Fara í innihald

Jónas Hallgrímsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd eftir Déssington gerð eftir tveimur skissum Helga Sigurðssonar, læknanema, af Jónasi á líkbörunum. Myndin birtist fyrst á titilsíðu bókarinnar Ljóðmæli og önnur rit, eftir Jónas Hallgrímsson 1883
Stytta af Jónasi eftir Einar Jónsson.

Jónas Hallgrímsson (16. nóvember 1807Hrauni í Öxnadal26. maí 1845 í Kaupmannahöfn) var íslenskt skáld og náttúrufræðingur. Hann var afkastamikill rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi og einn af stofnendum tímaritsins Fjölnis. Hann dó vegna blóðeitrunar, sem stafaði af fótbroti sem hann hlaut við að detta niður stiga.

Jónas var sonur Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur. Hann átti þrjú systkini, Þorstein (1800), Rannveigu (1802) og Önnu Margréti (1815). Á öðru ári fluttist Jónas ásamt fjölskyldu sinni til Steinsstaða í Öxnadal og var það árið 1809. Faðir hans drukknaði í Hraunsvatni árið 1816 og var Jónas þá sendur í fóstur að Hvassafelli í Eyjafirði, þar sem móðursystir hans bjó. Síðar var honum komið til náms hjá séra Jóni lærða Jónssyni í Möðrufelli. Þar hlaut hann kennslu veturinn 1819-20. Jónas var fermdur vorið 1821 heima í Öxnadal. Því næst fór hann í heimaskóla í Goðdölum í Skagafirði þar sem hann stundaði nám veturna 1821-1823 hjá séra Einari H. Thorlacius, tengdasyni Jóns lærða. Þaðan lá leið hans til Bessastaðaskóla og þar var hann við nám í sex vetur til 1829.

Að loknu stúdentsprófi starfaði Jónas sem skrifari hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta í Reykjavík þar sem hann bjó einnig. Þá starfaði hann sem verjandi í nokkrum málum fyrir landsrétti. Segir sagan að Jónas hafi beðið Christiane Knudsen veturinn 1831-32, en hún hafi hafnað honum.

Nám og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas hélt til Kaupmannahafnar til náms árið 1832. Hann lagði í fyrstu stund á lögfræði, en skipti síðar yfir í bókmenntir og náttúrufræði og er þekktur fyrir störf sín á þeim sviðum. Hann lauk svokölluðu fyrsta og öðru lærdómsprófi, báðum með 1. einkunn. Jónas fékk styrk úr ríkissjóði til rannsókna á náttúrufari Íslands og vann að því verki árin 1839 - 1842. Eftir það hélt hann til í Danmörku og var þá ýmist í Sórey eða í Kaupmannahöfn. Hann fékk styrk til að skrifa landlýsingu Íslands. Einnig ritstýrði hann Fjölni, sem hann hafði stofnað ásamt nokkrum öðrum Íslendingum á námsárunum. Voru þeir kallaðir Fjölnismenn. Þar birti hann mikið af kvæðum sínum og ritgerðum. Auk þess stundaði hann þýðingar og meðal annars þýddi hann alþýðlega bók um stjörnufræði, sem var gefin út 1842, prentuð í Viðey. Í því riti er að finna mikinn fjölda nýyrða, sem Jónas bjó til, meðal annarra orðin sporbaugur og reikistjarna.

Bein Jónasar

[breyta | breyta frumkóða]

Bein Jónasar Hallgrímssonar voru flutt til Íslands frá Assistenskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn árið 1946. Það var iðnjöfur úr Mosfellssveit, Sigurjón Pétursson að nafni, kenndur við Álafoss, sem stóð mest fyrir því að fá bein Jónasar flutt heim. Sigurjón var mikill áhugamaður um Jónas og vildi hann grafa Jónas norður í Öxnadal, þar sem hann var fæddur.

Var Sigurjón búinn að standa í miklum rökræðum við fyrirmenn í ríkisstjórn, m.a. Ólaf Thors, þáverandi forsætisráðherra, og Jónas frá Hriflu, sem átti sæti í Þingvallanefnd. Ríkið taldi bein Jónasar vera þjóðareign og að bein hans skyldu grafin í þjóðargrafreit á Þingvöllum, við hlið Einars Benediktssonar. En ríkið virtist ekki hafa peninga til að borga undir uppgröft beina Jónasar og flutning þeirra heim. Sigurjón greiddi fyrir meirihlutann, m.a. greiddi hann undir þjóðminjavörð, Matthías Þórðarson, svo hann kæmist út og gæti byrjað uppgröftinn. Það tók dágóðan tíma, því Matthías þurfti að grafa fyrst upp þá sem lágu ofan á Jónasi. Það voru hjón, sem voru jarðsett um aldamótin 1900 og feðgar jarðsettir 1875. En Jónas dó árið 1845.

Loks þegar bein Jónasar komu með Brúarfossi til landsins í október 1946, voru alþingismenn, þ.m.t. þeir sem Sigurjón hafði staðið í deilum við, fastir inni á þingi að setja lög um Keflavíkurflugvöll. Sigurjón nýtti sér tækifærið, fyrst enginn úr Þingvallanefnd eða frá ríkinu var til að taka á móti beinunum, og ók beint norður í land með líkamsleifarnar. Hann ætlaði sér að láta grafa Jónas fyrir norðan, en varð ekki að ósk sinni. Prestar fyrir norðan neituðu að jarðsyngja hann, skv. fyrirskipunum að sunnan.

Að endingu stóð kista Jónasar í kirkjunni að Bakka í um viku áður en henni var ekið suður og var svo loks grafin í þjóðargrafreitnum 16. nóvember 1946, sem var fæðingardagur Jónasar og hefur síðar hlotið heitið Dagur íslenskrar tungu.

Stytta af Jónasi eftir Einar Jónsson var afhjúpuð 1907 við Lækjargötu en var síðan færð árið 1947 í Hljómskálagarðinn þar sem hún stendur í dag.

Verk Jónasar á netinu

Blaðagreinar um Jónas