Fara í innihald

Jón Jónsson lærði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Jónsson lærði (17591846) var prestur í Grundarþingum í Eyjafirði á árunum 1795-1839. Hann bjó fyrst á Grund en lengst af í Möðrufelli, þar skammt frá, og er jafnan kenndur við þann bæ. Síðustu árin var hann prestur í Möðruvallaklaustursprestakalli og bjó þá í Dunhaga í Hörgárdal.

Jón var fæddur á Guðrúnarstöðum í Eyjafirði og var sonur séra Jóns Jónssonar prests í Gnúpufelli og konu hans Sigríðar Bjarnadóttur. Hann þótti mikill kennimaður og vel lærður eins og viðurnefni hans benti til. Hann aðhylltist heittrúarstefnuna og skrifaði fjölda bæklinga og smárit til að koma henni á framfæri. Meðal annars átti hann í ritdeilu við Magnús Stephensen vegna sálmabókarinnar sem Magnús gaf út og kölluð var Leirgerður. Hann lét sig fleira varða en trúmál og skrifaði um ýmis önnur efni, meðal annars búvísindi og lækningar, og orti líka kvæðabálka til fróðleiks almenningi. Hann hafði skóla á heimili sínu og kenndi þar ungum piltum. Lærðu sumir af helstu mennta- og embættismönnum þjóðarinnar undir skóla hjá Jóni, meðal annars var Jónas Hallgrímsson þar um tíma.

Kona hans var Helga Tómasdóttir, dóttir séra Tómasar Skúlasonar prests á Grenjaðarstað. Einkasonur þeirra, Jón, var ekki látinn læra hjá föður sínum, heldur sendur til Danmerkur og í skóla á Helsingjaeyri. Hann kom ekki aftur til Íslands fyrr en um 20 árum síðar og þá með danska konu og börn; eitt þeirra var Þóra Andrea Nikólína, sem síðar skrifaði eina fyrstu íslensku matreiðslubókina. Hann var jafnan nefndur Jón helsingi.

Jón lærði og Helga áttu líka fjórar dætur, Sigríði, Margréti, Álfheiði og Guðrúnu. Jón var skapríkur, strangur og siðavandur, fylgdist vel með líferni sóknarbarna sinna og tók þungt á siðferðisbrotum. Þegar elsta dóttir hans, Sigríður (þá komin um þrítugt og trúlofuð Hákoni syni Jóns Espólín sýslumanns, sem var rúmum tíu árum yngri) eignaðist barn með vinnumanni á heimilinu bað hann söfnuðinn fyrirgefningar við messu og veitti dóttur sinni opinbera aflausn. Hann lét hana sitja á krókbekk, sem var virðingarminnsti staðurinn í kirkjunni. En þegar sýslumannsfrúin á Grund, Valgerður Árnadóttir Briem, sá Sigríði sitja þar settist hún hjá henni og sat jafnan á krókbekk þaðan í frá, þau fimmtíu ár sem hún lifði. Sigríður giftist síðar Hákoni og varð prestsfrú í Stærra-Árskógi.

Jón lærði flutti sig svo yfir í Möðruvallaklausturprestakall 1839, þá tæplega áttræður, og hélt áfram að prédika, skrifa og senda frá sér alls konar boðskap til dauðadags, enda var hann einstakur eljumaður. Hann þótti mjög formfastur og þéraði til dæmis tengdasyni sína alla tíð, þótt hann væri hálfgerður uppeldisfaðir eins þeirra.

  • „Bersynduga stúlkan í Möðrufelli. Sunnudagsblað Tímans, 19. apríl 1964“.