Fara í innihald

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Hnit: 38°53′56″N 77°2′39″V / 38.89889°N 77.04417°V / 38.89889; -77.04417
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá AGS)
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washingtonborg.
SkammstöfunAGS
Stofnun1945; fyrir 79 árum (1945)
GerðAlþjóðleg fjármálastofnun
HöfuðstöðvarFáni Bandaríkjana Washington, D.C., Bandaríkjunum
Hnit38°53′56″N 77°2′39″V / 38.89889°N 77.04417°V / 38.89889; -77.04417
Opinber tungumálEnska
FramkvæmdastjóriKristalina Georgieva (síðan 2019[1])
MóðurfélagSameinuðu þjóðirnar
Vefsíðawww.imf.org

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, skammstafað AGS (e. International Monetary Fund; skammstafað IMF) er alþjóðastofnun, sem hefur það hlutverk að auka samvinnu milli ríkja og tryggja stöðugleika alþjóðlega fjármálakerfisins með því að fylgjast með gengi gjaldmiðla og greiðslujöfnuði milli ríkja heims. Stofnunin hefur það einnig að markmiði að minnka atvinnuleysi og auka hagvöxt.[2] Stofnunin veitir aðildaríkjum sínum ráðgjöf og lán til niðurgreiðslu skulda.

Alls eru 187 lönd aðilar að sjóðnum, næstum því jafn mörg og í Sameinuðu þjóðunum. Höfuðstöðvar hans eru í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Hefð er fyrir því að stjórnarformaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé evrópskur og bankastjóri Alþjóðabankans, systurstofnunar IMF, bandarískur. Núverandi framkvæmdarstjóri sjóðsins er búlgarski hagfræðingurinn Kristalina Georgieva en hún tók við af Christine Lagarde sem lét af störfum árið 2019 til að taka við stórn evrópska seðlabankans.

Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að stunda hafa eftirlit með ríkisfjármálum, gengismálum og peningastefnu aðildarríkja. Aðildarríkjum ber að hlíta reglum sem sjóðurinn setur um alþjóðaviðskipti. Annað hlutverk sjóðsins er að veita lán til ríkja sem geta ekki greitt erlendar skuldir sínar.

Starfsfé sjóðsins er aðallega byggt á framlögum aðildarríkja í hlutfalli við þjóðartekjur, utanríkisviðskiptum og nokkrum öðrum þáttum. Heildarfjármagn, mælt í SDR, fer vaxandi, sem endurspeglar aukið umfang hnattrænar efnahagsstarfsemi. Sjóðurinn býr einnig að gulleign sem metin er á 27 milljarða Bandaríkjadala sem gerir sjóðinn að einum af stærsta gulleiganda heimsins. Sjóðurinn fjármagnar sig ekki með lánum hjá almennum fjármálamarkaði heldur með samningum við aðildarríki, t.d. NAB-samninginn milli 25 landa að andvirði 44 milljarða dala.

Dagleg stjórnun sjóðsins er sinnt af framkvæmdarstjórn, skipuð af 24 framkvæmdastjórum. Hver framkvæmdarstjóri kemur úr einu kjördæmi, en innan hvers hópast fyrir nokkur ríki með sameiginlega hagsmuni. Ísland er í kjördæmi með Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum.[3]

Tilurð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má rekja til reynslu manna af Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn voru stofnuð 27. desember árið 1945. Stofnaðilar voru 29 lönd, undir forystu Harry Dexter White hjá bandaríska fjármálaráðuneytinu og breska hagfræðingsins John Maynard Keynes, sem hittust við Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum og úr varð Bretton Woods-kerfið. Í stofnskrá sjóðsins kom fram að tilgangur hans var að greiða fyrir alþjóðaviðskiptum og, eins og formlegt enska nafn bankans gefur til kynna, að stuðla að enduruppbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld. Önnur stór aðgerð sem Bandaríkjamenn áttu frumkvæðið að, og átti að auka hagvöxt nefnist Marshallaðstoðin. Í stofnskránni var ákvæði um að gengi bandaríska dalsins yrði bundið fast við verðmæti gulls. Sömuleiðis að gjaldmiðlar aðildaríkja yrðu bundnir annað hvort dalnum eða gulli.

Stofnskránni var fyrst breytt árið 1968 þegar komið var á sérstökum dráttarréttindum (e. special drawing rights (SDR), eins konar blandaðri gjaldmiðlakörfu stærstu gjaldmiðlanna, sem er eingöngu notað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hinn 15. ágúst 1971 ákvað ríkisstjórn Bandaríkjanna að afnema tengingu dollarans við gengi gulls. Stofnskránni var aftur breytt árið 1978 þegar flotgengisstefnan var tekin upp og gullfóturinn var afnuminn. Stofnskránni var breytt árið 1990 í þriðja skiptið þegar sjóðurinn gat ákveðið að svipta aðildarríki atkvæðisrétti tímabundið. Árið 1998 var 21,4 milljarðar SDR úthlutað til aðildarríkjanna, tvöföldun á þeirri fjárhæð sem þegar hafði verið úthlutað.

Í ágúst 1982 skall á skuldakreppa í Mexíkó þegar þarlend stjórnvöld lokuðu gjaldeyrismarkaði sínum og tilkynntu að þau myndu ekki geta staðið við greiðslur af erlendum lánum. Þá fór starfsemi sjóðsins í meiri mæli að snúast um að fjármagna skuldir þróunarlanda. Með falli Sovétríkjanna undir lok níunda áratugar síðustu aldar og svo kreppunni í Asíu 1997 hefur reynt á skipulag alþjóðakerfisins og hætt verið við hnattrænni heimskreppu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur leikið lykilhlutverk í viðspyrnuaðgerðum og mótað enduruppbyggingu fyrrverandi Sovétríkja.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Ísland var í hópi þeirra 29 ríkja sem tóku þátt í stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 27. desember 1945. Frá stofnun hefur Ísland fimm sinnum tekið lán. Fyrsta lán Íslendinga hjá sjóðnum var tekið árið 1960 á tímum Viðreisnarstjórnarinnar. Annað 1967-68 vegna brests í útflutningstekjum, 1974-76 vegna hækkunar á olíuverði og loks 1982 vegna útflutningsbrests. Afborgunum af þeim lánum var lokið 1987.

Seint um kvöld 19. nóvember 2008 samþykkti stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins beiðni sem íslenska ríkið hafði gert um lán upp á 2,1 milljarða Bandaríkjadala (sem voru um „294 milljarðar króna“ á þeim tíma).[4][5]

Bretton Woods-stofnanirnar þykja vera táknrænar fyrir efnahagslega heimsvaldastefnu í augum margra og iðulega er þeim mótmælt við ýmis tækifæri s.s. við G-8 leiðtogafundina. Ýmsir fræðimenn hafa sömuleiðis gagnrýnt starfshætti þeirra og má þeirra á meðal nefna Noam Chomsky, málvísindamann, og Joseph Stiglitz fyrrverandi aðstoðarbankastjóra Alþjóðabankans.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Nýr forstjóri AGS skipaður“. Viðskiptablaðið. 3. ágúst 2019. Sótt 15. maí 2019.
  2. „Articles of Agreement of the International Monetary Fund - Article I - Purposes“.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  4. vísir.is: Stjórn IMF samþykkti lánabeiðni Íslendinga[óvirkur tengill]
  5. mbl.is: IMF samþykkir lán til Íslands