Morðin á Sjöundá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Morðin á Sjöundá voru framin vorið 1802 þegar karl og kona voru myrt á bænum Sjöundá á Rauðasandi. Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu þá á hálfri jörðinni en á móti þeim Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir og höfðu þau flust þangað vorið 1801. Á bænum voru einnig þrjú börn Bjarna og Guðrúnar og fimm börn Jóns og Steinunnar.

Morðin[breyta | breyta frumkóða]

Fjallið Söðull myndar eystra horn Rauðasandsvíkur. Ekki er strandgengt um Sððul og er nauðsynlegt að klifra upp á sylluna sem þykir minna á söðul með hnakknefi, til að komast áfram til Skorar. Slóðinn hinum megin við hornið er mjög brattur svo að ekki er ráðlagt að fara það nema í þurrviðri, og einn af skondnari bæjarslóðum á Íslandi. Slóðarnir þar austur af til Barðastrandar eru enn brattari enda var í fyrstu talið að Jón Þorgrímsson hefði einfaldlega hrapað þar til bana og engrar frekari rannsóknar væri þörf.

Fljótlega eftir komu Jóns og Steinunnar byrjaði samdráttur hennar og Bjarna og mun samkomulag á heimilinu hafa verið afar slæmt um veturinn. 1. apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg í Skorarhlíðum, en þegar Guðrún andaðist snögglega 5. júní komst kvittur á kreik um að dauðsföllin hefðu vart verið eðlileg, enda vissi öll sveitin af samdrætti Bjarna og Steinunnar. Þegar komið var með lík Guðrúnar til greftrunar lét presturinn opna kistuna og skoða líkið en ekki sáust á því áverkar sem taldir voru gefa tilefni til rannsóknar.

Þann 25. september um haustið fannst svo lík Jóns rekið á Rauðasandi og var það mikið skaddað en á því sáust þó áverkar sem skoðunarmenn töldu af mannavöldum, auk þess sem það vakti athygli þeirra að engin beinbrot fundust á líkinu, sem þótti varla geta staðist ef Jón hefði hrapað úr Skorarhlíðum eins og Bjarni hafði haldið fram. Var Bjarni þá handtekinn og hafður í haldi í Haga en 7. nóvember var hann fluttur á þingstað í Sauðlauksdal og þangað var Steinunn einnig flutt til yfirheyrslu, þótt hún hefði enn ekki verið handtekin. Hún var þá þunguð. Við réttarhöldin játuðu Steinunn og Bjarni að hafa myrt maka sína. Voru málsatvik þau að Bjarni drap Jón með staf og vissi Steinunn af því, en Guðrúnu fyrirkomu þau í sameiningu, reyndu fyrst að gefa henni eitur en þegar það dugði ekki til kæfði Bjarni hana en Steinunn hélt höndum hennar á meðan.

Afdrif sakborninga[breyta | breyta frumkóða]

Glæpahjúin voru dæmd til lífláts, auk þess sem klípa átti Bjarna þrisvar með glóandi töngum á leið frá þeim stað þar sem afbrotin voru framin og til aftökustaðarins, auk þess sem höggva átti af honum hægri hönd. Sumarið 1803, eftir að Steinunn hafði alið barn sitt og Bjarni hafði sloppið úr haldi í Haga en náðst aftur, voru þau svo flutt til Reykjavíkur og höfð í gæslu í tukthúsinu á Arnarhóli á meðan málið fór fyrir Landsyfirrétt og síðan konung eins og aðrir dauðadómar. Í nóvember 1803 staðfesti konungur dauðadómana en sleppti Bjarna þó við pyntingarnar.

Þar með lauk þessari sögu þó ekki, því að ekkert gekk að finna böðul til verksins á Íslandi og haustið 1804 tókst Bjarna að strjúka úr fangelsinu. Hann hafði verið í járnum fram í ágúst það ár en þá sleppt úr þeim vegna fótameina. Ætlun hans var að komast til baka vestur í Barðastrandarsýslu og vonaðist hann til að einhver þar myndi rétta honum hjálparhönd. Bjarni var handsamaður í Borgarfirði tveimur vikum eftir að hann strauk og færður aftur í tugthúsið. Yfirvöld höfðu þá leitað til Danmerkur vegna böðulsvandræðanna og farið fram á að þau hjúin yrðu náðuð en að öðrum kosti yrði böðull sendur til landsins. Þess í stað bárust fyrirmæli um að senda þau til Noregs til aftöku en áður en til þess kæmi lést Steinunn í fangahúsinu 31. ágúst 1805 og er óljóst um dánarorsök hennar. Hún var dysjuð á Skólavörðuholti þar sem ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Árið 1915 voru bein hennar tekin upp og grafin í vígðri mold í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík.

Bjarni var aftur á móti færður utan til aftöku haustið 1805 og var farið með hann til Kristianssand í Noregi, þar sem hann var handarhöggvinn og að því búnu hálshöggvinn þann 4. október og líkami hans settur á hjól og steglu en höfuð og hönd á stjaka, áður en hann var huslaður á aftökustaðnum.

Bókmenntir[breyta | breyta frumkóða]

Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsögu um þessa atburði 1929 sem ber nafnið Svartfugl. Leikgerð verksins var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 1971.

Leikhópurinn Aldrei óstelandi setti upp leikverkið Sjöundá, sem byggt er að hluta á skáldsögunni Svartfugl, í Norðurpólnum í febrúar 2012.