Þingvallanefnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þingvallanefnd er nefnd á vegum Alþingis sem ætlað er að fara með yfirstjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þingvallanefnd varð til þegar Þingvellir voru friðlýstir með sérstökum lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 7. maí 1928. Meðal verksviða nefndarinnar er að ráða þjóðgarðsvörð, sem annast daglegan rekstur og ræður annað starfsfólk. Nefndin fjallar oft um sumarbústaðabyggð, leyfi til bygginga og brot á samþykktum. [1]

Í þingskjali sem var lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþinginu á árunum 2003–2004 segir:

Þingvallanefnd skal skipuð þremur alþingismönnum sem kjörnir eru hverju sinni að loknum kosningum til Alþingis. Nefndin kýs formann úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn á Þingvöllum, þ.m.t. úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar. [2]

Nefndin[breyta | breyta frumkóða]

Í nefndina eru aðalmenn: Álfheiður Ingadóttir formaður, Björgvin G. Sigurðsson varaformaður, Ragnheiður E. Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Atli Gíslason og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Varamenn þeirra eru: Oddný G. Harðardóttir, Jón Gunnarsson, Þuríður Backman, Helgi Hjörvar, Vigdís Hauksdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Árni Johnsen.

Sumarbústaðir á Þingvöllum[breyta | breyta frumkóða]

Þingvellir eru þjóðgarður og "friðlýstur helgistaður allra Íslendinga". Lóðum var samt sem áður úthlutað við vatnið suður af Hótel Valhöll og þykir líklegt að Þingvallanefndir hafi sætt miklum þrýstingi að úthluta lóðum við vatnið, enda þótti snemma mikið stöðutákn að eiga þar bústað. Frá árinu 1928 og fram yfir síðari heimsstyrjöld var þessum sumarbústaðalöndum í þjóðgarðinum úthlutað. Þá var úthlutað landi undir sumarbústaði á Gjábakka í byrjun áttunda áratugarins, en vegna mikilla mótmæla risu aðeins átta bústaðir þar og úthlutanir voru dregnar til baka. Til að fría sig skaðabótakröfum bauð Þingvallanefnd þeim sem höfðu fengið úthlutað lóðum nýjar lóðir á Kárastaðanesi. Margir tóku þann kostinn, en árið 1974 var það gefið út að ekki yrðu úthlutaðar fleiri sumarbústaðalóðir í þjóðgarðinum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ákæruvaldið vill stórhýsið í burtu; grein í Dagblaðinu Vísi 1995
  2. Þskj. 1326 — 868. mál.; af Alþingi.is

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]