Dimítríj 1.
Falski Dimítríj 1. (rússneska: Лжедмитрий, Lsjedmitrij; d. 17. maí 1606) var Rússakeisari frá 21. júlí 1605 til dauðadags. Hann var einn af þremur mönnum sem þóttust vera yngsti sonur Ívans grimma, Dimítríj krónprins, sem átti að hafa sloppið eftir morðtilraun 1591. Hann kom fyrst fram hjá Job patríarka í Moskvu en Boris Godúnov skipaði svo fyrir að hann skyldi tekinn höndum og yfirheyrður. Þá flúði hann til Litháen. Nokkrir pólskir aðalsmenn ákváðu þá að styðja hann gegn Boris. Í mars 1604 veitti Sigmundur 3. honum viðtöku í Kraká en lofaði honum ekki beinum stuðningi. Hann tók upp kaþólska trú til að tryggja sér stuðning valdamikilla jesúíta og fékk sendimann páfa, Rangoni, til að styðja kröfu sína.
1604 kom Dimítríj sér upp her með hermönnum nokkurra stuðningsmanna sinna innan Pólsk-litháíska samveldisins og óvinir Godúnovs bættust í lið hans, þar á meðal kósakkar úr suðri. Þeim lenti tvisvar saman við her keisarans og höfðu sigur í fyrra skiptið en biðu afgerandi ósigur í seinna skiptið. Það sem bjargaði málstað Dimítríjs í það skiptið voru fréttirnar um lát Boriss (13. apríl 1605). Her keisarans gekk þá í lið með Dimítríj og hann náði völdum af hinum nýkrýnda keisara Fjodor 2. 20. júní. Job patríarki í Moskvu neitaði að viðurkenna hann sem keisara og var sendur í útlegð.
Utanríkisstefna Dimítríjs fólst í bandalagi við Pólsk-litháíska samveldið og páfann í Róm. 8. maí 1606 giftist hann hinni pólsku Marynu Mniszech sem var kaþólsk og gekk ekki í réttrúnaðarkirkjuna í tilefni af giftingunni eins og hefð var fyrir. Við þetta reiddist kirkjan og stór hluti bojaranna einnig sem fylktu sér þá bak við Vasilíj Sjúiskíj.
17. maí 1606, tveimur vikum eftir brúðkaupið, réðust samsærismenn inn í Kreml. Dimítríj reyndi að flýja út um glugga en fótbrotnaði við fallið. Einn af samsærismönnunum skaut hann til bana þar sem hann lá. Lík hans var brennt og öskunni að sögn skotið úr fallbyssu í átt að Póllandi.
Fyrirrennari: Fjodor 2. |
|
Eftirmaður: Vasilíj Sjúiskíj |