsbakka í Hvítársíðu

Gilsbakki er bújörð og kirkjustaður í Hvítársíðu í Borgarbyggð.

Staðhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Jörðin, sem er allstór, eða 70 ferkílómetrar að flatarmáli [1] , er austarlega í sveitinni og liggur að Hvítá í Borgarfirði í suðri og í norðri að Kjarará í Þverárhlíð, sem veiðimenn kalla Kjarrá. Næsti bær í vestri er Bjarnastaðir og síðan kemur Kirkjuból (bær Guðmundar Böðvarssonar skálds), en í austri Kolsstaðir, þá Hallkelsstaðir, Þorvaldsstaðir, Fljótstunga og Kalmanstunga og síðan taka afréttir og óbyggðir við. Stutt er til Arnarvatnsheiðar. Heiðalönd Tvídægru og Lambatungur teygja sig suður að norðurmörkum Gilsbakkalands. [2] Andsspænis Gilsbakka sunnan Hvítár eru Stóri–Ás og Hraunsás og þar fyrir framan (það er austan) [n 1] er Húsafell.

Sporður Hallmundarhrauns þekur breiða sléttuna milli róta brekkunnar sem bærinn stendur á og Hvítár. Austari hluti Hallmundarhrauns í löndum Gilsbakka og Fljótstungu kallast Gráhraun og vesturendinn Skógarhraun. Hraunfossar renna undan hrauninu í landi Gilsbakka út í Hvítá og Barnafoss er í Hvítá á jarðamörkum Gilsbakka og Hraunsáss stuttu ofan við Hraunfossana. Rétt neðan við Barnafoss er göngubrú yfir ána, upphaflega byggð 1891, að frumkvæði prófastsins í Reykholti og bænda í nágrannasveitum, en endurbyggð um 1954 og viðhaldið síðan. [3] Er þetta fyrsta brúin sem byggð var yfir Hvítá í Borgarfirði og var notuð af bændum í Hálsasveit og Reykholtsdal til þess að reka fé til sumarbeitar á Arnarvatnsheiði og sleppa þannig við erfið og hættuleg vöð yfir Kaldá, Geitá, Hvítá og Norðlingafljót.

Bærinn stendur hátt í aflíðandi brekku norðan þjóðvegarins um Hvítársíðu, í um 160 metra hæð yfir sjávarmáli[1]. Þar er kirkja sem var vígð 1908 og endurbyggð 1953. Hún var reist í stað eldri kirkju sem var frá 1882–3 en fauk í desember 1907. Kirkjan var upphaflega byggð úr timbri en það hefur verið steypt utan um hana og turni bætt við. Umhverfis kirkjuna er kirkjugarður. Það eru þrjú íbúðarhús á staðnum, reist af mismunandi kynslóðum, það elsta merkt byggingarárinu 1917.

Skammt vestan við bæinn er Bæjargilið, sem hefur gefið jörðinni nafn. Stutt vestan þess er annað gil, Ytragil. Austan við heimreiðina er styttra gil, Hellisgil. Hrauná kemur af heiðinni fyrir norðaustan bæinn og fellur niður Bæjargilið niður á sléttuna, sveigir vestur fyrir Skógarhraun og fellur í Hvítá. Djáknalækur fellur niður Ytragil og sameinast Hrauná á sléttunni. Litla–Fljót kemur úr vötnum á heiðinni austan við Þorvaldsstaði og rennur til vesturs um Þorvaldsdal, síðan undir hlíðinni í Hvítársíðunni og út í Hvítá í Gilsbakkalandi skammt neðan við Hraunfossa.

Mikið og fallegt útsýni er frá bænum suður yfir Hvítá til Hálsasveitar og Oksins og í austur til Strúts, Eiríksjökuls, Hafrafells, Langjökuls og fleiri fjalla. Bæði Englendingurinn W.G. Collingwood, sem heimsótti Gilsbakka á ferð sinni um Ísland 1897 og Ásgrímur Jónsson, sem gisti mörg sumur á Húsafelli um miðja tuttugustu öld, fundu sér falleg myndefni til að mála á þessum slóðum.

Allnokkur veiðiréttur fylgir Gilsbakka. Laxveiði í Kjarará og bleikja í Hvítá. Silungsvötn og lækir um heiðarnar allt vestur á Holtavörðuheiði. Úlfsvatn, Grunnavötn, Hólmavatn og fleiri. Hlutur í hvalreka á Borðeyri og Heggstöðum, tólf vættir í tvítugum hval eða meira. En þar hefur ekki orðið hvalreki í manna minnum. [4]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Í þann tíma er Þorsteinn Egilsson Skallagrímssonar bjó á Borg á Mýrum bjó á Gilsbakka Illugi svarti Hallkelsson og kona hans Ingibjörg Ásbjarnardóttir. Þau áttu mörg börn en frægast þeirra er sonurinn Gunnlaugur, sem varð „snemmendis bráðger, manna best á sig kominn, hávaðamaður mikill í öllu skaplyndi og framgjarn snemmendis og við allt óvæginn og harður og skáld mikið og heldur níðskár og kallaður Gunnlaugur ormstunga“ [5]. Saga hans segir frá ástum hans og Helgu hinnar fögru dóttur Þorsteins Egilssonar og hvernig Skáld-Hrafn Önundarson plataði Helgu til að giftast sér meðan Gunnlaugur var í Noregi, sem leiddi til hólmgöngu Gunnlaugs og Hrafns í Noregi [n 2] er lauk með dauða beggja.[5]

Kirkjan á Gilsbakka var fyrst nefnd í Kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups og var í kaþólskum sið helguð Maríu guðsmóður, Mikkjáli erkiengli og Nikulási biskupi. Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá 1397 var öll Gilsbakkajörðin eign kirkjunnar. Þar var að líkindum fljótlega staður eða prestsetur og þar sátu prestar allt fram á tuttugustu öld. Þjónuðu Gilsbakkaprestar jafnan kirkjunni í Síðumúla og framan af öldum, allt til 1605, Stóra–Ásskirkju. Gilsbakkasókn náði frá Sámsstöðum í miðri Hvítársíðu að Hallkelsstöðum, en frá 1812 til Kalmanstungu, en þá var Kalmanstungukirkja aflögð. [6]

Árin 1759 til 1765 var séra Kolbeinn Þorsteinsson frá Tungufelli í Ytri-hrepp (Hrunamannahrepp) aðstoðarprestur hjá tengdaföður sínum á Gilsbakka, en bjó í Síðumúla [n 3]. Hann orti hið þekkta kvæði Gilsbakkaþulu. Guðrún sú sem nefnd er í þulunni mun hafa verið dóttir hans (f. 1757). Hún hefur riðið frá Síðumúla til jólaveislu hjá afa sínum á Gilsbakka. Einnig koma fyrir í þulunni börn Gilsbakkaprests. [7][8]

Á öndverðri nítjándu öld var prestur á Gilsbakka séra Hjörtur Jónsson sem hafði fylgt Bjarna á Sjöundá til Noregs 1805 þar sem Bjarni var hálshögginn fyrir morð. Þetta þótti slíkt óþverrastarf að Hjörtur mátti velja sér brauð þegar hann kom úr ferðinni. [1]

Steingrímur Thorsteinsson skáld og Menntaskólarektor orti um staðinn mikið kvæði: Gilsbakkaljóð, gefið út 1877, sem hefst á þessum orðum:[9]

Hin glæsta fjallsýn geðjast mér
frá Gilsbakkanum háa...

Þegar Guðmundur Böðvarsson (f. 1904) frá Kirkjubóli var unglingur og hafði misst móður sína var hann um skeið vinnumaður á Gilsbakka. Hann varði miklum tíma í að lesa fyrir séra Magnús Andrésson prest og bónda á Gilsbakka, sem var orðinn blindur. Guðmundur var farinn að yrkja en var ekki viss um ágæti kveðskapar síns. Ragnheiður [n 4] (f. 1897) dóttir Magnúsar sem einnig fékkst við kveðskap hvatti hann til þess að halda áfram að yrkja. Þau skrifuðust á eftir að Ragnheiður var gift og flutt til Skeljabrekku í Andakíl. Ragnheiður hafði frumkvæði að því að fá útgefendur til þess að nálgast Guðmund með það fyrir augum að fá að gefa út kvæði hans. Fannst henni Guðmundur allt of hógvær. Bréf Guðmundar, sem Ragnheiður varðveitti, urðu uppistaða í bók Silju Aðalsteinsdóttur um Guðmund: Skáldið sem sólin kyssti. [10]

Gilsbakki var prestssetur til 1907, en þá voru Gilsbakkasókn og Stóra-Ássókn lagðar undir Reykholtsprestkall og 1909 var kirkjujörðin Gilsbakki seld síðasta prestinum, séra Magnúsi Andréssyni og hafa afkomendur hans búið þar síðan.

Neðanmálsgeinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Borgfirðingar segja fram til fjalla fyrir austur og út til sjávar fyrir vestur.
  2. Einvígið var háð í Jamtalandi sem þá hefur tilheyrt Noregi en Svíar tóku af Norðmönnum 1645 og eiga nú.
  3. Sumar heimildir segja að Kolbeinn hafi búið í Síðumúla, en aðrar segja á Bjarnastöðum, sem eru mun nær Gilsbakka.
  4. Ragnheiður Magnúsdóttir var amma Jakobs Frímanns Magnússonar


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Gísli Sigurðsson (2006). Seiður lands og sagna 4. bindi: Vestur undir jökul. Mál og mynd, Reykjavík. bls. 8–21.
  2. Sjá Map.is-Sérkort-Eignamörk
  3. * Barnafossbrú 100 ára; Mathias Á Mathiessen, Morgunblaðið 1. september 1991, bls. 32–33.
  4. Mér fannst alltaf að hér ætti ég heima, Fyrri hluti; Freyr maí 1996, bls. 184–191.
  5. 5,0 5,1 Gunnlaugs saga ormstungu
  6. Gilsbakkakirkja; Geymt 15 júní 2016 í Wayback Machine á vefnum www.kirkjukort.is.
  7. Sonur útlagans; Tíminn 15. febrúar 1972, bls. 12–13.
  8. Gilsbakkaþula; Æskan desember 1973, bls. 58.
  9. Gilsbakka-ljóð; Steingrímur Thorsteinsson, Prentsmiðja Ísafoldar, Reykjavík 1877
  10. Silja Aðalsteinsdóttir (2004 (2. útgáfa)). Skáldið sem sólin kyssti: ævisaga Guðmundar Böðvarssonar. Mál og menning, Reykjavík.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Björk Ingimundardóttir og fleiri. „Gilsbakkakirkja“. Friðaðar kirkjur í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Þjóðminjasafn Íslands og fleiri, 2009: . .
  • Gísli Sigurðsson (2006). Seiður lands og sagna 4. bindi: Vestur undir jökul. Mál og mynd, Reykjavík. bls. 8–21.
  • Kristleifur Þorsteinsson; Þórður Kristleifsson bjó til prentunar (1944–1960). Úr byggðum Borgarfjarðar I-III. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.