Makaríos 3.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Makaríos 3.
Μακάριος Γ΄
Makaríos í New York-borg árið 1962.
Forseti Kýpur
Í embætti
16. ágúst 1960 – 15. júlí 1974
VaraforsetiFazıl Küçük (1959–1973)
Rauf Denktaş (1973–1974)
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurNíkos Sampson
Í embætti
7. desember 1974 – 3. ágúst 1977
VaraforsetiEnginn
ForveriGlavkos Klíríðís
EftirmaðurSpýros Kýpríanú
Erkibiskup Kýpur
Í embætti
18. september 1950 – 3. ágúst 1977
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. ágúst 1913
Pano Panagia, Pafos, Kýpur
Látinn3. ágúst 1977 (63 ára) Nikósíu, Kýpur
ÞjóðerniKýpverskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
TrúarbrögðRétttrúnaðarkirkjan
HáskóliAþenuháskóli
Boston-háskóli
Undirskrift

Makaríos 3. (gríska: Μακάριος Γ΄); fæddur undir nafninu Míkaíl Krístodúlú Múskos (gríska: Μιχαήλ Χριστοδούλου Μούσκος) (13. ágúst 1913 – 3. ágúst 1977) var grísk-kýpverskur prestur og stjórnmálamaður sem var erkibiskup og prímati kýpversku rétttrúnaðarkirkjunnar (1950–1977) og fyrsti forseti Kýpur (1960–1977). Á þremur kjörtímabilum sínum sem forseti eyríkisins tókst Makaríosi að lifa af fjögur morðtilræði og valdaránstilraun árið 1974.[1] Grískir Kýpverjar líta gjarnan á Makaríos sem landsföður eða „Eþnarka“ kýpversku þjóðarinnar.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Míkaíl Krístodúlú Múskos fæddist þann 13. ágúst árið 1913 til fátækra og ómenntaðra bænda í þorpinu Pano Panagía í vesturhluta Kýpur. Hann gekk þrettán ára gamall í klaustur og hafði þá þegar tekið ákvörðun um að gerast prestur.[3]

Eftir að Múskos lauk klaustursvist sinni var hann sendur til Aþenu til að nema guðfræði við Aþenuháskóla. Ásamt guðfræðináminu sótti hann fyrirlestra í lögfræði á þessum tíma. Múskos tók prestsvígslu árið 1946 og hlaut styrk frá Alkirkjuráðinu til að nema guðfræði og þjóðfélagsfræði við Boston-háskóla í Bandaríkjunum.[3]

Múskos var kjörinn biskup af Kition árið 1948 og tók sér prestsnafnið Makaríos.[4] Makaríos sneri heim til Kýpur til að taka við biskupsdæminu og hóf þar þátttöku í baráttu grískra Kýpverja fyrir samruna Kýpur við Grikkland. Makaríos var kjörinn erkibiskup af Kýpur árið 1950, aðeins 37 ára gamall. Á þessum tíma barðist skæruliðahreyfingin EOKA fyrir samruna Kýpur við Grikkland og fyrir endalokum breskra yfirráða á eyjunni. Makaríos starfaði ekki opinberlega með hreyfingunni en hann neitaði þó að fordæma ofbeldisverk hennar, sem leiddi til þess að margir töldu hann í reynd styðja þau.[3]

Árið 1956 ákváðu bresk stjórnvöld að gera Makaríos brottrækan frá Kýpur og flytja hann í útlegð til Seychelles-eyja. Útlegð Makaríosar friðþægði sjálfstæðishreyfinguna á Kýpur ekki og næstu ár á eyjunni reyndust mjög ofbeldisfull. Árið 1959 ákváðu Bretar loks að veita Kýpur sjálfstæði og Makaríosi var leyft að snúa heim næsta ár. Makaríos undirritaði London-Zürich-sáttmálann um sjálfstæði Kýpur fyrir hönd grískra Kýpverja þann 19. febrúar 1959. Sáttmálinn tryggði Kýpur sjálfstæði og rétt til að ganga í breska samveldið en útilokaði jafnframt að landið fengi að sameinast Grikklandi og viðurkenndi rétt bæði Grikkja og Tyrkja til að senda herlið til eyjunnar ef breytingar yrðu gerðar á ákvæðum sáttmálans. Jafnframt voru tyrkneska minnihlutanum tryggð ýmis stjórnarskrárbundin réttindi. Í desember árið 1959 var Makaríos kjörinn fyrsti forseti hins nýja lýðveldis Kýpur, sem hlaut fullt sjálfstæði frá Bretlandi í ágúst næsta ár.[3]

Margir grískir þjóðernissinnar á Kýpur litu á Makaríos sem svikara fyrir að hafa gefið drauminn um samruna við Grikkland upp á bátinn. Makaríos taldi skilyrði London-Zürich-sáttmálans illskársta kostinn fyrir eyjuna og beitti sér sem forseti fyrir áframhaldandi sjálfstæði og hlutleysi Kýpur. Hann hafnaði tillögum um að Atlantshafsbandalagið héldi uppi friðargæsluliði á eyjunni og hafnaði sömuleiðis tillögu um að Kýpur fengi að sameinast Grikklandi að undanskyldum tveimur héruðum þar sem Tyrkir voru í meirihluta. Taldi hann þá tillögu fela í sér enn frekari sundrun Kýpverja.[3]

Í nóvember árið 1963 reyndi Makaríos að gera stjórnarskrárbreytingar í þrettán liðum sem áttu að létta á kynþáttakvótum sem tryggðu tyrkneskum Kýpverjum ákveðinn lágmarksfjölda ríkisembætta. Taldi hann að þetta myndi gera kýpversku ríkisstjórnina skilvirkari. Tillögur Makaríosar féllu afar illa í kramið hjá tyrkneskum embættismönnum, meðal annars varaforsetanum Fazıl Küçük.[3] Breytingartillögurnar hleyptu af stað hrinu kynþáttaofbeldis milli grískra og tyrkneskra Kýpverja sem hafa síðan verið kölluð „blóðugu jólin“.[5][6] Árið 1964 voru friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna sendar til eyjunnar til að hafa hemil á átökunum.[7]

Árið 1974 frömdu kýpverskir hershöfðingjar sem aðhylltust sameiningu við Grikkland valdarán gegn Makaríosi og settu blaðamanninn Níkos Sampson á forsetastól. Makaríos komst undan valdaránsmönnunum og flúði til Englands en hélt síðan til Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann skoraði á öryggisráðið að tryggja sjálfstæði Kýpur. Þann 20. júlí gerðu Tyrkir innrás á Kýpur til að vernda hagsmuni tyrkneskra Kýpverja gegn nýju stjórninni og í kjölfarið sagði Sampson af sér sem forseti og þingforsetinn Glavkos Klíríðís tók við forsetaembættinu. Tyrkir hertóku um þriðjung eyjunnar áður en samið var um vopnahlé. Makaríos sneri aftur til Kýpur þann 7. september 1974 og tók aftur við forsetaembættinu við mikinn fögnuð grískra Kýpverja.[1] Tyrkneskir Kýpverjar á hernámssvæði Tyrklandshers viðurkenndu hins vegar ekki endurkomu Makaríosar á forsetastól og lýstu yfir stofnun eigin ríkis á norðurhluta eyjunnar. Sem forseti beitti Makaríos sér gegn því að Kýpverjar og önnur ríki veittu Norður-Kýpur alþjóðlega viðurkenningu.[7]

Makaríos lést úr hjartaáfalli þann 3. ágúst árið 1977. Hjarta hans var fjarlægt úr líkinu til að ganga úr skugga um dánarorsök hans og hefur síðan verið geymt í svefnherbergi hans í aðsetri erkibiskupsins.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „„Slóttugur meistari stjórnmálanna". Morgunblaðið. 4. ágúst 1977. Sótt 21. október 2019.
  2. Andrekos Varnava; Michalis N. Michael (26. júlí 2013). „The Archbishops of Cyprus in the Modern Age: The Changing Role of the Archbishop-Ethnarch, their Identities and Politics“ (enska). Cambridge Scholars Publishing. Sótt 20. október 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 „Makaríos“. Lesbók Morgunblaðsins. 7. febrúar 1965. Sótt 20. október 2019.
  4. Sigurður A. Magnússon (30. apríl 1961). „Makaríos bað að heilsa Íslendingum“. Morgunblaðið. Sótt 21. október 2019.
  5. Ali Carkoglu (1. apríl 2003). Turkey and the European Union: Domestic Politics, Economic Integration and International Dynamics. Taylor & Francis. bls. 67. ISBN 978-0-7146-8335-5. Sótt 21. október 2019.
  6. Salomon Ruysdael (1. september 2002). New Trends in Turkish Foreign Affairs: Bridges and Boundaries. iUniverse. bls. 299–. ISBN 978-0-595-24494-2. Sótt 21. október 2019.
  7. 7,0 7,1 „Maður guðs og stjórnmála“. Tíminn. 4. ágúst 1977. Sótt 20. október 2019.
  8. Markides, Constantine. "Macabre battle over Makarios’ heart" Geymt 21 maí 2007 í Wayback Machine. Cyprus Mail, 16. nóvember 2006. Accessed 21. október 2019.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Kýpur
(16. ágúst 196015. júlí 1974)
Eftirmaður:
Níkos Sampson
Fyrirrennari:
Glavkos Klíríðís
Forseti Kýpur
(7. desember 19743. ágúst 1977)
Eftirmaður:
Spýros Kýpríanú