Louis Pasteur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lífvísindi
19. öld
Nafn: Louis Pasteur
Fæddur: 27. desember 1822 í Dole í Júrahéraði í Frakklandi
Látinn 28. september 1895 í París í Frakklandi
Svið: Örverufræði, efnafræði
Helstu
viðfangsefni:
Gerjun víns. Efnafræði og örverufræði gerjunar. Bakteríur og sýklar.
Markverðar
uppgötvanir:
Endanleg afsönnun sjálfkviknunarkenningarinnar. Gerilsneyðing. Bóluefni gegn hundaæði.
Helstu
vinnustaðir:
Háskólinn í Strasbourg í Frakklandi

Louis Pasteur (27. desember 182228. september 1895) var franskur efnafræðingur og prófessor við miðstöð öl- og vínaframleiðenda. Hann hafði mikil áhrif á matvælafræði og lagði grunninn að því sem við köllum í dag gerilsneyðingu, en á flestum erlendum tungumálum útleggst það sem pasteurisation. Pasteur gerði einnig mikilvægar rannsóknir á sviði örverufræða í tengslum við sjúkdóma sem þær valda, og hafði sterkar skoðanir um sjálfkviknun lífs, sem var mikið hitamál á þeim tíma. Þá þróaði hann einnig bóluefni gegn hundaæði, sem var sennilega hans mesta afrek. Þar að auki uppgötvaði hann að örverur berast með lofti og sú uppgötvun átti eftir að hafa afgerðandi áhrif á rannsóknir Josephs Lister.

Æskuár og nám[breyta | breyta frumkóða]

Louis Pasteur fæddist árið 27. desember 1822 í Dole, Frakklandi.[1] Hann var alinn upp við mikla ættjarðarást þar sem faðir hans hafði gegnt stöðu liðsforingja í her Napoleons á Pýreneaskaga. Fljótlega eftir fæðingu Pasteur fluttist fjölskylda hans til Arbois, þar sem hann gekk í grunnskóla.[2] Kennara Pasteur fannst ekki mikið til hans koma en hann sagði meðal annars að hann væri óefnilegasti nemandinn í bekknum.[3] Árið 1848 hélt Pasteur samt sem áður til Parísar í skóla, að loknu grunnnámi. Hann hætti hins vegar fljótlega í þeim skóla sökum heimþrár. Þá flutti hann sig yfir í skóla nær heimabæ sínum, Konunglega menntaskólann í Besancon, þar sem hann hlaut fyrst titilinn Bachelor of Letters og síðar Bachelor of Science en hann hlaut aðeins miðlungseinkunn í efnafræði.[4] Hann hélt áfram í efnafræðinámi og lauk doktorsprófi.[5] Árið 1848 bauðst Pasteur síðan að gerast prófessor við háskólann í Strassburg. Þar kynntist hann dóttur háskólarektorsins, Marie Laurent, og þau giftu sig í maí 1849.[6]

Grunnurinn lagður að gerilsneyðingu[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1845, þegar Pasteur var 32 ára, var hann gerður að prófessor í efnafræði og forseti vísindadeilar við háskólann í Lille. Þar gerði hann tilraunir með bruggframleiðslu en þá var það hulin ráðgáta hvers vegna bjór í sumum kerum varð gæðaminni en annar, þrátt fyrir sömu aðferðir við bruggunina. Pasteur komst að því að í bjórkerum með góðum bjór voru gerlarnir hnöttóttir. Í kerunum þar sem lakari bjórinn var voru gerlarnir beinir og langir.[7] Í lakari kerunum höfðu örsmáir gerlar gerjað bjórinn, til þess að koma í veg fyrir þessa gerjun datt Pasteur í hug að hita vökvann upp í 60 °C. Þar með varð til hin upprunalega gerilsneyðing eða „pasteurisation“.[8]

Pasteur og sjálfkviknun lífs[breyta | breyta frumkóða]

Árin 1860 – 1861 skrifaði Pasteur í tímarit Vísindaakademíunnar fjórar greinar um sjálfkviknun. Hann skrifaði einnig eina grein sem birt var í öðru tímariti árið 1861. Hann hlaut verðlaun árið 1862 fyrir síðastnefndu greinina en Vísindaakademían hafði lofað þeim verðlaunum sem tækist best til með að varpa ljósi á spurninguna um sjálfkviknun lífs, með vel útfærðum tilraunum.[9]

Tilraunir Pasteurs voru ákaflega einfaldar, en líka mjög vel framkvæmdar og niðurstöðurnar stóðu ekki á sér. Frægustu tilraunir hans voru tilraunir með svonefndar svanahálsflöskur. Tilraunirnar voru framkvæmdar þannig að næringarlausn var sett í flöskur, soðin og þannig dauðhreinsuð. Stúturinn á flöskunni er síðan hitaður vel og teygt úr honum út í mjóan S-laga háls.[10] Með þessu var tryggt að loft kæmist að lausninni, en allar bakteríur og örverur falla til botns neðst í hálsinum. Enginn örverugróður myndaðist í lausnunum og af því mátti draga þá ályktun að líf kviknaði ekki að sjálfu sér.[11]

Pasteur komst reyndar að því, líkt og Heinrich Schröder hafði áður gert, að í sumum lausnum dugði ekki langvarandi suða við 100 °C. Eins og Schröder komst hann að því að þetta átti meðal annars við um mjólk en hann sýndi þó fram á að suða við 110 °C undir þrýstingi dygði til þess að drepa í henni allar örverur.[12]

Áhrif á læknavísindi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1870 ríkti styrjöld milli Frakka og Prússa. Mjög margir létu lífið í henni, flestir vegna blóðeitrunar. Pasteur birti árið 1865 ritgerð um mjólkurgerjun. Englendingurinn og læknirinn Joseph Lister las þessa ritgerð. Hann hafði lengi gert sér grein fyrir því að hreinlæti væri nauðsynlegt á skurðstofunni en nú áttaði hann sig á því að það væri ekki nóg, þar sem fullt af bakteríum væru í loftinu. Árið 1874 skrifaði Lister þessi Pasteur bréf og sagði honum frá þeim árangri sem hann hafði náð með því að sótthreinsa áhöld og gæta ýtrasta hreinlætis. Þar nefndi hann til að mynda tölur sem sýndu fram á að dauðsföll af völdum blóðeitrunar höfðu snarminnkað á skurðstofu hans. Ef fleiri læknar hefðu kynnt sér aðferðir Listers hefðu talsvert færri týnt lífinu í styrjöldinni.[13]

Pasteur hélt nú á fund í franska læknaakademíinu með þetta bréf. Þar var ekki mikið mark tekið á honum þrátt fyrir eldheitan málflutning hans. Það liðu mörg ár þar til skoðanir þeirra Pasteurs og Listers voru viðurkenndar.[14]

Bólusetningar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1880 var Pasteur fenginn til þess að rannsaka kjúklingakóleru. Honum tókst að lækna hana á tiltölulega skömmum tíma. Það gerði hann með einangrun sýkilsins, ræktun lítils magns af sýklum og bólusetja síðan fuglana með sýklinum. Þannig gerði hann kjúklingana ónæma fyrir kjúklingakóleru. Hann er talinn hafa tryggt Frökkum meiri ágóða með björgun alifuglaræktunar heldur en sem samsvaraði þeirri upphæð sem þeir þurftu að greiða Þjóðverjum í stríðsbætur eftir 1870. Sömu aðferðum beitti hann á miltisbrand með sama góða árangrinum.[15]

Nú sneri Pasteur sér að hundaæði. Það reyndist alls ekki hættulaust fyrir hann sjálfan þar sem hann var margsinnis bitinn af óðum hundum. Hann var líka svo ákafur í að finna lækningu gegn sjúkdómnum að einu sinni saug hann munnvatn úr óðum hundi upp í sig í gegnum pípu. Að lokum fann hann síðan blóðvökva sem læknaði sjúkdóminn með því að sprauta honum inn í æðar nýbitins hunds. Nú var spurningin bara hvort það sama virkaði á menn. Tækifærið kom þegar óður hundur hafði bitið ungan strák, Joseph Meister. Pasteur ákvað þá að prófa á drengnum sömu lækningu og hafði virkað svo vel á hundana. Þetta olli honum miklum sálarkvölum þar sem hann vissi ekki hvaða áhrif þetta myndi hafa á drenginn og hann var mjög stressaður yfir að eitthvað myndi fara úrskeiðis.[16] Hann bólusetti drenginn tólf sinnum á tíu dögum. Þetta virkaði og drengurinn náði fullri heilsu.[17]

Endalok[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega eftir þetta afrek hófst söfnun til byggingar Pasteurrannsóknarstofnunnar í París. Söfnunin tók ekki langan tíma og mikið af fólkinu sem kom að byggingu stofnunarinnar ýmist gaf vinnu sína eða gerði það fyrir lítið. Pasteurstofnunin var fullgerð þann 14. nóvember 1888 og var þá strax tekin í notkun.[18] Síðar voru byggðar Pasteurstofnanir í mörgun öðrum löndum. Fyrst um sinn sáu þessar stofnanir aðeins um rannsóknir á sviði hundaæðis en síðan fóru þær að rannsaka ýmsa smitsjúkdóma.[19] Louis Pasteur féll frá þann 28. september 1895, þá tæplega 73 ára að aldri.[20]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir 2002.
  2. Afburðamenn og örlagavaldar 1972: 188.
  3. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 144.
  4. Afburðamenn og örlagavaldar 1972: 188-189.
  5. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 144.
  6. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 145.
  7. Afburðamenn og örlagavaldar 1972: 191.
  8. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 146.
  9. Guðmundur Eggertsson 2008: 33.
  10. Guðmundur Eggertsson 2008: 35.
  11. Einar Árnason 2000.
  12. Guðmundur Eggertsson 2008: 35.
  13. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 148.
  14. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 148-149.
  15. Afburðamenn og örlagavaldar 1972: 192.
  16. Afburðamenn og örlagavaldar 1972: 194.
  17. Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir 2002.
  18. Geir Hallgrímsson o.fl. 1947: 151-152.
  19. Lifandi vísindi 2000.
  20. Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir 2002.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Afburðamenn og örlagavaldar. Æviþættir 20 mikilmenna sögunnar. 1972. Bárður Jakobsson, Ragnar Jóhannesson og Sigurlína Davíðsdóttir þýddu. Reykjavík: Ægisútgáfan.
  • Einar Árnason. „Hver var fyrsta lífveran á jörðinni?“. Vísindavefurinn 9.3.2000. http://visindavefur.is/?id=204. (Skoðað 13.4.2011).
  • Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var Louis Pasteur og hvað gerði hann merkilegt?“. Vísindavefurinn 29.10.2002. http://visindavefur.is/?id=2823. (Skoðað 13.4.2011).
  • Geir Hallgrímsson, Gunnar Helgason og Jón P. Emils. 1947. Vísindamenn allra alda. Frásagnir um tuttugu og einn vísindamann. Reykjavík: Draupnisútgáfan.
  • Guðmundur Eggertsson. 2008. Leitin að uppruna lífs. Reykjavík: Bjartur.
  • Lifandi vísindi. 2000. „Louis Pasteur uppgötvar heim gerla“. 14: 59-62.