Fara í innihald

Finnsk-úgrísk tungumál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Finnsk-úgríska)
Finnsk-úgrísk tungumál
Málsvæði Austur-, Mið- og Norður-Evrópa, Norður-Asía
Ætt Úralskt
 Finnsk-úgrískt
Undirflokkar Finnsk tungumál
Úgrísk tungumál
Tungumálakóðar
ISO 639-2 fiu
ISO 639-5 fiu
Finnsk-úgrísk tungumál

Finnsk-úgrísk tungumál eru tungumálaætt sem tilheyrir úrölskum tungumálum og skiptist hún í tvo meginhópa, finnsk tungumál og úgrísk tungumál. Þau sem eru af finnskum stofni eru töluð á svæðinu á milli Norður-Noregs og Hvítahafs, í Finnlandi, í Eistlandi og í vissum hlutum Rússlands. Stærsta tungumálið af finnskum stofni er finnska, en hana tala 5,5 milljónir manna í Finnlandi, Svíþjóð, Rússlandi og Bandaríkjunum. Eistnesku talar um 1 milljón manna, aðallega í Eistlandi. Um 25.000 manns tala samísk mál í Norður-Skandinavíu. Helsta tungumálið af úgrískum stofni er ungverska, en hana tala um 11 milljónir manna í Ungverjalandi og aðrar 3 milljónir á nágrannasvæðum. Tvö önnur úgrísk tungumál eru hantí, með 13.000 mælendur og mansí með 3000 mælendur. Bæði síðarnefndu málin eru töluð austan Úralfjalla á svæðum við fljótið Ob.

Þau mál sem þá eru eftir innan finnsk-úgríska málahópsins eru töluð í Rússlandi. Kirjálska, vepsíska, ingríska, líflenska og votíska eru töluð frá Kólaskaga í norðri og suður eftir, í átt að Rígaflóa. Af fyrrnefndum málum er kirjálska útbreiddasta málið með yfir 100.000 mælendur. Vepsísku tala um 2000 manns. Mjög fáir tala ingrísku, líflensku og votísku og eru þau líkast til deyjandi tungumál.

Auk þessa eru mál eins og mordviníska, mari, údmúrtíska og komi töluð í kringum miðbik árinnar Volgu í Rússlandi. Mordviníska er þar útbreiddasta málið með um 800.000 mælendur, mari um 600.000 mælendur, údmúrtíska 500.000 mælendur og komi um 250.000 mælendur.

  Þessi tungumálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.