Ferdinand Cohn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lífvísindi
19. öld
Nafn: Ferdinand Cohn
Fæddur: 24. janúar 1828 í Breslau í Neðri-Slésíu (nú Wrocław í Póllandi)
Látinn 25. júní 1898 á sama stað
Svið: Örverufræði
Helstu
viðfangsefni:
Bakteríur, hitaþolni, dvalargró
Markverðar
uppgötvanir:
Flokkun baktería eftir formgerð, Myndun hitaþolinna dvalargróa
Helstu ritverk: Zur Naturgeschichte des Protococcus Pluvialis Bonn, 1851, Die Menschheit und die Pflanzenwelt Breslau, 1851, Der Haushalt der Pflanzen Leipzig, 1854, Untersuchungen über die Entwicklungsgeschichte der Mikroskopischen Algen und Pilze Bonn, 1854, Neue Untersuchungen über Bakterien Bonn, 1872-1875, Die Pflanze Leipzig, 1882
Alma mater: Humboldt-háskólinn í Berlín 1847
Helstu
vinnustaðir:
Háskólinn í Breslau
Verðlaun og
nafnbætur:
Leeuwenhoek-orðan 1885, gullorða Linnean Society 1895

Ferdinand Julius Cohn (fæddur 24. janúar 1828, dáinn 25. júní 1898) var þýskur grasafræðingur og örverufræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað hitaþolin dvalargró, en sumar bakteríur, til dæmis Bacillus og Clostridium tegundir, mynda slík gró til að verjast óhagstæðum umhverfisaðstæðum á borð við hátt hitastig eða næringarefnaskort. Hann var einnig meðal þeirra sem fyrst reyndu að flokka bakteríur á kerfisbundinn hátt.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Cohn fæddist í gyðingahverfinu í Breslau (nú Wrocław í Póllandi) í prússneska héraðinu Neðri-Slésíu. Hann bjó í Breslau mestan hluta ævinnar.

Skólaganga[breyta | breyta frumkóða]

Ferdinand litli Cohn þótti undrabarn. Hann var læs tveggja ára, hóf barnaskólagöngu fjögurra ára og fór í menntaskóla sjö ára. Faðir hans, Issak Cohn, var auðugur kaupmaður og gat því kostað þessa óvenju snemmbæru skólagöngu. Í menntaskóla fór að bera á verulegri heyrnarskerðingu sem hamlaði námi hans að einhverju leyti, en þrátt það hóf hann nám við háskólann í Breslau 1842, aðeins fjórtán ára gamall. Hann lagði stund á heimspeki og grasafræði, en þar sem hann var gyðingur var honum meinað að taka lokapróf. Hann fór því til Berlínar 1846 þar sem hann lauk doktorsnámi tveimur árum síðar, aðeins nítján ára. Meðal leiðbeinenda hans í Berlín var Christian Ehrenberg og kveikti hann áhuga Cohns á hinum „smásæju dýrum“, en svo kölluðust örverur á þessum tíma.

Aftur til Breslau[breyta | breyta frumkóða]

Um það leyti sem Cohn var að ljúka doktorsnámi sínu geisuðu óeirðir í Berlín, en þetta var byltingarárið 1848, og mun hann hafa tekið einhvern þátt í þeim.[1] Hvort sem það var vegna stjórnmálaskoðana hans, gyðingdóms eða af öðrum ástæðum, þá hlaut hann ekki háskólakennarastöðu í Berlín og flutti því aftur heim til Breslau 1849. Hann þáði kennarastöðu við háskólann þar og gegndi henni það sem eftir var, varð dósent 1859 og prófessor 1872. Hann stofnaði rannsóknastofnun í plöntulífeðlisfræði við skólann og stóð fyrir útgáfu ritrýnda tímaritsins Beitrage zur Biologie der Pflanzen.

Cohn var hlédrægur maður svo eftir var tekið. Hann kvæntist fremur seint á ævinni (1867) og var kona hans Pauline Reichenbach.

Fræðastörf[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi ferils síns fékkst Cohn meðal annars við rannsóknir á einfrumu þörungum. Hugo von Mohl hafði þá nýverið lýst umfrymi plöntufrumna, en Cohn áttaði sig á að margt var líkt með umfryminu og hinu „formlausa lífsefni“ frumdýra sem Félix Dujardin hafði nefnt sarcode. Hann dró þá ályktun að umfrymið innihéldi alla meginþætti lífsins og vakti þessi kenning hans töluverða athygli. Í tengslum við þörungarannsóknir sínar komst Cohn að þeirri niðurstöðu að bakteríuna „Vibronia“ ætti að flokka með plöntum vegna ýmissa atriða sem lík voru með henni og þörungum. Bakteríur höfðu fram til þessa verið álitnar dýr, einkum vegna þess að sumar þeirra eru kvikar og geta hreyft sig úr stað með aðstoð svipna, en vegna niðurstöðu Cohns tóku margir að flokka bakteríur sem plöntur.

Um miðja 19. öld átti sér stað mikil umræða um uppruna lífsins og mögulega sjálfkviknun baktería. Jafnvel eftir að Pasteur hafði birt hinar frægu niðurstöður sínar úr svanahálsflöskutilraunum sínum 1859 voru ekki allir sannfærðir um að sjálfkviknun gæti ekki átt sér stað ef réttar aðstæður væru fyrir hendi. Meðal þeirra var Henry Charlton Bastian og birti hann niðurstöður sem virtust sýna að líf gat kviknað í seyði úr næpum og osti sem soðið hafði verið í lokuðum flöskum í 10 mínútur. Cohn endurtók tilraunir Bastians, en gekk lengra og einangraði og rannsakaði bakteríurnar sem uxu upp í seyðinu, en þær reyndust vera eingöngu af formgerð ættkvíslarinnar Bacillus. Hann tók eftir því að við vissar aðstæður tóku frumurnar að gildna í annan endann og mynda þar nokkurs konar korn sem endurvarpaði sterklega ljósi smásjárlampans. Hann setti fram þá tilgátu að kornin væru sambærileg við gró sveppa og plantna og gerði tilraunir sem staðfestu hana og sýndu að gróin voru að miklum mun hitaþolnari en fullvaxin bakterían. Cohn sýndi því fram á að sjálfkviknun átti sér ekki stað í seyði Bastians, heldur gátu sumar þeirra baktería sem fyrir voru í seyðinu myndað hitaþolin dvalargró sem þoldu suðuna og spíruðu þegar seyðið kólnaði að nýju.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Taylor, G. Drews (2000). „The roots of microbiology and the influence of Ferdinand Cohn on microbiology of the 19th century“. FEMS Microbiology Reviews. 24: 225–249. doi:10.1111/j.1574-6976.2000.tb00540.x.