Fara í innihald

Fokka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Barkskipið Alexander von Humboldt með fjögur framsegl, fokku (innst), innri- og ytri-klýfi og jagar (yst).

Fokka er þríhyrnt stagsegl sem er fest framan við fremstu siglu (fokkumastur eða stórsiglu) seglskútu á stag sem nær frá mastrinu að stefninu. Seglskip eru nánast alltaf með fokku ef þau eru með framsegl á annað borð. Fokkan gegnir mikilvægu hlutverki við að knýja skipið áfram og stýra vindstreymi yfir seglabúnaðinn fyrir aftan.

Venjulega er fokkan minni en sá þríhyrningur sem markast af mastrinu, staginu og stefninu, en fokka sem nær aftur fyrir mastrið er kölluð genúafokka eða einfaldlega genúa.

Á fjölmastra skipum með bugspjót eru framseglin venjulega fleiri en eitt og heitir þá aðeins það segl sem næst er framsiglunni fokka, en hin klýfir og jagar. Í þeim tilfellum er fokkan oft fest á bómu eða braut að neðan þannig að hún flytur sig sjálf til þegar skipið vendir.

Litlar einmastra slúppur eru oftast með eina aðalfokku og nokkrar til skiptanna fyrir mismunandi veður. Þá er minnsta fokkan stormsegl sem hefur þann tilgang að auka stöðugleika og hjálpa við að halda stefnu fremur en knýja bátinn áfram. Rúllufokka er sérstök tegund af fokku sem rúllast upp á stöng sem fest er við stagið en þá er hægt að stjórna því hversu stór hluti af seglinu stendur út af staginu.