Geldingadalir
Geldingadalir eru dalir eða dældir á Reykjanesskaga austan undir Fagradalsfjalli. Dalirnir voru grunnir með breiðri grasflöt fyrir jarðhræringar á svæðinu. Að kvöldi 19. mars árið 2021 hófst eldgos úr stuttri sprungu í dölunum, fyrsta eldgosið á Reykjanesskaga í 800 ár. Dalirnir fylltust af hrauni að miklu leyti.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Í Geldingadölum var fyrir eldgos þúst eða dys á flötinni og er sagt að þar sé Ísólfur á Skála grafinn, en hann bjó á Ísólfsskála í fornöld. Í örnefnaskrá Hrauns í Grindavík segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum.[1] Í Geldingadölum hélt Ísólfur geldingum sínum og öðru geldfé[2][3] [4] Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það best.[5] Athugun Minjastofnunar leiddi í ljós að enginn er grafinn í dysinni sjálfri, enda um náttúrusmíð að ræða, svo líklegt er að hann hafi verið grafinn þar skammt frá.[6] Þess ber að geta að Ísólfur er ekki nefndur í Landnámu og Ísólfsskáli ekki heldur. Sagan um hann er fengin úr örnefnaskrám. Geldingadalir draga nafn sitt af þeirri tilhögun sauðfjárbænda að halda geldfé aðskildu frá ám með lömb vegna mjólkurinnar. Ærnar voru mjólkaðar við fráfærur og þá var mikilvægt að eyða ekki tíma og orku í geldfé því það mjólkar ekki. Í Jónsbók var ákvæði um að geldur peningur skyldi vera farinn úr heimahögum þegar tveir mánuðir væru liðnir af sumri og ekki mátti reka fé aftur heim fyrir tvímánuð (síðustu viku í ágúst) en í réttarbót Eiríks konungs Magnússonar frá 1294 var því breytt þannig að hreppsstjórnarmenn ákváðu hvenær fé yrði rekið á fjall og heim eftir því sem hentaði. [7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Víkurfréttir (apríl 2002). „Suðurnes - Útivistarperla“. Víkurfréttir. Sótt mars 2021.
- ↑ Loftur Jónsson (október 2019). „Hraun“ (PDF). ÖRNEFNASTOFNUN. Sótt mars 2021. „Þar norður af eru Geldingadalir (102). Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.“
- ↑ RUV (sept 2010). „Óvæntur sauðburður“. RUV. Sótt mars 2021. „«Bóndinn á Finnbogastöðum segist hafa sett ána Tinnu út í vor ásamt öðru geldfé en reyndar hafi hrútum verið sleppt út um sama leyti. Tinna var augljóslega ekki dauð úr öllum æðum og bera lömbin tvö því glöggt vitni. »“
- ↑ „Af hverju kallast Fimmvörðuháls þessu nafni?“. Vísindavefurinn. Sótt 24. mars 2021.
- ↑ FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík (mars 2021). „Geldingadalur: Grindavík – álagablettir og þjóðsögur“. FERLIR. Sótt mars 2021. „«Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt.»“
- ↑ „Engin ummerki um dys í Geldingadölum“. RÚV.
- ↑ Jónas Jónsson, Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 12, Skrudda, 2013