Fara í innihald

Níkos Krístoðúlíðís

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Níkos Krístoðúlíðís
Νίκος Χριστοδουλίδης
Krístoðúlíðís árið 2023.
Forseti Kýpur
Núverandi
Tók við embætti
28. febrúar 2023
ForveriNíkos Anastasíaðís
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. september 1973 (1973-09-27) (51 árs)
Geroskípú, Kýpur
ÞjóðerniKýpverskur (grískur)
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
DISY (fyrir 2023)
MakiFílíppa Karsera
Börn4
HáskóliQueens College, CUNY
New York-háskóli
Háskóli Möltu
Háskólinn í Aþenu
Undirskrift

Níkos Krístoðúlíðís (grískt letur: Νίκος Χριστοδουλίδης; f. 6. desember 1973) er kýpverskur háskólaprófessor, ríkiserindreki og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Kýpur. Hann var kjörinn forseti þann 12. febrúar árið 2023.

Krístoðúlíðís var útnefndur talsmaður ríkisstjórnar Kýpur þann 11. apríl 2014. Hann var útnefndur utanríkisráðherra í annarri ríkisstjórn Níkosar Anastasíaðís þann 1. mars 2018 og gegndi því embætti til 11. janúar 2022. Krístoðúlíðís bauð sig fram sem óháður frambjóðandi í forsetakosningum Kýpur árið 2023 og vann sigur, en honum hafði þá verið vísað úr stjórnarflokknum DISY.

Níkos Krístoðúlíðís er fæddur þann 6. desember 1973 í Geroskípú.[1] Faðir hans er frá þorpinu Gíolú en móðir hans er upprunnin í Geroskípú.

Krístoðúlíðís nam stjórnmálafræði, hagfræði og grísk fræði við Queens College. Hann fór síðan í framhaldsnám í stjórnmálafræði í New York-háskóla og í opinberum erindrekstri í Möltuháskóla.

Árið 2003 hlaut hann doktorsgráðu í stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Aþenu.

Ferill í utanríkisþjónustu og háskólastarfi

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1999 hóf Níkos Krístoðúlíðís feril í untanríkisþjónustu Kýpur. Hann varð aðalræðismaður Kýpur í London, staðgengill sendinefndar Kýpur í Aþenu og ráðgjafi fastanefndar Kýpur hjá Evrópusambandinu í Brussel.

Krístoðúlíðís starfaði jafnframt við sagnfræði- og fornleifafræðideild Háskóla Kýpur sem sérfræðingur í mannkynssögu frá lokum seinna stríðs. Þann 1. september árið 2013 var Krístoðúlíðís útnefndur framkvæmdastjóri utanríkismálaskrifstofu Níkosar Anastasíaðís, forseta Kýpur.

Þann 14. apríl 2014 var Níkos Krístoðúlíðís útnefndur talsmaður ríkisstjórnar Anastasíaðís. Eftir að Anastasíaðís var endurkjörinn í febrúar 2018 var Krístoðúlíðís útnefndur utanríkisráðherra Kýpur. Hann tók við embættinu þann 1. mars 2018 og gegndi því þar til hann sagði af sér þann 10. janúar 2022.

Forsetakosningarnar 2023

[breyta | breyta frumkóða]

Níkos Krístoðúlíðís gaf kost á sér sem óháður frambjóðandi í forsetakosningum Kýpur árið 2023 eftir að honum hafði verið vísað úr stjórnarflokknum DISY. Hann lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna þann 5. febrúar með 32,04 % atkvæðanna, á undan frambjóðanda vinstriflokksins AKEL, Andreas Mavrojíannís, og frambjóðanda DISY, Averof Neofýtú, sem komst ekki í seinni umferð.[2] Litið var á Krístoðúlíðís sem lærling fráfarandi forsetans Níkosar Anastasíaðís. Hann naut jafnframt stuðnings kýpversku rétttrúnaðarkirkjunnar og nokkurra íhaldssamra og þjóðernissinnaðra stjórnmálaflokka.[3]

Krístoðúlíðís var kjörinn forseti í seinni umferð kosninganna þann 12. febrúar 2023 með 51,97 % atkvæða gegn 48,03 % sem Mavrojíannís hlaut.[4] Krístoðúlíðís var þá 49 ára gamall og er því yngsta manneskjan sem hefur náð kjöri til þessa embættis.[5][6]

Krístoðúlíðís er þekktur fyrir óbilgirni sína gagnvart Kýpurtyrkjum[7] Hann hefur tekið harðari línu en keppinautar sínir gagnvart möguleikanum á að hefja aftur viðræður við Norður-Kýpur. Hann hefur jafnframt viðrað möguleikann á því að veita öfgahægriflokkum aðild að stjórn sinni, meðal annars flokknum Elam, sem er opinberlega mótfallinn endursameiningu Kýpur.[4]

Forseti lýðveldisins

[breyta | breyta frumkóða]

Níkos Krístoðúlíðís tók við embætti forseta Kýpur þann 28. febrúar 2023.

Eiginkona Krístoðúlíðís er Filippa Karsera. Þau eiga fjórar dætur.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Nikos Christodoulides“. concordia.net. 28. ágúst 2017. Sótt 27. febrúar 2023.
  2. „Présidentielle à Chypre : l'ancien ministre Nikos Christodoulides en tête au premier tour“. France 24. 5. febrúar 2023. Sótt 27. febrúar 2023.
  3. „Le conservateur Nikos Christodoulides, ancien ministre des affaires étrangères, élu président de Chypre“. Le Monde.fr. 13. febrúar 2023.
  4. 4,0 4,1 „À Chypre, l'ancien ministre Nikos Christodoulides remporte la présidentielle“ (franska). France 24. 12. febrúar 2023. Sótt 27. febrúar 2023.
  5. „A Chypre, Nikos Christodoulides vainqueur de l'élection présidentielle“ (franska). Le Monde.fr. 12. febrúar 2023. Sótt 27. febrúar 2023.
  6. „Chypre : Nikos Christodoulides, ex-chef de la diplomatie, élu président“ (franska). Les Echos. 13. febrúar 2023. Sótt 27. febrúar 2023.
  7. „La présidentielle à Chypre marquée par le coût de la vie et les tensions avec la Turquie“. Le Monde.fr. 5. febrúar 2023.


Fyrirrennari:
Níkos Anastasíaðís
Forseti Kýpur
(28. febrúar 2023 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti