Blöðruselur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cystophora)
Blöðruselur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Undirættbálkur: Hreifadýr (Pinnipedia)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Cystophora
Nilsson, 1820
Tegund:
C. christata

Tvínefni
Cystophora christata
(Erxleben, 1777)

Blöðruselur (fræðiheiti: Cystophora christata en einnig Cystophora cristata) er íshafsselur í Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi frá Svalbarða í austri að St. Lawrence-flóa í Kanada í vestri.

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Blöðruselur álíka stór og útselur. Fullvaxnir brimlar eru 2,5 til 3 metrar á lengd og eru 300 til 400 kg á þyngd, fullvaxnar urtur eru minni, 2 til 2,4 metrar á lengd og vega 160 til 230 kg. Feldurinn er grár á lit með dekkri óreglulegum flekkjum en höfuðið er mjög dökkt.

Það sem einkum einkennir selinn og gefur honum nafn er að húðin á höfði brimlana, frá nösum og upp á koll, er skinnpoki sem þeir geta blásið upp eins og blöðru. Blaðran tvöfaldar höfuðstærðina þegar hún er uppblásin. Annars hangir hún eins og hetta fram yfir snjáldrið (enda er blöðruselur nefndur hettuselur á mörgum málum). Brimlarnir fá þessa blöðru um 4 ára aldur. Þeir geta einnig fyllt skinnblöðruna til hálfs og lokað annarri nösinni og blásið út rauðri himnu með hinni og stendur þá rauð blaðra framan úr þeim. Blöðruselir eru mun árásargjarnari en aðrir selir og brimlarnir blása upp blöðrurnar þegar þeir þurfa að verja sig og þegar þeir keppa við aðra brimla á fengitímanum.

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Útbreiðsla blöðrusels. Blái liturinn sýnir kæpingarsvæði og rauði megin útbreiðslusvæði á öðrum tímum árs.

Blöðruselurinn er eindreginn úthafsselur og fer ekki upp á land nema að hann sé veikur. Hann kæpir á fjórum stöðum og er talað um fjóra stofna í því sambandi en óvíst er hvort stofnarnir blandast:

Áætlaður fjöldi dýra er samanlagt um 650 000, þar af 250 000 í Jan Mayen-stofninum og 400 000 við strendur Kanada og Grænlands. Blöðruselir fara mjög víða og hafa fundist allt vestur við Alaska og suður við Kanaríeyja.

Æti og lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Teikning af brimli og kóp

Fæða blöðrusela er fiskmeti svo sem þorskur, karfi og rækjur, steinbítur og smokkfiskur. Þeir kafa eftir æti allt niður á 600 metra dýpi.

Urtan kæpir einum kópi á hafís í mars, kópurinn er á spena í tæplega viku og verður síðan að sjá um sig sjálfur. Við fæðingu er kópurinn um 90 til 110 cm á lengd og vegur um 20 til 30 kg. Á þeim stutta tíma sem hann er á spena tvöfaldast þyngd hans, enda er fitan í mjólkinni um 60-70%. Blöðruselurinn er einrænn og safnast saman við kæpingu en ekki fyrir í stórum hópum eins og vöðuselurinn. Blöðruselsurturnar halda sig í hæfilegri fjarlægð frá hver annarri og hafa um 50 metra á milli. Brimlarnir halda sig í nágrenninu og reyna að hrekja hvern annan a burt. Nánast um leið og urtan hefur vanið kópinn af spena hafa fullorðnu selirnir mök og reyna brimlarnir að ná í eins margar urtur og þeir geta.

Selirnir fara úr hárum í júní og byrjun ágúst og halda sig fleiri saman á ísnum á meðan á því stendur. Á sumrin og á veturna milli þess að þeir fara úr hárum og kæpa fara þeir mjög víða í ætisleit.

Urturnar verða kynþroska 3 til 6 ára en brimlarnir ekki fyrr en við 5 til 7. Blöðruselirnir verða 30 til 35 ára gamlir.

Ísbirnir, hákarlar og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn.

Veiði og nyt[breyta | breyta frumkóða]

Síðustu tvær aldir hefur mikið kapp verið lagt á veiðar á blöðrusel einkum vegna skinna. Við fæðingu hefur kópurinn blágráan feld og er nefndur „bláselur - blueback“ af veiðimönnum. Einkum voru það Norðmenn og Kanadamenn sem stunduðu veiðar á blöðrusel í stórum stíl og þá einkum á „blásel“. Innflutningur á skinnum og skinnavörum af blöðruselskópum hefur verið bönnuð til Bandaríkjanna síðan 1972 og var bannað tímabundið af ESB 1983 (fleiri lönd innan ESB viðhalda enn banninu) og hefur það leitt til að veiðarnar hafa dregist mikið saman.

Blöðruselur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Blöðruselurinn er algengur við Ísland en hann eru mikil úthafstegund og sést oftast langt frá landi. Mest verður vart við hann fyrir Norðurlandi og heldur sig þar lengur en annars staðar. Á árum 1992-1993 voru gerðar rannsóknir á flakki blöðrusels með því að setja senditæki fyrir gervihnetti á seli á íssvæðinu við Jan Mayen og kom þá meðal annars í ljós að er þeir eru mun algengari á Íslandsmiðum en talið hefur verið og fara reglulega allt suður að Skotlandi.[1]

Blöðruselir eru óvinsælir meðal sjómanna við Ísland og kvarta þeir meðal annars yfir því að þeir éti fisk úr netum og línu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Polar Biology, Volume 16, Number 3 / March, 1996

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur (2004): Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. ISBN 9979-2-1721-9
  • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. Johns Hopkins University Press, 1999 ISBN 0-8018-5789-9

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]