Þorsteinn Egilsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorsteinn var Egilsson, Skalla-Grímssonar, Kveld-Úlfssonar hersis úr Noregi en Ásgerður hét móðir Þorsteins og var Bjarnardóttir.

Þorsteinn bjó að Borg á Mýrum. Hann var auðugur að fé og höfðingi mikill, vitur maður og hógvær og hófsmaður um alla hluti. Engi var hann afreksmaður um vöxt eða afl sem Egill faðir hans því að svo er sagt af fróðum mönnum að Egill hafi mestur kappi verið á Íslandi og hólmgöngumaður og mest ætlað af bóndasonum, fræðimaður var hann og mikill og manna vitrastur. Þorsteinn var og hið mesta afarmenni og vinsæll af allri alþýðu. Þorsteinn var vænn maður, hvítur á hár og eygur manna best.

Svo segja fróðir menn að margir í ætt Mýramanna, þeir sem frá Egli eru komnir, hafi verið menn vænstir en það sé þó mjög sundurgreinilegt því að sumir í þeirri ætt er kallað að ljótastir menn hafi verið. Í þeirri ætt hafa og verið margir atgervismenn um marga hluti sem var Kjartan Ólafsson pá og Víga-Barði og Skúli Þorsteinsson. Sumir voru og skáldmenn miklir í þeirri ætt, Björn Hítdælakappi, Einar prestur Skúlason, Snorri Sturluson og margir aðrir.

Þorsteinn átti Jófríði Gunnarsdóttur Hlífarsonar. Gunnar hefir best vígur verið og mestur fimleikamaður verið á Íslandi af búandmönnum, annar Gunnar að Hlíðarenda, þriðji Steinþór á Eyri.

Jófríður var átján vetra er Þorsteinn fékk hennar. Hún var ekkja. Hana hafði átt fyrr Þóroddur son Tungu-Odds og var þeirra dóttir Húngerður er þar fæddist upp að Borg með Þorsteini. Jófríður var skörungur mikill.

Þau Þorsteinn áttu margt barna en þó koma fá við þessa sögu. Skúli var elstur sona þeirra, annar Kollsveinn, þriðji Egill. Dóttir þeirra var Helga hin fagra, sem er lykilpersóna í Gunnlaugs sögu ormstungu.