Fara í innihald

Birgitta Jónsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Birgitta Jónsdóttir (BirgJ)

Birgitta Jónsdóttir

Fæðingardagur: 17. apríl 1967 (1967-04-17) (57 ára)
Fæðingarstaður: Reykjavík
12. þingmaður Suðvesturkjördæmis
Flokkur: Merki Pírata Píratar
Nefndir: stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins
Þingsetutímabil
2009-2013 í Rvk. s. fyrir Hreyfinguna
2013-2016 í Suðvest. fyrir Pírata
2016-2017 í Rvk n. fyrir Pírata
= stjórnarsinni
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða

Birgitta Jónsdóttir (fædd 17. apríl 1967) er íslensk stjórnmálakona og fyrrum þingmaður Pírata. Birgitta varð mjög virk víða í grasrótarfélögum sem spruttu upp í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Hún var alþingismaður Borgarahreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar 2009-2013 og frá 2013. Birgitta tók þátt í að stofna Borgarahreyfinguna og sat í stjórn hennar í aðdraganda kosninga 2009, hún var jafnframt einn af stofnendum Samstöðu, bandalags grasrótarhópa sem var undanfari Borgarahreyfingarinnar.

Birgitta hefur meðal annars starfað sem ljóðskáld, rithöfundur, ritstjóri, netskáld og myndlistarkona. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Frostdingla sem hún jafnframt myndskreytti, árið 1989 hjá Almenna bókafélaginu. Hún skipulagði fyrstu beinu myndútsendingu á netinu frá Íslandi árið 1996 sem var jafnframt fyrsta margmiðlunarhátíð landsins. Hátíðin hét Drápa[1] en var þekkt erlendis sem „Craters on the Moon“. Vefur, sem var niðurtalning að hátíðinni, var mest sótti vefur landsins á þessum tíma samkvæmt fréttum RÚV og hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga (sjá forsíðu vefsins). Birgitta skipulagði einnig „List gegn stríði“ þar sem fjöldi íslenskra listamanna og skálda komu fram til að mótmæla stríðinu í Írak. Birgitta setti upp fyrsta listagalleríið á netinu 1996 í samstarfi við Apple-umboðið undir yfirskriftinni „Listasmiðja Apple umboðsins“.

Verk Birgittu hafa verið sýnileg á internetinu síðan 1995 en þá opnaði hún vefsíðu sína „Womb of Creation“ sem lengi vel var aðeins á ensku en nú má finna svæði inni á vefnum á íslensku. Vefurinn var valinn besta heimasíða einstaklings árið 1996 af Tölvuheimi, BT tölvum og Margmiðlun. Birgitta hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra verkefna sem tengjast ritstörfum, má þar nefna; „Poets against the War“, „Dialogue among nations through poetry“ og „Poets for Human Rights“. Hún ritstýrði einnig tveimur alþjóðlegum bókum sem heita, The World Healing Book og The Book of Hope. Þar má meðal annarra finna ritsmíðar eftir Lawrence Ferlinghetti, Rita Dove, Dalai Lama, Rabbi Micheal Lerner, John Kinsella og Sigur Rós. Birgitta er einn stofnenda útgáfunnar „Beyond Borders“.

Saga í stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

Birgitta Jónsdóttir hefur verið virk í grasrótarstarfi um langa hríð áður en hún tók þátt í að stofna Borgarahreyfinguna. Má þar nefna Saving Iceland, Náttúruvaktin, Vinir Tíbets, Herstöðvarandstæðingar, Snarrót, Flóttamannahjálpin og Skáld gegn stríði. Hún skipulagði mótmæli gegn Íraksstríðinu í aðdraganda þess, þ.m.t. List gegn stríði. Hún tók þátt í að skipuleggja alþjóðlegar mótmælabúðir við Kárahnjúka 2005 og var talsmaður Saving Iceland á þeim tíma. Þá stóð hún fyrir mótmælum fyrir utan kínverska sendiráðið í hverri viku í 9 mánuði til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet árið 2008. Hún stofnaði ásamt fjölda annarra Vini Tíbets og var kjörin formaður félagsins.

Árið 1999 bauð Birgitta sig fram í annað sæti í Reykjavík fyrir Húmanistaflokkinn – helsta stefnumál flokksins var afnám fátæktar á Íslandi. Árið 2006 sótti hún um vefumsjónarstarf hjá VG í aðdraganda kosninga og fékk starfið. Hún var beðin um að taka sæti aftarlega á lista sem hún gerði en beitti sér ekki í flokknum – leit á sig fyrst og fremst sem starfsmann. Hún fann samhljóm við grænar áherslur VG.

Í framhaldi af því var Borgarahreyfingin stofnuð, sem var í upphafi nokkurs konar regnhlífarsamtök grasrótarhópa. Borgarahreyfingin bauð fram á landsvísu í alþingiskosningunum 2009 og Birgitta var oddviti í Reykjavík suður. Borgarahreyfingin hlaut 7,2% atkvæða og 4 þingmenn, Birgitta var ein þeirra. Hinir voru Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Þráinn Bertelsson. Eftir kosningarnar jókst fylgi Borgarahreyfingarinnar stöðugt og var í skoðanakönnunum rúmlega 10-11%. Fljótlega fór að harðna á dalnum og deilur voru á milli þinghópsins og stjórnar flokksins. Borgarahreyfingin hafði fyrir kosningar gefið út að hún teldi hentugast að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu og í framhaldinu yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. 11. júlí tilkynnti Birgitta að hún vildi að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um umsóknina. Fljótlega snérust Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir á sveif með Birgittu. Í atkvæðagreiðslunni á Alþingi um umsóknina 16. júlí greiddi Þráinn Bertelsson einn þingmanna Borgarahreyfingarinnar atkvæði með umsókninni. Eftir þetta spunnust upp miklar innanflokksdeilur. Þráinn Bertelsson gekk úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar í ágúst eftir persónulegar deilur við Margréti, sem hélt að hann væri veikur á geði. Borgarahreyfingin missti mikið af styrk sínum og fylgið hrapaði. Landsfundur Borgarahreyfingarinnar í september 2009 samþykkti ný lög fyrir flokkinn í andstöðu við þinghópinn og fráfarandi formann flokksins, Baldvin Jónsson. Þá sauð endanlega upp úr og þríeykið; Birgitta, Þór og Margrét ásamt fleiri fyrrum stuðningsmönnum Borgarahreyfingarinnar stofnuðu nýtt stjórnmálaafl; Hreyfinguna og varð Birgitta þingflokksformaður. [1]. Í kosningunum 2013 bauð hún sig fram fyrir Pírata, nýtt stjórnmálaafl, og náði kjöri ásamt tveimur öðrum úr þeim flokki. Birgitta ákvað að hætta á þingi árið 2017. [2]

Í júlí árið 2019 var Birgitta tilnefnd í trúnaðarráð Pírata en á félagsfundi var tilnefningu hennar hafnað með 55 atkvæðum gegn 13. Enginn af sitjandi þingmönnum Pírata samþykkti tilnefningu hennar og Helgi Hrafn Gunnarsson hélt langa ræðu þar sem hann kvaðst ekki treysta henni til að halda trúnað og sakaði hana um að „[grafa] undan samherjum sínum ef hún sér af þeim ógn“ og „[hóta] samherjum sínum þegar hún fær ekki það sem hún vill“.[3] Birgitta sagðist hafa orðið fyrir „mannorðsmorði“ á fundinum.[4]

Árið 2021 gekk Birgitta til liðs við Sósíalistaflokk Íslands.[5]

Málsvari tjáningarfrelsis

[breyta | breyta frumkóða]

Birgitta hefur mjög beitt sér sem málsvari tjáningarfrelsis, ekki síst á netinu. Hún studdi og vann fyrir WikiLeaks-lekasíðuna og kom að gerð Collateral Murder-myndbandsins og aðstoðaði við gerð handrits að kvikmyndinni Fifth Estate, að sögn til að rétta hlut Julian Assanges, stofnanda WikiLeaks og aðalpersónu myndarinnar. Hún ljáði AWP-lekasíðunni nafn sitt.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. http://this.is/craters
  2. Birgitta gefur ekki kost á sér áfram Rúv, skoðað 16. sept. 2017.
  3. Tryggvi Aðalbjörnsson (16. júlí 2019). „Helgi hellti sér yfir Birgittu á átakafundi“. RÚV. Sótt 17. júlí 2019.
  4. „„Ég upp­lifi ákveðið mann­orðsmorð". mbl.is. 16. júlí 2019. Sótt 17. júlí 2019.
  5. „Birgitta gengin til liðs við Sósíalistaflokkinn“. mbl.is. 1. ágúst 2021. Sótt 11. ágúst 2019.