Ob

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

66°50′N 69°00′A / 66.833°N 69.000°A / 66.833; 69.000 Ob er fljót í Rússlandi, nánar tiltekið í Vestur-Síberíu. Áin er um 3700 kílómetra löng, en sé Irtysh fljótið, sem rennur í Ob, mælt með er lengdin frá upptökum til ósa um 5600 kílómetrar. Þannig mælt er fljótið það fjórða lengsta í heimi. Efsti hluti Ob rennur til norðvesturs í Altaifjöllum, síðan í norðaustur framhjá borgunum Barnaul og Novosibirsk og sameinast ánni Tom. Miðhluti Ob rennur í norðvestur um mýrarskóga Síberíu og þar falla í það árnar Chulym, Ket, og Irtysh. Neðst greinist flótið í tvær kvíslar, Stóra Ob og Litla Ob og rennur þá norður og austur út í Obflóa, sem gengur suður úr Norður-Íshafinu. Flóinn er um 800 kílómetra langur en ekki nema um 60 kílómetrar á breidd. Breidd fljótsins er vaxandi eftir því sem neðar dregur og nálægt ósum er það um 40 kílómetra breitt. Dalurinn, sem miðhluti fljótsins rennur eftir, fer á kaf í flóðum á hverju ári, vegna þess að leysingar eru fyrr á ferð suður í Altaifjöllum heldur en þarna 200 kílómetrum norðar. Fljótið er frosið að mestu í 5 til 6 mánuði á hverju ári, en þrátt fyrir það er það mikilvæg samgönguæð. Helstu hafnarborgir fljótsins eru Novosibirsk, Barnaul, Kamen-na-Obi og Mogochin. Stórt vatnsaflsorkuver er í Novosibirsk. Mestu olíu- og gaslindir Rússlands eru meðfram miðhluta fljótsins. Mikil mengun neðst í fljótinu hefur alveg eytt miklum fiskistofnum, sem áður voru veiddir úr ánni í miklum mæli.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist