Fara í innihald

Beiting (siglingar)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vending)
Skýringarmynd sem sýnir beitingu segla miðað við vindátt: (0) beint upp í vindinn svo seglin kelur, (1) beitivindur, (2)-(3) hliðarvindur, (4) bitahöfuðsbyr, (5) lens, (6) beggja skauta byr. Vinstra megin er beitt á stjórnborða og hægra megin á bakborða.

Beiting í siglingum lýsir því hvernig seglum er hagað eftir vindi þegar siglt er á seglskútum. Kulborð(i) (eða vindborði) er sú hlið bátsins sem snýr að vindi og hléborð(i) (eða skjólborði) sú sem snýr undan. Beitt er á stjórnborða þegar vindur kemur á stjórnborða (þegar stjórnborði er kulborðs) og öfugt.

Beitivindur

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar siglt er skáhallt á móti vindi er talað um að sigla beitivind, beita upp í vindinn, bíta eða flaska. Þá er bóman eða ráin höfð eins samsíða bátnum og hægt er. Ef beitt er of stíft upp í vindinn fer vindurinn úr seglunum og þau blakta (þau kelur). Þá er talað um að báturinn sé „í járnum“ þar sem ekki er hægt að stýra honum að gagni. Vissar gerðir seglskipa (s.s. skonnorta og slúppa) eiga betra með að sigla beitivind en aðrar. Erfiðara er að sigla beitivind með þverseglum en langseglum.

Þegar siglt er beint móti vindi þarf skipið að krusa, krussa eða slaga þannig að fyrst er beitt á eitt borð, síðan á hitt og svo koll af kolli. Vindurinn er yfirleitt aldrei stöðugur úr einni átt, heldur sveiflast nokkrar gráður með vissu millibili og hægt er að nýta sér það til að auka hraða að marki. Við land er líka hægt að nýta sér þá staðreynd að vindáttin sveigist til við landslagsþætti eins og höfða, víkur og nes. Hver vending dregur úr ferð skipsins og því reynir skipstjóri að lágmarka þann fjölda vendinga sem þarf til að ná settu marki.

Talað er um að beita hátt eða stíft þegar reynt er að sigla eins mikið móti vindi og skipið ræður við án þess að seglin kali, en gefa meira eftir eða láta meira undan þegar vindurinn er tekinn meira á hlið.

Hliðarvindur

[breyta | breyta frumkóða]

Siglt er hliðarvind eða hliðarkylju þegar vindurinn kemur á bátinn á hlið. Þá er bóman höfð í um 30° horni miðað við bátinn.

Bitahöfuðsbyr

Bitahöfuðsbyr er þegar siglt er skáhallt undan vindi.

Lens eða undanhald er þegar vindurinn kemur aftan á bátinn. Þegar siglt er lens er bóman höfð í 90° horni miðað við bátinn. Beggja skauta byr er þegar vindur kemur beint aftan á bátinn. Á bátum með langsegl er þá hægt að beita þeim sitt á hvað þannig að t.d. framsegl og stórsegl standa út af sínu hvoru borðinu og bæði seglin fá jafnmikinn vind.

Stagvending.

Að snúa bátnum þannig að vindurinn komi á aðra hlið bátsins en áður er kallað að venda. Stagvending er þegar vent er upp í vindinn en kúvending þegar vent er undan vindi. Stagvending er auðveldari á bátum með langsegl þar sem staða bómunnar breytist lítið en kúvending er auðveldari á bátum með þversegl.